Á dögunum var undirritaður samningur á milli Félags eldri borgara í Garðabæ
(FEBG) og Janusar heilsueflingar, um heilsueflingu eldra fólks í Garðabæ. FEBG er fyrsta félagið til að fá styrk fyrir slíku verkefni frá Landssambandi eldri borgara. Dr. Janus Guðlaugsson fer fyrir verkefninu ásamt starfsfólki hans hjá Janusi heilsueflingu.
Samingur FEBG við Janus heilsueflingu byggir einnig á nýgerðum samningi FEBG við Garðabæ um félags- og heilsuræktarstarf eldri borgara í Garðabæ. Garðabær er þó ekki beinn aðili að samning FEBG við Janus heilsueflingu, en er stuðningsaðili hvað varðar aðstöðu og faglega ráðgjöf undir stjórn íþrótta-, tómstunda- og forvarnarfulltrúa Garðabæjar.
Kynningarfundur 26. ágúst í Jónshúsi
Á morgun, fimmtudaginn 26. ágúst, verður haldinn kynningarfundur í Jónshúsi, Strikinu 6, um verkefnið, Fjölþætt heilsuefling 67+ í Garðabæ. Tveir fundatímar verða í boði út af samkomutakmörkunum, sá fyrri hefst kl. 14:00 og sá síðari kl. 16:30.
Verkefnið er eins og áður segir fyrir einstaklinga 67 ára og eldri sem eru með lögheimili í Garðabæ og eru félagar í FEBG. Garðapósturinn heyrði í Janusi og spurði hann m.a. hvert væri fyrst og fremst markmiðið með slíku verkefni.
Janus segir að skammtíma markmið verkefnisins til tveggja ára er að:
Bæta heilsutengdar forvarnir
Efla hreyfifærni
Bæta styrk og þol
Auka líkamlega afkastagetu
Bæta heilsu og lífsgæði
Og hann segir að langtíma markmið verkefnis er að eldri aldurshópar:
geti tekist lengur á við athafnir daglegs lífs í framtíðinni.
geti búið lengur í sjálfstæðri búsetuBæta styrk og þol
hafi möguleika til að starfa lengur á vinnumarkaði
geti seinkað eða komið í veg fyrir innlögn á dvalar- og hjúkrunarheimili
Öllum mikilvægt að hreyfa sig óháð aldri
Og það segir sig sjálft að það er mikilvægt fyrir fólk að hreyfa sig sama á hvaða aldri það er og kannski ekki síst þegar fólk hættir að vinna við 67 ára aldurinn, því oft er ákveðin hreyfing í vinnu fólks? ,,Það er öllum mikilvægt að hreyfa sig, óháð aldri. En það sem er mikilvægt fyrir eldri borgara þessa lands er að vita að ákveðnir öldrunarferlar gera vart við sig um og eftir 60 ára aldurinn. Því er heilsuefling og markiss þjálfun e.t.v. aldrei mikilvægari á lífsferlinum en einmitt á þessum aldri. Til að mynda verður hægfara vöðvarýrnun (sarcopenia) nokkuð kröftug fljótlega eftir 60 ára aldurinn. Til þess að mæta þessum breytingum er nauðsynlegt að stunda styrktarþjálfun. Þá er styrktarþjálfun einnig mikilvægt fyri beinþéttni, ekki síst fyrir konur, en þeim hættir til að fá beinþynningu um og eftir breytingarskeiðið. Þá er þolþjálfun mikilvægt í hvaða formi sem er. Hún styrkir hjarta og æðakerfið auk þess sem hún eflir afkastagetu og getur gert það þrátt fyrir hækkandi aldur. Þá styrkir hún ónæmiskerfið og nú á tímum ættu allir að fjárfesta í sterku ónæmiskerfi með markvissri þjálfun. Það er einnig mikilvægt að fá aðhald í þjálfunina sem við veitum. Það er það sem fólk er ekki síður að sækjast eftir og talar um. Þá eru æfingar settar þannig upp að mið er tekið af getu hvers og eins og hann fær verkefni við sitt hæfi. Byrjað er rólega en æfingamagn og æfingaákefð aukin jafnt og þétt,” segir Janus.
Ekki nóg að tala um hollustuna heldur þarf að matreiða hana
Janus segir mikilvægt að minnast á næringuna, en fjögur fræðsluerindi eru í hverju þrepi og þar er næringin og næringafræðsla í hávegum höfð. ,,Einnig fáum við þátttakendur með okkur í eldhús að elda því það er ekki nóg að tala um hollustuna heldur þarf að matreiða hana,” segir hann og bætir við.: ,,Verkefnið er annars skipulagt til tveggja ára og því eru samtals 16 fræðsluerindi um helstu þætti heilsunnar á þessum tíma. Fjallað er t.d. um lyfjanotkun og þjálfun af öldrunarlækni hjá þeim eldri, fræðsla er um jafnvægi og þjálfun af sjúkraþjálfara, svefn og heilsa hefur fastan sess og einnig hvernig er æskilegt að versla í matinn svo eitthvað sé nefnt.”
Hvers konar æfingar og ráðgjöf fylgir því að taka þátt í verkefninu? ,,Eins og áður sagði byggir verkefnið á þremur megin þáttum. Í fyrsta lagi dagleg hreyfing í formi þolþjálfunar eins og göngu. Við erum með þátttakendur einu sinni í viku í gönguferðum en síðan fá allir æfingaáætlun fyrir alla daga vikunnar allan ársins hring. Þátttakendum er látið eftir að stunda þolþjálfun aðra daga vikunnar. Sú þjálfun getur einnig verið í formi þess að synda, hjóla eða leika golf. Þátttakendur fá sérstaka æfingaáætlun með sér heim til að fylgja í hverju 6 mánaða þrepi. Í öðru lagi er styrktarþjálfun með leiðsögn þjálfara 2x í viku í Gym-heilsu í Álftaneslaug. Þar verður farið rólega af stað og þátttakendum kennt að bera sig rétt að við styrktarþjálfun en hún er eldri borgurun nauðsynleg vegna hægfara vöðvarýrnunar sem fylgir hækkandi aldri. Í þriðja lagi eru það fræðsluerindin sem minnst var á hér að framn en reglulegir fyrirlestrar frá sérfæðingum á sviði heilbrigðisvísinda með áherslu á næringu er rauður þráður í gengum öll þjálfunarþrepin. Bæta má fjórða atriðinu við sem áherslu en það er félagsskapurinn þar sem ,,maður er manns gaman“.
Ítarlegar heilsufarsmælingar
Þannig að þátttakendur fá ansi ítarlegar upplýsingar hver staðan þeirra er í dag, sem ætti að vera öllum til góða og það verður fylgst með þeim á næstu mánuðum? ,,Ítarleg heilsufarsmæling er í upphafi og síðan á 6 mánaða fresti í tvö ár. Þannig getur fólk fylgst með eigin framgangi og einnig tekið meiri og betri ábyrgð á eigin heilsu, vitandi hvar það stendur heilsufarslega og hvert það vill stefna,” segir Janus og heldur áfram: ,,Við erum að sjá einstaklega jákvæðar niðurstöður úr þessum mælingum, bæði hvað varðar afkastagetu en einnig sem snýr að holdarfari, liðleika og hreyfigetu. Þá sjáum við lækkun á blóðþrýstingi hjá þeim þátttakendum sem glíma við háþrýsting auk þess sem tengdir áhættuþættir eru að færast til betri vegar.
Þá fær fólk senda rafræna heilsupistla og ýmsan heilsutengdan fróleik meðan á þjálfuninni stendur. Þátttakendur eiga einnig aðgang að heilsuappi Janusar heilsueflingar.”
Og fólk er misvel á sig komið eins og gengur og gerist. Geta allir tekið þátt í verkefninu, sama hvert líkamlegt ástand þeirra er, eru s.s. æfingarnar einstaklingsbundnar? ,,Í upphafsmælingum okkar erum við með hreyfifærnipróf þar sem fólk þarf að ná ákveðnum stigafjölda til að geta tekið þátt. Það er undantekning að þessi stigafjöldi náist ekki hjá þátttakendum. Nær undan-tekningalaust geta allir verið með svo fremi sem þeir geta bjargað sér sjálfir til æfinga og náð lágmarks stigum í hreyfigetu úr hreyfifærniprófinu.
Við þetta má bæta að það starfsfólk sem er mér við hlið og aðstoðað mig við að byggja upp þetta verkefni er einstakt. Með góðu fólki er hægt að koma til móts við ýmsar áskoranir á sviði heilsu og lýðheilsumála. Flestir eru menntaðir íþrótta- og heilsufræðingar með meistaragráðu á sviði öldrunarfræða auk þess sem til aðstoðar eru læknar, öldrunarlæknar, sjúkraþjálfarar, næringarfræðingar og fleiri sérfræðingar.”
Óskar eftir þátttakendum í vísindarannsókn á heilbrigðissviði
Samhliða þátttöku í þessu heilsueflingarverkefni er óskar þú einnig eftir þátttakendum í vísindarannsókn á heilbrigðissviði sem þú stjórnar. Um hvað snýst það? ,,Verkefnið hefur verið frá upphafi rannsóknartengt, það er að segja að aðferðirnar sem við notum eru raunprófanlegar og mikilvægt einnig fyrir okkur að geta fylgst með hvernig okkar þátttakendum vegnar. Verkefnið byggir á doktorsverkefni mínu frá 2014 og hefur sýnst sig að aðferðirnar sem við beitum í þjálfun og mælingum ganga einstaklega vel upp. Ég er í raun búinn að fá svar við mikilvægri rannsóknarspurningu sem ég fékk ekki í doktorsvekefninu. Svarið er í raun það að hægt er á tveimur árum með markvissri þjálfun að bæta heilsu, afkastagetu, hreyfingu, styrk og tengda heilsufarsþætti með markvissri þjálfun þrátt fyrir hækkandi aldur,” segir hann.
Að geta fylgst með eigin framförum eða breytingum er mikilvægt
,,Það sama á við um okkar þátttakendur, að geta fylgst með eigin framförum eða breytingum er mikilvægt. Þannig getum við án efasenda vitað að við erum að stefna í rétta átt ef niðurstöður eru jákvæðar. Um leið getum við fært rök fyrir þeim aðferðum sem við notum að þær séu einstaklingunum til hagsbóta og í raun samfélaginu öllu. Án mælinganna gætum við ekki vitað hvar við værum stödd eða hvernig okkur vegnar. Þær eru ómissandi þáttur í þessu ferli en um leið mikilvægt tæki til stýringar á heilsueflingu. Við höfum fengið leyfi hjá Vísindasiðanefnd fyrir okkar verkefni þar sem nafnleynd er heitið og nöfn þátttakenda koma aldrei fram í umfjöllun um niðurstöður. Niðurstaða hvers og eins er trúnaðarmál.”
En hvað kostar fyrir þátttakendur að vera með í verkefninu, Fjölþætt heilsuefling 67+ í Garðabæ? ,,Kostnaðurinn verður um 12-13. þúsund krónur á mánuði en í því verði er innifalið árskort í heilsurækt auk þeirra fjölmörgu þátta sem hér að framan hafa verið sett fram. Þeir sjást einnig á meðfylgjandi mynd um þjónustuþætti.”
Geta bæjarbúar sem eru orðnir 67+ og eru ekki skráðir í FEBG í dag mætt á fundinn og skráð sig þar í FEBG og tekið þátt í verkefninu? ,,Ég tel að svo sé og þarf sjálfur að fara að skrá mig þar sem ég er íbúi í Garðabæ og nálgast óðfluga aldurinn.”
Verið vel tekið og þátttaka oft farið fram úr björtustu vonum
Og þú vonast til að þátttakan verði góð, enda hreyfing og hollt mataræði mikil heilsubót og stuðlar m.a. að betri andlegri heilsu og líðan?,,Í öllum sveitarfélögunum sem við höfum innleitt verkefnið hefur okkur verið vel tekið og þátttaka oft farið fram úr björtustu vonum. Þá hefur árangur verið mjög góður og við höfum séð að mat þátttakenda á eigin heilsu hefur aukist með hverri sex mánaða mælingu þegar við rýnum í niðurstöður allra sveitarfélaga. Þetta er sjötta sveitarfélagið sem verkefnið er innleitt í og geri ég mér vonir um að bæði áhuginn og árangurinn verði góður hér í Garðabæ eins og á öðrum stöðum. Í stjórn FEBG er einnig hörku duglegt fólk sem hefur mikla reynslu af félagsmálum og stjórnun. Ég veit að það lætur ekki sitt eftir liggja að greiða götuna svo verkefnið fái góða innleiðingu. Ég vil nota tækifærið og þakka stórn FEBG fyrir samstarfið sem af er og einnig þakka Kára Jónssyni íþrótta- og tómstundafulltrúa Garðabæjar fyrir samstarfið en það er gott að vita af stuðningi bæjarnis þó skipulagið og utanumhaldið sé í höndum stórnenda FEBG í samvinnu við okkur,” segir Janus að lokum.
Forsíðumynd: Janus Guðlaugsson og Stefanía Magnúsdóttir, þáverandi formaður FEBG, skrifa undir samninginn á dögunum