Út er kominn splúnkunýr dagskrárbæklingur þar sem menningardagskráin í Garðbæ er kynnt á aðgengilegan hátt. Dagskráin hefur verið borin í hús en einnig má sækja eintak í Hönnunarsafn Íslands, Bókasafn Garðabæjar eða í þjónustuverið á Garðatorgi 7.
Fjölskyldudagskrá við allra hæfi
Fyrsta sunnudag í mánuði er fjölskyldum boðið að taka þátt í skapandi smiðju í Hönnunarsafni Íslands en viðfangsefnin í smiðjunum eru mjög fjölbreytt en hönnuðir, listamenn og handverksfólk leiðbeina þátttakendum. Í febrúar er það Lilý Erla Adams sem leiðir smiðju en Lilý Erla hefur verið í vinnustofudvöl á safninu en hún vinnur jafnt með textíl sem málningarpensil. Í mars verður skartgripasmiðja og í apríl textílsmiðja en smiðjurnar tengjast sýningum á Pallinum í samstarfi við Textílfélagið. Þegar vorið ætti að vera mætt geta fjölskyldur svo gert sinn eigin flugdreka en sú smiðja fer fram 5. maí undir handleiðslu Arite Fricke textílhönnuðar sem er sérstakur flugdrekameistari.
Bókasafn Garðabæjar á Garðatorgi býður uppá fjölskyldustundir ýmiskonar, allt frá föndurstundum yfir í forritun og vert að skoða dagskrána vel en dagskrá tileinkuð Minecraft er þriðja laugardag janúarmánuðar en í febrúar eru það svo sögupersónur sem verða viðfangsefnið. Þá eru fastir liðir eins og lesið fyrir hund liður í dagskránni á vorönn.
Samstarf Urriðaholtsskóla og Bókasafns Garðabæjar.
Sú breyting verður frá 15. janúar að Urriðaholtssafn verður Skólabókasafn Urriðaholtsskóla. Skólabókasafnið er aðeins fyrir nemendur skólans en þó boðið uppá fjölskylduviðburði fyrsta laugardag í mánuði frá kl. 12-14 og þriðja fimmtudag í mánuði frá kl 16-18 í samstarfi við Bókasafn Garðabæjar. Föndur og samvera verða útgangspunktur viðburðanna en hægt verður að fá afhentar bækur á viðburðunum þar sem pöntunarþjónusta verður tekin upp í gegnum síðu bókasafnsins bokasafn.gardabaer.is.
Fróðleiksfúsir njóta fyrirlestra og fræðslu
Bókasafn Garðabæjar býður uppá ýmiskonar fyrirlestra að venju og sérlega áhugavert að fá Birnu G. Ásbjörnsdóttur í lok janúar til að fjalla um þarmaflóruna. Matvendi barna er svo umfjöllunarefni á foreldraspjalli 15. febrúar kl. 10:30 og hlaupaþjálfarinn Arnar Péturs mætir þann 23. apríl til að ráðleggja hlaupagikkjum Garðabæjar. Þá halda leshringir bóksafnsins áfram og gaman að Norræna félagið í Garðabæ styrkir nú starf Norræna leshringsins undir stjórn Jórunnar Sigurðardóttur en þriðji fimmtudagur í mánuði klukkan 19 er frátekinn fyrir það glæsilega verkefni. Þá verður prjónað og hlustað áfram á sínum stað en þá geta gestir prjónað og hlustað á upplestur í leiðinni sem er einstaklega notaleg tilhugsun í skammdeginu.
Á Hönnunarsafni Íslands má einnig fræðast og njóta í leiðsögn sem fer fram þriðja sunnudag í mánuði eða með því að hlýða á einstaka fyrirlestra svo sem sunnudag 18. febrúar þegar fjallað verður um Einar Þorstein, stærðfræðing og hönnuð, sem innblástur eða um Skarphéðinn Jóhannsson arkitekt þann 21. apríl. Allir viðburðirnir eru á sunnudögum klukkan 13.
Tónlistarnæring
Fyrsta miðvikudag í mánuði halda ókeypis hádegistónleikar áfram í sal Tónlistarskóla Garðabæjar. Flytjendur eru alltaf fyrsta flokks tónlistarfólk sem fá frjálsar hendur við val á efnisskránni. Í febrúar eru það flautuleikarinn Pamela De Sensi ásamt ítölskum hörpuleikara og dásamlegu söngkonunni Margréti Hrafnsdóttur sem veita gestum tónlistarnæringu en í mars eru tveir píanistar á sviðinu og þar af leiðandi tveir flyglar í stað eins á sviðinu.
Fornleifar og saga Garðabæjar
Það eru víst ekki margir staðir á Íslandi sem geta státað af landnámsskála og margmiðlunarsýningum í tengslum við fornleifarannsókn en Garðbæingar geta alltaf labbað við og velt fyrir sér lífinu á landnámsöld í Minjagarðinum á Hofsstöðum við Kirkjulund en splunkuný margmiðlunarsýning er aðgengileg allan sólarhringinn. Á Garðatorgi 7 er svo hægt að fræðast enn meira á sýningunni Aftur til Hofsstaða en saga Garðabæjar frá landnámi til dagsins í dag er umfjöllunarefni sýningarinnar. Þá er vert að minna á vefsíðuna www.afturtilhofsstada.is en þar er ógrynni af fróðleik komið fyrir í skemmtilegri hönnun en vefsíðan og margmiðlunarsýningarnar tvær eru hannaðar af Gagarín.
Safnanótt, Barnamenningarhátíð og Jazzþorpið
Veturinn fær ekki að taka völdinn föstudaginn 2. febrúar því þá er Safnanótt og vert að fara útúr húsi hvernig sem viðrar og heimsækja Hönnunarsafn Íslands og Bókasafn Garðabæjar. Dagskrá bókasafnins miðar að fjölskyldum með skemmtilegum smiðjum og bingói auk kórsöngs og opnunar á myndlistarsýningu Grósku. Hönnunarsafnið byrjar fjörið svo klukkan 20 með stuðtónlist, innflutningspartýii gullsmiðs og heimsókn Lilýjar Erlu Adamsdóttur á sýninguna Hönnunarsafnið sem heimili.
Barnamenningarhátíð í Garðabæ einkennist af þátttöku skólahópa og sýningum á verkefnum sem börn hafa unnið. Yfirbyggð torg á Garðatorgi sem og Bókasafn Garðabæjar og Hönnunarsafnið fyllast af börnum vikuna 22. – 26. apríl og fjölskyldum boðið í fjör laugardaginn 27. apríl.
Jazzþorpið verður svo á sínum stað eina helgi í maí en menningarfulltrúi Garðabæjar Ólöf Breiðfjörð og systkinin Kristín og Ómar Guðjónsbörn eru að sjóða saman hátíð sem mun þjóna tónlistargyðjunni jafnt sem fróðleiksfúsum en einnig bjóða fólki í útlandastemningu í miðbæ Garðabæjar með hjálp húsgagna frá Góða hirðinum.
Alltaf gaman í Garðabæ
Blaðamaður þakkar menningarfulltrúa bæjarins fyrir yfirferðina en það er ljóst að Ólöfu Breiðfjörð þykir mjög gaman í Garðabæ!
Ólöf Breiðfjörð menningarfulltrúi Garðabæjar