Kosningagleði

Það hefur líklega komið mörgum á óvart að ég hafi ákveðið að demba mér í póltík. Ég er betur þekktur fyrir söng og sýningar. En aðeins af sjálfum mér. Ég er 47 ára og er kvæntur Adriana Patricia Sanchez Krieger sem er ættuð frá Kólumbíu og starfar hún sem framkvæmdastjóri markaðsmála hjá Visa í Bólivíu, Kólumbíu, Ekvador, Perú og Venesúela. Saman eigum við yndislega dóttur Önnu Rós sem gengur í Ísaksskóla. Hún talar fjögur tungumál og er ljósið í lífi okkar. Við búum á Kársnesi og hér líður okkur vel.

En hvers vegna dembir söngvari sér í stjórnmálin í Kópavogi? Ég hef alltaf haft áhuga á samfélagsmálum, sem fjölskyldumaður þá skiptir þjónusta við barnafólk mig miklu máli. Til þess að laða að fólk í bæinn þarf bærinn að reka góða leik og grunnskóla, styðja við forvarnir og efla listalífið í bænum. Mér þykir í eðli mínu vænt um fólk og er annt um þeirra hag og vil starfa í þágu bæjarbúa.

Ég legg mig fram í hverju sem ég tek mér fyrir hendur og mun nota næstu vikur vel til þess að kynnast bæjarbúum betur og þeirra áherslum um hvernig þeir vilja sjá bæinn sinn vaxa og blómstra. Mér finnst spennandi að taka þátt í þessu verkefni sem á sinn hápunkt þegar kosið verður þann 14.maí. Ég hlakka til að sjá ykkur, Miðflokkurinn og óháðir ætla ekki taka kosningabaráttu heldur kosningagleði.

Geir Ólafsson. Höfundur skipar annað sætið á lista Miðflokksins og óháðra í Kópavogi.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar