Niðurstaða sem félagið og Garðabær geta verið stolt af

Að vera með fimm gull og eitt silfur er auðvitað framar björtustu vonum – segir Hlynur Bæringsson

Vegna frábærs árangurs yngri flokka Stjörnunnar í körfubolta hafði Garðapósturinn samband við Hlyn Bæringsson yfirþjálfara og Stjörnunnar og leikmann meistaraflokk karla og Björgvin Inga Ólafsson, formann barna- og unglingaráðs körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar, en eins og fram kom í frétt í Garðapóstinum í gær og hér á vefnum þá hafa yngri flokkar Stjörnunnar nú þegar tryggt sér fimm Íslandsmeistaratitla af þeim sex sem í boði eru auk þess ein silfurverðlaun.

Hlynur Bæringsson yfirþjálfari yngri flokka Stjörnunnar og fyrirliði meistaraflokks karla þekkir það lyfta bikurum, en rétt ár er liðið síðan hann sjálfur lyfti Geysisbikarnum eftir sigur í úrslitaleik á móti Grindavík

Þetta er sannarlega frábær árangur sem yngri flokkar Stjörnunnar hafa náð, fimm Íslandsmeistaratitlar í húsi af sex og eitt silfur. Þú hlýtur að vera gríðarlega ánægður með þennan frábæra árangur? ,,Já, svo sannarlega. Það er ótrúlegt að hugsa til þess að einn slakur leikur sigursællra 2007 stráka þessa helgina sé það sem skilur á milli þess að við höfum landað sigrum í öllum flokkum Íslandsmóts yngri flokka til þessa þetta vorið. Að vera með fimm gull og eitt silfur er auðvitað framar björtustu vonum og niðurstaða sem félagið, bærinn og samfélagið allt í Garðabæ getur verið stolt af,“ segir Hlynur Bæringsson yfirþjálfari yngri flokka hjá körfuknattleiksdeild Stjörnunnar.

Íþróttastarf barna er seigluverkefni

Hverju má þakka þessum frábæra árangri, hvað hefur breyst í ár, eða hefur árangur verið svipaður á undanförnum árum? ,,Íþróttastarf barna er seigluverkefni. Það tekur langan tíma að byggja upp gott starf og það má lítið út af bregða. Við leggjum mikið upp úr faglegu starfi og frábærum þjálfurum því þar byrjar þetta allt saman. Stjarnan hefur vaxið nokkuð ört en örugglega síðustu ár og er núna orðið stærsta körfuboltafélag landsins. Árangur hefur vorðið betri með hverju árinu. Iðkendum hefur fjölgað úr 200 í 400, landsliðskrökkum hefur fjölgað úr örfáum á ári í yfir 20 nú síðast og titlar hafa svo fylgt í kjölfarið. Við höfum undanfarin ár nælt í nokkra titla en ekkert eins og í ár. Við erum svakalega stolt af þeirri áherslu sem við höfum lagt á stelpustarfið og því er frábært að segja frá því að Stjarnan vann sinn fyrsta titil í kvennakörfu um daginn þegar minni bolti 12 ára vann sinn flokk og hefur Stjarnan nú unnið alla þrjá stelpuflokkana sem hafa lokið leik,“ segir Björgvin Ingi Ólafsson, formaður barna- og unglingaráðs körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar.

Björgvin Ingi Ólafsson er formaður barna- og unglingaráðs körfuknattleiksdeildar og hann er stoltur af árangrinum sem hann segir að hafa orðið betri með hverju árinu. ,,Iðkendum hefur fjölgað úr 200 í 400, landsliðskrökkum hefur fjölgað úr örfáum á ári í yfir 20 nú síðast og titlar hafa svo fylgt í kjölfarið,“ segir hann.

Möguleiki á fleiri titlum

Og það hafa ekki enn allir flokkar lokið leik á Íslandsmótinu, gætu fleiri Íslandsmeistaratitlar bæst í hús? ,,Það eru ennþá möguleikar á fleiri titlum þó við vitum aldrei hvað gerist. Krakkar fæddir 2009, 2006, 2005 eru eftir af grunnskólaárgöngum auk elstu flokka stelpna og stráka sem heita unglingaflokkur, drengjaflokkur og stúlknaflokkur. Við hvetjum Garðbæinga til að fylgjast með deildinni á Facebook og koma við og sjá krakkana keppa þegar við erum á heimavelli því það er mikil skemmtun að sjá okkar frábæru iðkendur,“ segir Hlynur.

Getum alltaf gert betur

Sérðu fram á að þið getið enn bætt starfið í yngri flokkunum og gert það enn öflugra og körfuna áhugaverðari fyrir krakkana? ,,Við getum svo sannarlega alltaf gert betur. Með fleiri iðkendum þurfum við enn fleiri góða þjálfara og auk þess er orðið heldur þröngt á þingi. Bærinn styður vel við starfið og nú væri frábært ef hægt væri að lappa aðeins upp á bláa salinn og lengja tímann sem við getum verið í Ásgarði um helgar því okkur veitir svo sannarlega ekki af fleiri klukkutímum í húsinu með alla þessa krakka. Við höldum svo áfram að efla stelpustarfið,“ segir Björgvin Ingi, stoltur formaður barna- og unglingaráðs körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar