Listaveisla í Gróskusalnum og á Garðatorgi

Mikil listaveisla verður í Gróskusalnum við Garðatorg 1 og á Garðatorgi laugardaginn 4. Júní. Í Gróskusalnum verður listasmiðja opin almenningi kl. 14-16 þar sem hægt er að læra að búa til gjafakort, til dæmis lítil blómagjafakort, í sjö skrefum með vatnslitum. Mögulega verða bréfpokar einnig skreyttir með vatnslitum. Louise le Roux myndlistarmaður og varaformaður Grósku stjórnar listasmiðjunni.

Á sama tíma gefst fólki tækifæri til að fylgjast með listamönnum að störfum því Gróskufélagar verða á staðnum og mála myndir, meðal annars málverk sem verða á Jónsmessugleði Grósku 23. júní. Vinnustofur myndlistarmanna við Garðatorg 1 verða einnig opnar. Þetta er einstakt tækifæri til að líta við hjá Grósku og kynnast þeim frábæru listamönnum sem eru í félaginu og þarna hafa aðstöðu.

Fyrir framan Gróskusalinn, á Garðatorgi, stendur yfir sýning á listaverkum frá Jónsmessugleðum fyrri ára og kl. 16 hefst götuleikhús á vegum Listahátíðar í Reykjavík á torginu þar sem götulistamenn ganga um á stultum með blævængi. Garðbæingar og aðrir listunnendur eru hvattir tilað gera sér glaðan dag og fjölmenna.

Forsíðumynd: Birgir Rafn Friðriksson verður með opna vinnustofu

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar