Mikilvægt að hafa áhuga á öðru fólki og þeirra viðfangsefnum

Þann 14. maí nk. er ár liðið frá sveitarstjórnarkosningunum í fyrra, en þar hélt Sjálfstæðisflokkurinn hreinum meirihluta.

Garðapósturinn tók því stöðuna á Almari Guðmundssyni, bæjarstjóra í Garðabæ, nú þegar ár er liðið frá kosningunum, en Almar, sem hefur setið í bæjarstjórn frá 2014, tók við sem oddviti flokksins fyrir kosningarnar og svo við stól bæjarstjóra að þeim loknum.

Mörg áherslumál komin af stað og ýmsu er þegar lokið

Og hvernig finnst honum fyrsta árið hafa gengið hjá meirihlutanum og bæjarstjóranum sjálfum? ,,Það hefur gengið ljómandi vel. Við í meirihlutanum höfum verið samhent og gaman að segja frá því að mörg af okkar áherslumálum eru komin af stað og ýmsu er þegar lokið. Við horfum einbeitt til þess að halda áfram að gera vel fyrir íbúa Garðabæjar. Samstarf við aðra flokka í bæjarstjórn hefur líka gengið vel og andinn í bæjarstjórninni er góður,” segir Almar.

Kemur hlaðinn orku og með mikla trú á framtíðina eftir að hafa hitt leik- og grunnskólabörn

,,Á persónulegri nótum er óhætt að segja að verkefnin hafi verið mörg en flest skemmtileg enda er leiðarljósið alltaf að gera vel fyrir íbúa og vinna í þeirra þágu. Ef ég ætti að nefna eitthvað sem stendur upp úr þá er það annars vegar ánægjuleg og lifandi samskipti við leik- og grunnskólabörnin í bænum. Ég kem hlaðinn orku og með mikla trú á framtíðina eftir að hafa hitt þau. Svo er ég heppinn að vinna með frábæru starfsfólki bæjarins en þau ganga metnaðarfull og bjartsýn til sinna starfa á hverjum degi, sem er svo sannarlega verðmætt.”

Víðfemt og fjölbreytt starf

Þú hefur verið bæjarfulltrúi frá 2014 og þekkir því vel málefni bæjarins, en er eitthvað sem hefur komið þér á óvart hvað starf bæjarstjórans varðar? ,,Ég get nú ekki sagt að margt hafi komið mjög á óvart. Starfið snýst mjög mikið um samskipti um stór og smærri mál. Það er mikilvægt að hafa áhuga á öðru fólki og þeirra viðfangsefnum. En þrátt fyrir að ég hafi þekkt vel til málefna bæjarins hefur það samt komið mér á óvart hversu víðfemt og fjölbreytt starf bæjarins er.”

Íbúar Garðabæjar halda okkur við efnið á jákvæðan hátt

Ég nefndi hér fyrir ofan að þú þekkir málefni bæjarins vel eftir níu ára setu í bæjarstjórn, en eru þau kannski að einhverju leyti síbreytileg með breyttri samfélagsgerð, kröfunar að breytast með hverju ári? ,,Eins og gengur breytast kröfurnar aðeins eftir því sem tíminn líður. Aðalástæðan fyrir því er samt lagaleg og varðar skyldur í þjónustu sveitarfélaga. Við höfum held ég alltaf verið heppin með að íbúar Garðabæjar halda okkur við efnið á jákvæðan hátt. Mér finnst gott að þau geri kröfur. Við mætum því eftir bestu getu og erum stolt af því að íbúarnir svara sterkt í könnunum að þjón-ustan er góð.”

Höfum fjárhagslegt bolmagn til að standa vel að endurbótum

Hverjar eru helstu áskoranir Garðabæjar í dag og hverjar verða þær fram að næstu sveitarstjórnarkosningum, sem verða árið 2026? ,,Garðabær hefur vaxið nokkuð hratt undanfarin ár og samfélagið hefur yngst. Það er mjög jákvætt en felur í sér áskorun varðandi uppbyggingu þjónustu og framkvæmdir. Ég held að íbúarnir upplifi að þessu miðar vel áfram. Þótt uppbygging næstu tveggja til þriggja ára verði hægari en undanfarin ár verður þetta áfram mikilvægt verkefni.
Við höfum lagt áherslu á endurbætur á húsnæði undanfarið ár og munum gera áfram. Við erum að glíma við myglu og rakaskemmdir, sérstaklega í Flataskóla og Hofsstaðaskóla, sem er mjög flókið verkefni. Vinnan þar gengur vel og ég verð að hrósa starfsfólki og nemendum þessara skóla sérstaklega fyrir gott starf við krefjandi aðstæður. Við höfum leitast við að styðja vel við bakið á þeim.”

Segjum skilmerkilega frá þegar farið er í athuganir og framkvæmdir

Og Almar heldur áfram: ,,Hluti af verkefninu er augljóslega að styrkja nýtt verkferli um þessi mál í sessi. Það leiðir það af sér að starfsfólk, nemendur og íbúar verða meira vör við þessi mál því við segjum skilmerkilega frá þegar farið er í athuganir og framkvæmdir, en það gerðum við ekki með markvissum hætti áður. Sem betur fer er algengast að skemmdir af þessum toga séu staðbundnar og vel viðráðanlegar. Við höfum fjárhagslegt bolmagn til að standa vel að endurbótum og það skiptir svo sannarlega máli.
En talandi um fjármál. Það er alveg ljóst að hagur allra sveitarfélaga er að versna, annars vegar vegna verðbólgu og óvissu í efnahagsmálum en einnig vegna aukinna skylduverkefna. Það er því mikilvægt að sýna fyrirhyggju og viðhalda góðri fjárhagslegri stöðu.”

Vill eiga í góðum og reglulegum samskiptum við bæjarbúa og heyra frá þeim

Garðabær á gríðarlega mikið af óbyggðu landi, uppbygging er að hefjast í Vetrarmýri, Hnoðraholti og hún er í fullum gangi á Álftanesi og Eskiási og svo er allt Garðaholtið óbyggt. Hvernig sérðu þróunina hvað uppbyggingu í landi Garðabæjar varðar á næstu árum og jafnvel áratugum? ,,Íbúðauppbyggingu í Urriðaholti lýkur senn en atvinnuuppbygging heldur áfram. Uppbyggingarsvæðin okkar á næstu árum eru aðallega á Álftanesi, Hnoðraholti, Vetrarmýri og Eskiás. Einnig mun Arnarland, á norðanverðum Arnarneshálsi, koma inn en atvinnuuppbygging verður væntanlega fyrst á ferðinni þar. Á Álftanesi erum við að fara yfir innviðina sem þarf til að mæta fjölgun íbúa. Ég geri ráð fyrir að við förum yfir stöðuna með íbúum þar síðla sumars. Ég vil eiga í góðum og reglulegum samskiptum við bæjarbúa og heyra frá þeim. Þannig komumst viðframhjá ákveðnum vaxtaverkjum ef svo má að orði komast,” segir hann og heldur áfram: ,,Svo munu Vetrarmýri og Hnoðraholt byggjast upp jafnt og íbúar fara að flytja á svæðin 2025/2026. Íbúar Garðabæjar eru nú rúmlega 19 þúsund og það má búast við að okkur fjölgi um 2-3000 á næstu 3-4 árum. Við erum í sjálfu sér ekki farin að hugsa til Garðaholts enn þá og fyrirsjáanlegt að nokkuð langt verði í uppbyggingu þar.”

Stöndum vel hvað varðar innviði

Hver eru stærstu verkefnin framundan hjá Garðabæ þegar kemur að framkvæmdum og innviðum, þær hljóta að verða töluverðar með aukinni uppbyggingu og fjölgun íbúa? ,,Við stöndum vel hvað varðar innviði og má nefna Miðgarð sem dæmi um framkvæmd sem nýtist vel í framhaldinu og styður við samfélagið sem heild. En áherslan er auðvitað á uppbyggingarsvæðin og sem dæmi munum við bjóða út 3. áfanga Urriðaholtsskóla seinna á árinu.”

Höfum mikil tækifæri til að þróa samfélagið okkar og bæjarlandið áfram þannig að mikill sómi verði að

Og bæjarstjórinn er bjartsýnn á framtíð Garðabæjar og íbúa þess fyrir næstu árin? ,,Já ég er bjartsýnn enda höfum við mikil tækifæri til að þróa samfélagið okkar og bæjarlandið áfram þannig að mikill sómi verði að. Það er samt nauðsynlegt að vera raunsær líka, við þurfum og munum fara varlega í rekstri bæjarins á næstu misserum á meðan óvissa er uppi í efnahagsmálum.”

Ef við tökum aðeins upp léttara spjall. Hvernig er morguninn hjá bæjarstjóranum áður en hann mætir í vinnu? ,,Það er nú bara klassískt. Við sjáum til þess að ungu mennirnir á heimilinu fari vel af stað út í daginn. Ég les alltaf blöðin og netið áður en haldið er til vinnu til að vita hvað klukkan slær. Að sjálfsögðu er Garðapósturinn í forgangi á útgáfudögum hans.”

Nær að kúpla sig út

En hvernig er það, nær bæjarstjórinn að loka á vinnuna þegar hann stimplar sig út eftir daginn eða er hann alltaf með hugann við vinnuna og jafnvel bæjarbúar haldi honum við efnið þegar þeir hitta hann á förnum vegi, saman hvort það sé utan vinnutíma og um helgar? ,,Já, ég næ nú að kúpla mig út. Auðvitað er það samt þannig að fólk tekur spjallið um stórt og smátt þegar ég hitti það á förnum vegi, en það liggur einfaldlega í eðli starfsins. Ég nýt þess mjög að hlaupa um bæjarlandið annað hvort einn, með Guðrúnu eða í hópi félaga í hlaupahópi Stjörnunnar. Ég næ þar bæði að slappa af og aftengja mig frá vinnu í smá stund en svo er það þannig að stundum rekst ég á eitt og annað sem betur má fara og kem því þá til míns góða samstarfsfólks.”

Almar gefur ungum iðkendum í Stjörnunni nokkrar fimmur þegar samingar milli Garðabæjar og Stjörnunnar voru endurnýjaðir í Miðgarði í lok mars

Fylgist vel með íþróttum og hlaupin taka pláss í dagskránni

Á svo bæjarstjórinn einhver áhugamál sem hann nær að sinna? ,,Já, ég fylgist mikið með íþróttum, bæði í gegnum börnin og eins bara almennt. Hlaupin taka oftast pláss í dagskránni og þar erum við hjónin á sömu línu. Ég er síðan auðvitað mjög pólitískur og spái í þjóðmál og efnahagsmál.”

Fylgir yngstu drengjunum eftir á fótboltamótum innanlands og utan

Nú er sumarið framundan – ætlar bæjarstjórinn að taka gott sumarfrí og er eitthvað planað? ,,Já, framundan er að fylgja yngstu drengjunum okkar eftir á fótboltamót innan lands og utan. Það er fátt skemmtilegra. Svo munum við passa upp á fara í styttri ferðir um okkar fallega land, það gefur góða hleðslu að komast upp á hálendi.”

Magnað hvað við Garðbæingar erum rík af flottum íþróttaliðum og íþróttafólki

gengi um karla- og kvennaliðs Stjörnunnar í Bestu deildinni í sumar? ,,Mér líst vel á liðin hjá Stjörnunni. Þau geta bæði mun meira en þau hafa sýnt til þessa og ég veit að það mun ganga eftir. Svo spilar elsti drengurinn okkar með KFG og ég fylgi þeim að sjálfsögðu eftir. Ekki má svo gleyma að lið Ungmennafélagsins Álftaness eru líka öflug. Annars er það nú bara magnað hvað við Garðbæingar erum rík af flottum íþróttaliðum og íþróttafólki,” segir bæjarstjóri Garðabæjar að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar