Jazzhátíð Garðabæjar 21.-24. apríl 2022

Jazzhátíð Garðabæjar verður haldin í 16. sinn dagana 21.-24. apríl nk. Hátíðin er haldin á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar en listrænn stjórnandi hefur frá upphafi verið Sigurður Flosason tónlistarmaður. Í ár skartar hátíðin fjölbreyttu úrvali íslenskra jazztónlistarmanna af ólíkum kynslóðum en einnig koma gestir frá Danmörku og Svíþjóð. Boðið verður upp á ólík stílbrigði jazztónlistar við allra hæfi. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Að þessu sinni fara flestir tónleikar hátíðarinnar í Sveinatungu, salarkynnum bæjarstjórnar að Garðatorgi 7. Einir tónleikar verða í Jónshúsi, félagsmiðstöð eldri borgara.

Hátíðin hefst að venju með tónleikum að kvöldi til sumardaginn fyrsta, kl. 20:30 fimmtudaginn 21. apríl. Söngkonan ástsæla Ellen Kristjánsdóttir leiðir tríó sem meðal annars er skipað eiginmanni hennar, píanóleikaranum Eyþóri Gunnarssyni

Hefst að kvöldi sumardagsins fyrsta í Sveinatungu

Hátíðin hefst að venju með tónleikum að kvöldi til sumardaginn fyrsta, kl. 20:30 fimmtudaginn 21. apríl. Söngkonan ástsæla Ellen Kristjánsdóttir leiðir tríó sem meðal annars er skipað eiginmanni hennar, píanóleikaranum Eyþóri Gunnarssyni. Þau munu flytja fjölbreytta dagskrá þar sem jazz standardar, Magnús Eiríksson og fagrir sálmar munu líklega koma við sögu.

Dansk-íslenskur jazz á föstudegi

Á föstudagskvöldinu 22. apríl kemur fram hin vinsæla danska jazzsöngkona Cathrine Legardh. Hún og Sigurður Flosason eiga að baki langt samstarf og tónsmíðasamvinnu en plata þeirra frá 2011 hlaut tilnefningar til bæði íslensku og dönsku tónlistarverðlaunanna.

Búast má við nýju efni frá þeim í bland við eldri opusa og sígræn jazzlög.

Samfelld jazzveisla á laugardeginum

Á laugardeginum 23. apríl geta gestir notið jazztónlistar á tvennum tónleikum. Þeir fyrri hefjast kl. 15 í félagsmiðstöðinni Jónshúsi á Sjálandi. Þar kemur fram söngkonan Marína Ósk og flytur ásamt valinkunnum hljóðfæraleikurum brasilíska bossa nova tónlist og frumsamin lög í sama stíl. Kl. 20:30 leikur svo hið vandaða og margreynda tríó Sunnu Gunnlaugsdóttur í Sveinatungu. Sunna hefur leikið mikið erlendis og er einn af máttarsólpum íslensks jazzlífs.

Ný plata kynnt á sunnudegi

Á sunnudegi kl 17 kynnir píanóleikarinn Anna Gréta Sigurðardóttir nýútkomna plötu sína „Nightjar in the northern sky“ en hún var kjörin jazzplata ársins á íslensku tónlistarverðlaunum og Anna Gréta höfundur ársins. Anna Gréta býr og starfar í Svíþjóð þar sem hún hefur meðal annars fengið Monicu Zetterlund verðlaunin og viðurkenningu jazzklúbbsins Fasching.

Næsta kynslóð hitar upp!

Hljómsveitir úr Tónlistarskóla Garðabæjar hita upp 30 mínútur fyrir auglýsta tónleikatíma í Sveinatungu eða frá kl 20 og frá kl 16:30 á sunnudag.

Aðgangur er ókeypis á alla viðburði jazzhátíðarinnar og allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir. Léttar veitingar verða seldar á tónleikunum í Sveinatungu.

Upplýsingar um Jazzhátíð Garðabæjar má finna á vef Garðabæjar, gardabaer.is, og á fésbókarsíðu hátiðarinnar: facebook.com/jazzhatidGardabaejar/

Dagskrá

21.4. Fimmtudagur – Sveinatunga kl 20:30

Ellen Kristjánsdóttir

Fjölbreytt dagskrá þar sem þekkt jazzlög, íslenskir smellir og sálmar blandast í meðförum þessarar ástsælu söngkonu og hennar frábæru samverkamanna.

Ellen Kristjánsdóttir: söngur, Eyþór Gunnarsson: hljómborð, Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson: kontrabassi.

22.4. Föstudagur – Sveinatunga kl 20:30

Kvintett Cathrine Legardh 

Ein af fremstu jazzsöngkonum Dana kíkir í heimsókn og endurnýjar samstarf sitt við Sigurð Flosason en plata þeirra frá 2011 hlaut tilnefningar til bæði dönsku og íslensku tónlistarverðlaunanna.

Cathrine Legardh: söngur, Sigurður Flosason: saxófónn, Anna Gréta Sigurðardóttir: píanó

Birgir Steinn Theódórsson: kontrabassi, Einar Scheving: trommur

23.4. Laugardagur – Jónshús kl 15. 

Marína Ósk tríó

Þessi frábæra söngkona býður upp á dúnmjúka dagskrá með brasilískri bossa nova sveiflu og frumsömdum lögum í sama stíl.

Marína Ósk Þórólfsdóttir: söngur, Mikael Máni Ásmundsson: gítar, Andri Ólafsson: kontrabassi

23.4. Laugardagur – Sveinatunga kl 20:30

Tríó Sunnu Gunnlaugsdóttur

Ljóðræn og hrífandi tónlist frumkvöðulsins Sunnu og hennar frábæra tríós.

Sunna Gunnlaugsdóttir: píanó, Þorgrímur Jónsson: kontrabassi, Scott McLemore: trommur

24.4. Sunnudagur – Sveinatunga kl. 17

Anna Gréta og hljómsveit

Anna Gréta fékk nýverið íslensku tónlistarverðlaunin sem höfundur ársins og fyrir plötu ársins. Áður hefur hún fengið Monicu Zetterlund og Fasching verðaunin í Svíþjóð. Hrífandi blanda á mörkum jazz og popptónlistar.

Anna Gréta Sigurðardóttir: söngur og píanó, Marína Ósk Þórólfsdóttir: bakraddir, Johan Tengholm: kontrabassi, Magnús Tryggvason Eliassen: trommur

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar