Heimavöllurinn

Vextir tóku að lækka verulega og með því jókst eftirspurn eftir húsnæði til muna. Framboð fasteigna hefur ekki náð að fylgja eftir áhuganum en engu að síður seldist metfjöldi íbúða árið 2021, hækkun milli ára nam 18,4%. Erfitt hefur verið fyrir ungt fólk að kaupa sína fyrstu fasteign en áætlað er að um 30% kaupenda á markaðnum í dag séu fyrstu kaupendur. Ungt fólk á að hafa tækifæri til að kaupa sína fyrstu eign í bænum og fjölskyldur eiga að geta stækkað við sig. Einnig er mikilvægt að auðvelda eldra fólki að búa í hentugu húsnæði en lítið framboð hefur verið af minni sérbýlum ásamt eignum fyrir eldri íbúa.

Garðabær sem framtíðarheimili

Það er mitt hjartansmál að Garðabær verði framtíðarheimili fyrir ungt fólk, fjölskyldur, sem og eldri íbúa. Bærinn þarf að tryggja fjölbreytt framboð á húsnæði ásamt lóðum fyrir alla bæjarbúa. Garðabær hefur verið mitt æskuheimili en ég hef líka ákveðið að Garðabær verði mitt framtíðarheimili. Það er gott að búa í Garðabæ og saman eigum við að tryggja að svo verði áfram.

Framboð lóða liggur meðal annars hjá sveitarfélögunum. Undanfarin ár hefur framboð nýrra lóða verið nokkuð í Garðabæ og gera má ráð fyrir áframhaldandi uppbyggingu. Samhliða uppbyggingu er mikilvægt að tryggja innviði og þjónustu í nærumhverfinu. Það er jafnframt mikilvægt að Garðbær hugi að því hvernig lóðum er ráðstafað með tilliti til blandaðra byggða ásamt atvinnuhúsnæði og þjónustu í nærumhverfinu.

Ný leikkerfi

Við þurfum að tryggja að ungum Garðbæingum gefist tækifæri til að búa áfram í bænum eftir að þeir flytjast úr foreldrahúsum. Það er ekki hægt að bærinn bjóði einungis út lóðir til hæstbjóðenda. Ætlar Garðabær að stuðla að hækkandi íbúðarverði? Gleymum því ekki að framtíðaríbúar þessara lóða verða útsvarsgreiðendur bæjarins. Lóðir eru misverðmætar með tilliti til innbyrgðis staðsetningar. Hægt er að úthluta lóðum á mismunandi hátt, t.d. er hægt að bjóða út ákveðin svæði til hæstbjóðenda en önnur svæði lúti öðrum skilyrðum. Finnum sanngjarnt markaðsverð – verum sniðug. Í gegnum tíðina hefur Garðabær komið með ýmis úrræði sem allt hafa verið farsælar lausnir. Ég trúi því að saman getum við fundið fleiri sóknarfæri, sem dæmi má nefna:

• Kjarrmóarnir, þar var lóðum úthlutað til byggingarfélags ungs fólks en þar er hentug stærð af íbúðarhúsnæði og í dag vinsæl staðsetning.
• Bæjargilið, sem á sínum tíma var í jaðri byggðarinnar er í dag mjög eftirsótt fjölskylduhverfi en þar fengu ungir Garðbæingar tækifæri til að byggja hentug sérbýli.
• Unnargrund, þar gafst eldri íbúum bæjarins tækifæri til að minnka við sig en vera áfram í sérbýli.
Garðabær er heimavöllur okkar allra en þar viljum við sjá flóru mannlífsins vaxa og dafna með fjölbreyttu og ört stækkandi samfélagi.

Lilja Lind Pálsdóttir
Ég gef kost á mér í 6. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar