Forræðishyggja í 100 skrefum

Allir flokkar sem bjóða fram þann 14. maí vilja gera vel fyrir samfélagið. Það bera auglýsingar þeirra með sér. Sumir flokkar auglýsa 100 aðgerðir. Aðrir leggja fram skýra framtíðarsýn og markmið. Undanfarin ár hefur verið sátt um breytingar á vinnubrögðum innan bæjarstjórnar Kópavogsbæjar þannig að nú vinnum við með starfsfólki bæjarins að því að móta stefnu, setja markmið, skilgreina verkefni sem varða leiðina að þeim og mæla svo árangur þeirra. Á þeim forsendum er fjárhagsáætlun unnin og Kópavogur hefur tekið forystu sem framsækið sveitarfélag sem vinnur í sátt að betri árangri.

Viðreisn hefur stutt þau vinnubrögð dyggilega og átt frumkvæði að þeim. Þess vegna lofum við ekki 100 aðgerðum. Við ætlum ekki að lofa snjall-ljósastaurum 2018 og gáfnaljósum 2022 sem eru í raun sömu staurarnir sem ekki var staðið við. Við viljum upp úr gömlu pólitíkinni og innleiða hin nýju góðu vinnubrögð við skipulagsmál líka. Við viljum hverfa frá gömlu vinnubrögðunum þar sem óspennandi fjölbýlishús eru sett niður í óþökk og ósætti við íbúa, yfir í að skapa samfélag þar sem verslun og þjónusta blómstrar í miðjum íbúahverfum. Þar sem byggð og vistvænar samgöngur móta umhverfið okkar. Þar sem hugað er að loftgæðum og hljóðvist. Þar sem græn torg, mannlíf og menning blómstra. Þar sem skipulag stuðlar að aukinni hreyfingu og útivist með meiri samveru og lýðheilsu. Það er hlutverk okkar að hlusta á væntingar og óskir íbúa og svara þeim í skipulagsáætlunum.

Nú þegar stórfelld úthlutun á lóðum og mikil skipulagsvinna er framundan hjá Kópavogsbæ þá viljum við ekki byrja á að ákveða fyrir íbúana hvað þeir þurfa með 100 aðgerðum. Við viljum byrja á því að setja skýrar reglur um úthlutun, tryggja samráð og samvinnu við íbúa, tryggja jafnræði, gagnsæi og almannahagsmuni. Þannig höldum við áfram umbótavinnu við stjórnun og rekstur bæjarins og verðum áfram með framsæknustu sveitarfélögum landsins.

Theodóra S. Þorsteinsdóttir
Oddviti Viðreisnar í Kópavogi

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar

Vefkökur og persónuvernd

Vefur kgp.is notast við vefkökur í þeim tilgangi að veita þér sem bestu upplifun þegar þú heimsækir okkur á vefnum.  Vefkökurnar eru vistaðar í vafranum þínum og þjóna m.a. þeim tilgangi að kerfið "þekkir þig" þegar þú kemur aftur á vefinn okkar.  Þannig þarftu t.d. ekki að fara aftur í gegnum samþykktarferlið fyrir vefkökur, ert ekki spurð(ur) aftur og aftur hvort þú vilt skrá þig á póstlista eða um aðra virkni sem þú hefur annað hvort samþykkt eða hafnað í fyrri heimsóknum o.fl. o.fl.

Þú getur stillt vefkökurnar hér til vinstri.

Með kærri kveðju,
Starfsfólk KGP.is vefsins