Það er töluverð spennan í loftinu í Garðabænum þessa stundina, en í kvöld gerir Stjarnan sér ferð til Þorlákshafnar í þar sem liðið mætir heimamönnum í Þór kl. 20:15 í oddaleik í 4-liða úrslitum Domino‘s deildarinnar, en það lið sem sigrar leikinn fer í úrslitaeinvígið á móti sterku liði Keflavíkur um Íslandsmeistaratitilinn.
Það veit svo sem engin hvernig leikurinn muni þróast í kvöld, en síðustu tveir leikir Stjörnunnar og Þórs hafa verið mjög sveiflukenndir. Eftir að Þór lék Stjörnuna grátt í þriðja leik liðanna í Þorlákshöfn og sigrað með 115 stigum gegn 92 þá snéri Stjarnan leiknum sér í hag í fjórða leiknum í Garðabæ sl. miðvikudag og sigraði 78-58.
Það var talað um að Lárus Jónsson þjálfari Þórs hafi náð að lesa vel í leik Stjörnunnar í þriðja leiknum sem var mjög opinn og því fór sem fór, en að Arnar Guðjónsson þjálfari Stjörnunnar hafi aftur á móti sýnt hversu klókur þjálfari hann er með frábæru leikskipulagi í 4 leiknum, sem varð til þess að Þór náði ekki að skora helming af þeim stigum sem þeir skoruðu í þriðja leiknum. Leikurinn á miðvikudaginn einkenndist reyndar af sterkum varnarleik beggja liða því Stjarnan skoraði ekki nema 78 stig, en sigraði samt með 20 stiga mun.
Það verður fróðlegt að sjá í kvöld hvað þjálfararnir leggja upp með. Sjálfsagt ætlar Arnar að halda áfram að reyna að hægja á leiknum og spila öfluga vörn á meðan Lárus vill keyra upp hraðann í leiknum og reyna þannig að riðla varnarleik Stjörnunnar.
Hlynur Bæringsson fyrirliði Stjörnunnar segir að Stjarnan þurfi að spila sama leik og sl. miðvikudag til að klára leikinn í kvöld. ,,Við þurfum að taka leikinn á miðvikudaginn með okkur í kvöld, koma í veg fyrir skotin þeirra fyrir utan eins vel og við mögulega getum. Planið er því að hægja á þeim og taka fimmta leikinn.“