Mengunarálag frá Álverinu í Straumsvík líklega mest á Garðaholti og á Álftanesi samkvæmt nýlegum rannsóknum

Garðabær hefur keypt loftgæðamæli og hefur Heilbrigðiseftirlitið mælt með því við umhverfisnefnd Garðabæjar að mælirinn verði staðsettur á Garðaholti næstu tvö árin.

Garðabær á að vera í fremstu röð í umhverfismálum

Garðapósturinn heyrði í Stellu Stefánsdóttur, formanni umhverfisnefndar Garðabæjar, og spurði hana meðal annars af hverju verið sé að setja upp færanlega loftgæðamæli og af hverju mælt hafi verið með staðsetningu loftgæðamælisins á Garðaholti? „Garðabær á að vera í fremstu röð í umhverfismálum. Mikil lífsgæði felast í umhverfi okkar Garðbæinga og ósnortinni náttúru. Heilnæmt andrúmsloft er ein af undirstöðum lífsgæða, góðrar heilsu og velferðar. Áhrif mengaðs andrúmslofts á heilsu geta verið margþætt og eru sumir hópar viðkvæmari fyrir loftmengun en aðrir eins og t.d. börn og einstaklingar með astma, lungna- og/eða hjarta- og æðasjúkdóma.“

Stella Stefánsdóttir formaður umhverfisnefndar Garðabæjar

Loftgæðamálirinn sá fyrsti í Garðabæ

,,Það er mjög eðlilegt að spurt sé hvers vegna loftgæðamælinum verður valinn staður á Garðaholti í stað þess að vakta t.d. umferðaræðar sem liggja um bæjarfélagið. Það skal tekið fram að staðsetning er valin í fullu samráði við Heilbrigðiseftirlitið sem fylgist með mæliniðurstöðum og gefur út tilkynningar ef þurfa þykir. Færanlegar mælistöðvar er hægt að flytja á milli staða sem heilbrigðiseftirlitið telur áhugaverða til mælinga á loftgæðum. Þegar loftgæðamæli hefur verið komið upp í Garðabæ verða upplýsingar frá loftgæðamælinum aðgengilegar á rauntíma á vef Garðabæjar, Heilbrigðiseftirlitsins og á loftgaedi.is, en þar er nú þegar hægt að fylgjast með loftgæðum í beinni. Það getur verið breytilegt á milli stöðva hvaða efni eru mæld en með því að smella á mælistöð má sjá hvaða efni er verið að mæla á þeim stað. Loftgæðamælirinn er sá fyrsti í Garðabæ og eru nokkrar ástæður fyrir þessu staðarvali,“ segir Stella.

Vakta loftgæði fyrir íbúa í Garðabæ, Kópavogi og Hafnarfirði

,,Um árabil hafa mæligögn verið samnýtt frá tveimur mælistöðvum í Kópavogi og Hafnarfirði ásamt öðrum stöðvum á höfuðborgarsvæðinu til að vakta loftgæði fyrir íbúa bæjarfélaganna þriggja, þ.e. Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Kópavogs. Sveitarfélögin og heilbrigðiseftirlitið starfrækja reglum samkvæmt, sérstakt viðbragðsteymi sem bregðast á við ef fyrirséð er að loftgæði munu rýrna en almennt eru loftgæði á svæðinu góð. Stofnbrautir í gatnakerfinu, sem bæjarfélögin og Vegagerðin bera sína ábyrgð á, geta verið uppsprettur rykmengunar. Því hefur staðið til að Garðabær kæmi með færanlegan loftgæðamæli inn í þetta farsæla samstarfsverkefni. Stöðvarnar munu smám saman mynda vöktunarnet,“ segir Stella og heldur áfram „Komi til eldgosa á Reykjanesi verður mælirinn einnig vel staðsettur til að vakta vestasta hluta höfuðborgarsvæðisins, Garðaholt og Álftanes,“ segir hún.

Álverið í Straumsvík vó þungt í staðarvali loftgæðamælisins

,,Umræða um vöktun loftgæða á Garðaholti er ekki ný af nálinni. Nýlegar rannsóknir Sigrúnar Hrannar Halldórsdóttur (Vöktun á loftbornum flúor í gróðri ?) benda til þess að mengunarálag frá Álverinu í Straumsvík væri líklega mest á Garðaholti og á Álftanesi en mælingar þar eru afar takmarkaðar. Það er ekki á ábyrgð sveitarfélags heldur Umhverfisstofnunar að sjá til þess að umhverfisáhrif stóriðju séu vöktuð. Í apríl 2021 samþykkti bæjarráð tillögu umhverfisnefndar um að nausynlegt væri við endurútgáfu á starfsleyfi fyrir Álverið í Straumsvík að bæta vöktunaráætlun vegna flúormælinga í gróðri við Garðaholt. Eindregnum óskum sveitarfélagsins um vöktun á Garðaholti hefur ekki verið sinnt og því hefur verið ákveðið að staðsetja hinn nýja færanlega loftgæðamæli sveitarfélagsins til að byrja með á Garðaholti, hugsanlega í tvö til þrjú ár, á meðan gögnum er safnað,“ segir Stella að lokum.

Forsíðumynd: Garðakirkja á Garðaholti og álverið í Straumsvík í baksýn, en álverið vó þungt í staðarvali loftgæðamælis á Garðaholti

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar