Gert er ráð fyrir lækkun álagningarprósentu á fasteignaskatti

Fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2022 var samþykkt á bæjarstjórnarfundi þann 2. desember sl. Samhliða áætlun næsta árs var jafnframt lögð fram þriggja ára áætlun fyrir árin 2023, 2024 og 2025.

Samkvæmt fjárhagsáætlun Garðabæjar er gert ráð fyrir að rekstrarafgangur A-hluta bæjarsjóðs verði neikvæður um 463 m.kr. en jákvæð rekstrarniðurstaða samstæðureiknings um 49 m.kr. Veltufé frá rekstri er áætlað að verði 1.337 m.kr. hjá A sjóði og 2.011 m.kr. í samstæðureikningi. Framlegð er áætluð 10%.

Sterk fjárhagsstaða bæjarins og hóflegar skuldir

Fjárhagsstaða Garðabæjar er sterk, skuldir eru hóflegar og langt undir viðmiðunarmörkum samkvæmt 2. tl. 2. mgr. 60. gr. sveitarstjórnarlaga en þar er mælt fyrir um að skuldir megi ekki vera hærri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum. Skuldaviðmið er áætlað að verði 89,9%.
Í forsendum fyrir fjárhagsáætlun Garðabæjar er gert ráð fyrir að útsvarshlutfall verði áfram 13,7 % sem er það lægsta sem þekkist meðal stærri sveitarfélaga landsins.

Viljum verja störf og góða þjónustu

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar segir í viðtali við Garðapóstinn að álögum á íbúa verði haldið eins lágum og kostur er, skuldahlutfall verði svipað og undanfarin ár, þjónusta við bæjarbúa verði eins og best verður á kosið og ekki verði dregið úr grunnþjónustu þrátt fyrir óvissu með skatttekjur. Þá sé gert er ráð fyrir lækkun álagningarprósentu á fasteignaskatti vegna mikillar hækkunar fasteignamats.
,,Við viljum verja störf og góða þjónustu áfram og þó að það sé ekki markmið að skila neikvæðri rekstrarniðurstöðu þá er það réttlætanlegt með það í huga og þeirri von að ástandið lagist með tímanum. Enn ríkir nokkur óvissa um framvindu efnahagsmála og um áramót eru kjarasamningar lausir við ýmsar stéttir, s.s. kennara. Þá er óvíst hvernig ríkið ætlar að standa við verkefni sem gert er ráð fyrir að ríki og sveitarfélög sinni saman og sem tilgreind eru í samkomulagi sem var gert við Samband íslenskra sveitarfélaga um afkomu og efnahag árin 2021-2025,” segir Gunnar.

Íbúafjöldi yfir 18 þúsund

Mikil uppbygging hefur átt sér stað í Garðabæ á undanförnum árum og íbúafjöldi fór yfir 18 þúsund á árinu 2021. Í Garðabæ hefur uppbygging á nýjum svæðum verið jöfn og þétt og segir Gunnar það vera mjög jákvæðar fréttir. „Um er að ræða svæði sem gefa meiri tekjur inn í framtíðina, t.d. í Vetrarmýri og Hnoðraholti, við Lyngás, í Urriðaholti og á miðsvæði Álftaness. Áfram er gert ráð fyrir mikilli uppbyggingu með framboði lóða fyrir íbúðahúsnæði og atvinnuhúsnæði t.d. í Vífilsstaðalandi, Hnoðraholti, Urriðaholti og Álftanesi,“ segir Gunnar.

400 milljónum til byggingar og kaupa á félagslegum húsnæðisúrræðum

Á árinu 2022 er gert ráð fyrir framkvæmdum að fjárhæð 4.326 m.kr.. Stærstu framkvæmdirnar á árinu 2022 verða í Urriðaholti þar sem byrjað verður á byggingu næsta áfanga Urriðaholtsskóla (900 m.kr) og nýjum leikskóla (800 m.kr). Einnig er samkvæmt framkvæmdaáætlun gert ráð fyrir að endurbæta skólalóðir, skólahúsnæði, opin leiksvæði og íþróttavelli. Jafnframt er ráðgert að ráðstafa um 400 milljónum til byggingar og kaupa á félagslegum húsnæðisúrræðum. Til gatnagerðar, hljóðvistar og umferðarmála er áætlað að verja um 1,295 m.kr.

Stærstu framkvæmdirnar árið 2022 verða í Urriðaholti en þar fara um 800 m.kr. í nýjan leikskóla

Halda úti mikilvægri starfsemi við erfiðar aðstæður

Á síðasta bæjarstjórnarfundi Garðabæjar, 2. desember sl. færði bæjarstjórn Garðabæjar starfsmönnum bæjarins sérstakar þakkir fyrir að hafa lagt sig fram og staðið sig einstaklega vel við að halda úti mikilvægri starfsemi bæjarins við erfiðar aðstæður í kórónuveirufaraldrinum. Með því hefur starfsemin haldist að mestu órofin og þjónusta við íbúa verið tryggð á flestum sviðum. Starfsmenn bæjarins hafa með sínum störfum lagt sitt að mörkum fyrir virkni samfélagsins.

,,Á tímum sem þessum þegar við glímum við heimsfaraldur hefur reynt mikið á samfélagið í heild sinni um hvernig við vinnum saman að því að halda samfélaginu gangandi en um leið huga að heilsu okkar allra. Ég vil því nota tækifærið og þakka bæði starfsmönnum og íbúum fyrir þá þolinmæði og þrautseigju sem þeir hafa sýnt á undanförnum misserum við þær aðstæður sem hafa verið uppi. Samheldni hefur þar skipt miklu máli. Við sem störfum hjá bænum kunnum líka að meta það samtal sem við eigum við bæjarbúa um hvað má gera betur og við gerð fjárhagsáætlunar er horft til framtíðar um hvernig við eflum samfélagið okkar á komandi misserum“ segir Gunnar að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar