Sunnudaginn 9. janúar síðastliðinn var íþróttahátíð Garðabæjar haldin. Annað árið í röð var hátíðin með breyttu sniði vegna þeirra fjöldatakmarkana sem í gildi eru, en sýnt var frá hátíðinni á vef bæjarins. Af því tilefni flutti formaður íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar, Björg Fenger, hátíðarræðu. Í máli sínu fór hún meðal annars yfir forvarnargildi íþrótta- og tómstundastarfs, uppbyggingu og endurnýjun á íþróttaaðstöðu í bænum ásamt helstu íþróttaafrekum íþróttafólks Garðabæjar árið 2021. Jafnframt þakkaði Björg öllum þeim sem hafa gert það mögulegt að halda úti því blómlega íþrótta- og tómstundastarfi sem á sér stað í Garðabæ.
Hér að neðan má lesa um helstu atriði sem fram komu í ræðu Bjargar á hátíðinni.
Íþrótta- og tómstundastarf mikilvægur hluti af félagslífi bæjarbúa
Garðabær er íþróttabær, bær sem státar af gríðarlega fjölbreyttu og öflugu íþróttastarfi þar sem allir aldurshópar geta fundið eitthvað við sitt hæfi og átt skemmtilegar stundir saman. Samkomutakmarkanir ársins settu þó mikinn svip á samfélagið. Líklega hafa flestir upplifað á eigin skinni, hvað íþróttir og tómstundastarf eru mikilvægir hluti af hversdagslífi og ekki síst félagslífi okkar flestra. Mikilvægt er að íbúar taki upp þráðinn um leið og takmörkunum léttir og efli enn frekar líkama og sál. Á þetta ekki síst við um skipulagt íþrótta- og tómstundastarf barna og unglinga því rannsóknir sýna að slíkt starf er ein mikilvægasta forvörnin.
Uppbygging á fjölbreyttri íþróttaaðstöðu
,,Bæjaryfirvöld hér í Garðabæ hafa alla tíð verið meðvituð um samfélagslegt gildi íþrótta og hafa því lagt áherslu á fjölbreytt íþrótta- og tómstundastarf í uppbyggingu sinni. Má segja að ástand undanfarinna tveggja ára undirstriki enn frekar mikilvægi þeirrar vegferðar.
Á síðastliðnu ári var áfram lögð áhersla á uppbyggingu á aðstöðu til íþróttaiðkunar og almennrar heilsueflingar ásamt því að farið var í ýmiss konar endurbætur og lagfæringar á núverandi aðstöðu.
Umfangmesta framkvæmd bæjarins, fjölnota íþróttahús í Vetrarmýri, hélt áfram að rísa en áætlað er að æfingar geti hafist þar í lok janúar. Fjölnota húsið er meðal annars með knattspyrnuvöll í fullri stærð auk upphitunaraðstöðu og rými fyrir styrktar- og teygjuæfingar. Jafnframt verður þar að finna klifurvegg ásamt svölum þar sem hægt verður að ganga eða skokka. Á svölunum er einnig að finna áhorfendaaðstöðu. Fyrir liggur að húsið verður mikil lyftistöng fyrir allt íþrótta- og félagsstarf.
Á Álftanesi var haldið áfram með lagfæringar á íþróttahúsinu við Breiðumýri og uppbyggingu á reiðhöll á félagssvæði Sóta sem nú er á lokametrunum. Útilífsmiðstöðin í Heiðmörk er einnig að klárast en sú framkvæmd er unnin í samstarfi við skátafélagið Vífil.
Haldið var áfram með endurnýjun leikvalla og stígagerð en fjöldi Garðbæinga nýtir sér ár hvert göngustígakerfi bæjarins. Í sumar var svo boðið upp á Qigong í bæjargarðinum sem var skemmtileg nýjung og jók enn fjölbreytt framboð hreyfingar og útivistar í bænum.
Til viðbótar við uppbyggingu og endurnýjun á ýmissi aðstöðu voru á síðastliðnu ári endurnýjaðir fjölmargir samstarfssamningar milli bæjarfélagsins og íþrótta- og tómstundafélaga. Meðal annars voru gerðir nýir samningar við félög eldri borgara í bænum en í þeim voru framlög til heilsueflingar 67 ára og eldri aukin.
Jafnframt var sett af stað verkefni sem felur í sér leiðtogaþjálfun fyrir afrekskonur í íþróttum. Í tengslum við það verkefni var haldið íþróttaþing fyrir unglingsstúlkur í íþróttum undir yfirskriftinni „Stelpur skína“ en á þingið mættu um 120 stúlkur úr efstum bekkjum grunnskóla bæjarins. Um er að ræða mikilvægt verkefni sem ætlað er að efla og styðja við afrekskonur, þvert á íþróttagreinar og félög í bænum.
Í fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2022 er enn og aftur lögð mikil áhersla á íþróttir og lýðheilsu auk áframhaldandi uppbyggingu á fjölbreyttri aðstöðu til íþróttaiðkunar. Er þar meðal annars gert ráð fyrir fjármagni til áhalda- og tækjakaupa í fjölnota íþróttahúsið, í stígagerð og lagfæringu á opnum leiksvæðum sem og öðrum endurbótum á íþróttavöllum. Í þriggja ára áætlun bæjarins er svo gert ráð fyrir fjármagni í uppbyggingu á íþróttahúsi og sundlaug við Urriðaholtsskóla.
Íþróttaárangur ársins 2021
Síðastliðin tvö ár hafa verið sérstök vegna covid, en faraldurinn hefur haft mikil áhrif á íþróttalífið hér á landi sem og í heiminum öllum. Má þar meðal annars nefna að ýmsar takmarkanir hafa verið í gildi varðandi æfingar, fyrirkomulag móta hefur tekið breytingum eða verið aflýst og takmarkanir hafa verið settar á áhorfendafjölda á kappleikjum. Einnig hefur íþróttafólkið keppt minna á erlendum vettvangi en í hefðbundu árferði. Þegar horft er til alls þessa er eftirtektavert að horfa á þann árangur sem íþróttafólk Garðabæjar náði á árinu 2021.
Þar má meðal annars nefna góðan árangur meistaraflokkanna í hópfimleikum hjá Stjörnunni, en bæði karla- og kvennaliðið tryggðu sér Íslands- og bikarmeistaratitla. Stjarnan átti jafnframt fjölmarga fulltrúa í landsliðum Íslands sem tóku þátt í Evrópumótinu í hópfimleikum. Stóðu íslensku liðin sig gríðarlega vel á því móti og var Stjörnufólkið Kolbrún Þöll Þorradóttir og Helgi Laxdal Aðalgeirsson meðal annars valin í úrvalslið mótsins.
Körfuboltadeild Stjörnunnar fagnaði þeim merka árangri að vinna Íslandsmeistaratitla í níu yngri flokkum af fimmtán. Þar af unnust fimm titlar í kvennaflokki sem eru fyrstu titlar deildarinnar hjá stúlkunum. Jafnframt er gaman að segja frá því að unglingaflokkur karla vann einn af þessum titlum en þar er um að ræða sameiginlegt lið Stjörnunnar og Álftaness. Er það fyrsti Íslandsmeistaratitill Álftaness í yngri flokkum í körfubolta. Einnig fagnaði 2. flokkur karla í knattspyrnu hjá Stjörnunni Íslandsmeistaratitli.
Í einstaklingsgreinum áttu Garðbæingar einnig afreksfólk. Kylfingurinn Hulda Clara Gestsdóttir tryggði sér Íslandsmeistaratitil kvenna í golfi. Hún lagði aðal áherslu á þátttöku í alþjóðlegum mótum en endaði í 5. sæti á stigalistanum hér heima þrátt fyrir að taka einungis þátt í þremur mótum af sex. Hulda Clara lék einnig með kvennalandsliðinu sem náði góðum árangri.
Kraftlyftingamaðurinn Aron Friðrik Georgsson stóð sig vel á árinu en hann vann meðal annars til bronsverðlauna á Reykjavík International Games ásamt því að bæta Íslandsmetið í hnébeygju á Evrópumeistaramótinu þar sem hann lyfti yfir 300 kg.
Badmintonkonan Júlíana Karitas Jóhannsdóttir varð þrefaldur Íslandsmeistari í stúlknaflokki. Á Íslandsmóti fullorðinna náði hún jafnframt að sigra alla sína andstæðinga í einliðaleik þrátt fyrir að vera einungis 17 ára gömul.
Kylfingurinn Aron Snær Júlíusson náði góðum árangri en hann tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í golfi. Hann sigraði auk þess á öðru stigamóti ársins á GSÍ mótaröðinni og varð stigameistari að tímabilinu loknu. Á erlendum vettvangi stóð Aron sig einnig vel en hann hafnaði meðal annars í 5. sæti á Evrópumóti einstaklinga sem er besti árangur sem Íslendingur hefur náð hingað til.
Jón Þór Sigurðsson keppandi í skotfimi stóð sig einnig mjög vel en hann varð Íslandsmeistari í 50 metra liggjandi riffli, Íslandsmeistari með liði sínu í grófri skammbyssu, sport skammbyssu og í staðlaðri skammbyssu. Jón Þór setti jafnframt fjölmörg Íslandsmet og hafnaði í 14. sæti á Evrópumótinu.
Að lokum má nefna að hestamenn, frjálsíþróttafólk og þeir sem stunda tennis náðu einnig góðum árangri á nýliðnu ári.
Framangreind afrek gefa okkur góða innsýn inn í hið gróskumikla og fjölbreytta íþróttastarf sem fram fer í bænum sem og þær glæsilegu fyrirmyndir sem Garðbæingar eiga.“
Forsíðumynd. Björg Fenger ásamt Andreu Sif Pétursdóttir, fyrirliða Stjörnunnar í hópfimleikum, en liðið var valið lið ársins 2021 í Garðabæ á íþróttahátíðinni.