Garðabær – Gott öldrunarsamfélag

Eitt stærsta verkefni bæjarstjórnar Garðabæjar á næstu árum og áratugum verður að byggja upp gott öldrunarsamfélag í Garðabæ með áherslu á heilsutengdar forvarnir og lýðheilsu.
Í ljósi ört stækkandi hóps eldri borgara á Íslandi þurfa bæði ríkið og sveitarfélög landsins að leggja stóraukna áherslu á heilsueflandi aðgerðir til að sporna gegn félagslegri einangrun og einmanaleika eldra fólks.

Fjölgun í eldri aldurshópum – heilsutengdar forvarnir

Hagstofa Íslands spáir um 60% fjölgun aldraðra Íslendinga, 67 ára og eldri, á næstu 15 árum. Þessi aldurshópur fer úr rúmlega 42 þúsund einstaklingum í 68 þúsund.
Eldra fólkinu okkar hér í Garðabæ fjölgar einnig stöðugt og þörfum þeirra verða bæjaryfirvöld að mæta.
Lykilorðin í umfjöllun um lýðheilsu eru forvarnir og heilsuefling. Fólk vill auka lífsgæði sín á efri árum og eldra fólkið okkar þarfnast félagslegra tenginga.
Við Íslendingar þurfum að finna leiðir til þess að móta gott öldrunarsamfélag í okkar fallega landi.
Við þurfum að fjárfesta í auknum mæli í heilsutengdum forvörnum.

Arðbær fjárfesting

Breskar rannsóknir hafa sýnt fram á það með óyggjandi hætti að fjárfesting í heilsutengdum forvörnum skilar sér margfalt til baka.
Í tiltölulega nýrri breskri vísindagrein er kynnt samantekt 52 rannsókna innan heilsutengda forvarnageirans. Þar kemur fram að sé um að ræða staðbundna fjárfestingu í heilsutengdum forvörnum innan sveitarfélaga eða héraða skili slík fjárfesting sér 14-falt til baka í lægri samfélagslegum kostnaði.
Í samskonar fjárfestingu á landsvísu er arðsemin næstum helmingi hærri.

Miðgarður – miðstöð heilsutengdra forvarna

Við opnuðum fyrir skemmstu Miðgarð, nýtt glæsilegt fjölnota íþróttahús í Vetrarmýrinni.
Ég sé fyrir mér að Miðgarður verði í framtíðinni Miðstöð heilsutengdra forvarna í Garðabæ, lifandi félagsmiðstöð fyrir fólk á öllum aldri til að efla heilsu og nálægð, samverusvæði með lifandi kaffihúsi, heilsurækt, heilsufræðslu, þjálfun og heilsufarsmælingum.
Í Miðgarði er stórt óinnréttað húsrými sem við getum nýtt að hluta til í þessu skyni fyrir eldra fólkið okkar í beinum tengslum við þau göngusvæði sem nú þegar eru undir þaki í íþróttasalnum.

Aukin félagsaðstaða eldra fólks

Aukin félags- og tómstundaaðstaða eldri borgara mun koma til kasta bæjarstjórnar Garðabæjar á næsta kjörtímabili.

Í Jónshúsi þarf að bæta aðstöðu fyrir félagsstarfið, tækjavæða og lagfæra húsnæðið þannig að fleira eldra fólk geti verið á staðnum í einu. Í nýjum íbúðarkjarna við Lambamýri á miðsvæði Álftaness er gert ráð fyrir aðstöðu fyrir félags- og tómstundastarf eldri borgara.
Miðgarður í Vetrarmýri, Lambamýrin á Álftanesi, Jónshús á Sjálandi og Smiðjan í Kirkjuhvoli geta saman skapað grunn fyrir öflugt samfélag eldra fólks með heilsutengdum forvörnum og heilsueflingu, samverustundum, smíðum, listsköpun og menningarstarfi.

Þekking og reynsla mikilvæg

Ég býð Garðbæingum þekkingu mína og reynslu til að tryggja meðal annars þessum mikilvægu heilsutengdu verkefnum fyrir eldra fólkið okkar framgang á næsta kjörtímabili.

Gunnar Valur Gíslason
Bæjarfulltrúi og formaður menningar-
og safnanefndar Garðabæjar

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar