Sala lóða í Hnoðraholti að hefjast – besta staðsetningin á höfðuborgarsvæðinu

Í sumar hefst úthlutun á fyrstu lóðunum í Hnoðraholti norður í Garðabæ, en jarðvegsvinnu og gatnagerð mun ljúka á svæðinu í haust. Reikna má með að nýir lóðarhafar muni hefja uppbyggingu strax á þessu ári og að íbúar geti flutt inn 2025.

Garðapósturinn heyrði í Almari Guðmundssyni bæjarstjóra í Garðabæ og spurði hann nánar um þessar miklu framkvæmdir og uppbygginguna sem framundan er í Vetrarmýri og Hnoðraholti.

Stefnir í mjög spennandi hverfi með fjölbreyttum búsetukostum

Eins og bæjarbúar hafa tekið eftir hafa miklar jarðvegsframkvæmdir og gatnagerð staðið yfir í rúmt ár í Vetrarmýri og á Hnoðraholti. „Þess má geta, svo bæjarbúar eigi auðveldara með að átta sig á fyrirhuguðum fjölda íbúða í Hnoðraholti og Vetrarmýri að þá verða þær aðeins færri en íbúðirnar í öllu Urriðaholtinu en þetta er eins og maður segir: 10 – 15 ára planið,“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar. „Þetta er besta landið á höfuðborgarsvæðinu myndi ég segja og stefnir í mjög spennandi hverfi með fjölbreyttum búsetukostum og í frábærri tengingu við útivistarsvæði.“

Stækkunin verður ekki of hröð Almar minnir á metnað Garðabæjar varðandi þjónustu til íbúa. „Þess vegna tölum við um þetta sem langtíma plan. Stækkunin verður ekki of hröð. Við leggjum stöðugt metnað í að byggja upp bæinn með sterka innviði. Við erum stolt af góðri þjónustu og ætlum að veita hana áfram,“ segir hann en gera má ráð fyrir grunnskóla, leikskóla og svo liggur fyrir að íþrótta- svæðið við Miðgarð mun stækka.

Hnoðraholt suður í skipulagsvinnu

Uppbyggingin sem framundan er mun eiga sér stað á þremur svæðum, í Vetrarmýri og Hoðraholti norður og suður. „En fókusinn er núna á það sem við köllum Hnoðraholt norður. Næsta skref hjá Garðabæ er að úthluta fyrstu lóðunum þar og á næstu misserum verður svo farið í skipulagsvinnu við Hnoðraholt suður,“ segir Almar en Hnoðraholt norður er ofan á holtinu og Hnoðraholt suður er hlíðin sem snýr að golfvelli GKG.

Garðabær mun selja alls um 250 lóðir og þar af eru um 90 í sérbýli

„Við erum að klára skilmála og regluverkið í kring um söluna á lóðunum. Við seljum hluta af lóðunum í sumar og svo hluta í haust. Garðabær mun selja alls um 250 lóðir og þar af eru um 90 í sérbýli. Við gerum ráð fyrir því að verktakar muni bjóða í fjölbýlishúsalóðir en ég vænti þess að mikill áhugi verði hjá einstaklingum og fjölskyldum á öðrum lóðum. Við skynjum mikinn áhuga og ég veit að þjónustuverið okkar hefur varla undan að svara fyrir-spurnum. En við vitum líka að efnahagsaðstæður eru krefjandi. Samtímis er mikil þörf á uppbyggingu sem þessari.“

Deiliskipulag fyrir Hnoðraholt norður. Reykjanesbrautin er lengst til vinstri á myndinni og Arnarnesvegur efst. Nýr vegur með nafninu Vetrarbraut sker hverfið og liggur niður í Vetrarmýri. Bláu húsinu eru núverandi byggð og Þorraholt er vestan við Vetrarbraut. Fyrir austan hana og í átt að núverandi byggð í Þorrasölum (hægra megin á myndinni) verða lágreistari fjölbýlishús, einbýlishús og raðhús. Í sumar hefst svo úthlutun á fyrstu lóðunum í Hnoðraholti norður, en jarðvegsvinnu og gatnagerð mun ljúka á svæðinu í haust. ATH! Skipulagsmyndin er birt með fyrirvara um breytingar.

Í Þorraholti munu rísa 230 íbúðir og framkvæmdir eru hafnar í Vetrarmýri

Það eru fleiri aðilar en Garðabær sem eru að standa að uppbyggingu í Hnoðraholti og Vetrarmýri. Í Þorraholti munu rísa um 230 íbúðir og munu byggingarframkvæmdir hefjast síðar á þessu ári. Þá eru fyrstu framkvæmdir í Vetrarmýri á vegum framkvæmdafélagsins Arnarhvols þegar farnar af stað. Garðabær á eftir að bjóða út tvo áfanga til viðbótar í Vetrarmýri.

Bæjarstjórinn sér mikil tækifæri í Hnoðraholtinu

„Hnoðraholtið og Vetrarmýri eru ótrúlega vel staðsett með tilliti til samganga og þjónustu, en fólk sem leitar að auðveldu aðgengi að náttúru og útivist ætti að finna þarna draumahverfið sitt. Það gerist varla meira miðsvæðis en Hnoðraholt. Það er stutt í allt og möguleikarnir óteljandi! Ég held að ég verði bara að segja: fylgist með, þetta er allt að gerast,“ segir Almar að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar