Eiga börnin á Álftanesi að bíða eftir betri skólalóð svo að peningarnir geti safnað ryki á bankabók?
Í hvernig samfélagi viljum við búa? Hvað er það sem okkur finnst mikilvægt? Þetta eru spurningar sem íbúar Garðabæjar þurfa nú að spyrja sig og leita svara við fyrir 14.maí næstkomandi.
Það er flestum ljóst sem ræða við íbúa sveitarfélagsins sem hafa þurft að nýta sér félagsþjónustu að þar er víða pottur brotinn. Þarna liggja tækifæri nýrrar bæjarstjórnar á vegferð í átt að betra samfélagi. Garðabær á að vera leiðandi í framþróun á þjónustu en ekki vera þekkt fyrir að hafa eitt lægsta hlutfall félagslegra íbúða og að vera eftirbátar annarra sveitarfélaga þegar kemur að félagslegri þjónustu.
Stórfelldur hagnaður er ekki besta dæmið um vel rekið sveitarfélag. Peningarnir sem koma inn í sveitarfélagið verða að renna í að gera það betra. Að sjálfsögðu er ekki ábyrgt að reka sveitarfélagið með tapi og þarf að halda því réttu megin við núllið enda er lítið hægt að byggja upp ef fjárhagurinn er ekki góður. En það er heldur ekki göfugt markmið að peningar okkar íbúanna safni ryki á bankabók í stað þess að nýtast okkur bæjarbúunum til betra samfélags.
Hér á Álftanesinu hafa börnin okkar búið við óviðunandi skólalóð sem er löngu komin á tíma. Búið er að hanna lóðina en framkvæmdir hafa setið á hakanum. Íþróttavellirnir á skólalóðinni eru í raun komnir á þann stað að vera hættulegir. Er réttlætanlegt að stæra sig af hagnaði og peningum sem safna ryki á bankabók þegar börnin okkar hafa ekki almennilega skólalóð til að þroskast á, dafna og njóta.
Uppbygging er hafin á nýjum hverfum hér á Álftanesinu og ekki liggur fyrir í hvaða skóla nýjir íbúar eiga að ganga. Álftanesskóli er nú þegar nýttur til hins ítrasta. Eftir að hafa kynnt sér stöðu á þjónustu eða frekar þjónustuleysis við íbúa Urriðaholts renna á mann tvær grímur. Stefnum við ótrauð í sömu átt? Mun uppbygging íbúahverfa hér fara fram úr getu stofnananna til þess að sinna nærsamfélaginu. Stefna bæjaryfirvalda þarf að breytast þegar kemur að uppbyggingu nýrra hverfa. Svör eins og ,við gerðum okkur ekki grein fyrir því að barnafjölskyldur myndu flytja í meira mæli í hverfið í stað þessa að eldri kynslóðin settist þar að, eru bara fyrirsláttur. Það er hlutverk bæjaryfirvalda að vera meðvituð um að stuðla að uppbyggingu á þjónustu samhliða fjölgun íbúa.
Merkjum x við B og horfum fram á veginn í átt að framúrskarandi þjónustu við okkur öll.
Elín Jóhannsdóttir, 7.sæti á lista Framsóknar í Garðabæ.