Mér fannst lífsgæði mín aukast við að læra og tileinka mér myndlist

Þuríður Sigurðardóttir myndlistarkennari og söngkona er reglulega með myndlistarnámskeið á vinnustofunni sinni í Garðabæ, sem staðsett er í portinu aftan við Garðatorg, en næsta námskeið verður á dagtíma dagana 16. – 20. janúar, frá 10 – 16 alla.

Þuríður útskrifaðist úr Listaháskólanum 2001 og fljótlega byrjaði hún að kenna olíumálun, fyrst í myndlistarskólum en síðan á eigin vegum. Hún hefur starfað í heimabænum sínum, Garðabæ, síðan 2019.

Námskeiðin eru fyrir alla, byrjendur og lengra komna. Áhersla er lögð á að kenna grunnþætti olíumálverksins, fjallað um mismunandi tækni, stíla og stefnur. ,,Ég leitast við að þjálfa færni nemenda í listsköpun og auka þekkingu á myndlist, sem m.a. felst í að fletta inn í kennslu í olíumálun dæmi og fróðleik úr listasögunni,” segir Þuríður en kennslan er einstaklingsmiðuð svo hver og einn fær kennslu eftir færni og getu.

Nemendur á myndlistarnámskeiði hjá Þuru eins og Þuríður er kölluð, en næstu námskeið hjá henni hefjast 16. janúar nk.

Söng myndlistardrauminn í svefn

,,Mig langaði alltaf að læra myndlist, en söngurinn tók yfir þegar ég var unglingur og ég segi stundum að ég hafi sungið myndlistardrauminn í svefn. Á miðjum aldri, þegar synir mínir voru stálpaðir fór ég að hugsa um þetta aftur, að læra myndlist en mér fannst ég þurfa að fara alla leið ef ég á annað borð færi af stað. Ég fór því í fornám með annarri vinnu og lagði hart að mér við að ná árangri, sem skilaði mér inn í Listaháskólann. Þar var ég svo lánsöm að kynnast öllum miðlum myndlistar en ég er enn höll undir málverkið. Um fimmtugt útskrifaðist ég svo með BA gráðu í myndlist uppá vasann, tilbúin í slaginn,” segir hún.

Þuríður fyrir framan verk sín á sýningunni Veggir í Hörpu

Finnst ég hafa verið lokuð inn í herbergi allt mitt líf

,,Fljótlega kviknaði sú hugmynd að breiða út “fagnaðarerindið” því mér fannst lífsgæði mín aukast við læra og tileinka mér myndlist. Ég get tekið undir orð eins af nemendum mínum, sem sagði þegar hann kvaddi eftir námskeið: ,,Þura, mér finnst ég hafi verið lokaður inní herbergi allt mitt líf – en þú opnaðir dyrnar.” Ég nýt þess að kenna og námskeiðn mín eru skilvirk. Nemendur fá kynningu á undirlagsefnum, mismunandi áhöldum og litum og auk verklegrar kennslu í olíumálun legg ég áherslu á að kynna nemendum stíla og stefnur og fletta inní kennsluna örfyrirlestrum í listasögu. Nemendafjöldi einskorðast við 6 – 7 manns og þannig næst einstak-lingsmiðuð kennsla, fyrir fólk á öllum aldri. Það er aldrei of seint að byrja.”

Ég hef aldrei hætt að syngja – hver gerir það?

En hvað með sönginn? Lagði þú hann til hliðar þegar þú byrjaðir að mála? ,,Nei, ég hef aldrei hætt að syngja – hver gerir það? En ég hef ekki aðalatvinnu af söngnum lengur. Ég hef verið svo lánsöm að verkin mín hafa verið valin á sýningar í listasöfnum og galleríum bæði hér heima og erlendis og mér hefur vegnað vel sem myndlistarmanni og ég er í fullri vinnu á þeim vettvangi. Myndlistina og aðstöðuna fjármagna ég með kennslunni, sem gefur mér frjálsræði til að vinna á eigin forsendum, oft stór verk sem taka langan tíma í vinnslu og þykja ekki söluleg. Nýjustu röðina mína, sem ég nefni Veggi sýndi ég í Hörpu fyrir ári síðan. Myndefnið er veggir Búrfellsgjár og sýningin vakti afar jákvæða athygli,” segir Þuríður að lokum en vinnustofan hennar er í porti bakatil á Garðatorg, inngangur við Hrísmóa, eins og áður segir.

Netfang Þuru er: [email protected]

Þura með leiðsögn á sýningunni sinni Veggir í Hörpu
Nemandi á myndlistarnámskeiði hjá Þuru.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar