Kópavogur hefur alla burði til að sækja enn frekar fram

Ásdís Kristjánsdóttir, fráfarandi aðstoðarframkvæmdastjóri og áður forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, vill leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi fyrir komandi sveitarstjórn-arkosningar í maí nk., en hún gefur kost á sér í fyrsta sæti í prófkjöri flokksins sem verður haldið 12. mars nk.

Ásdís er hagfræði- og verkfræðimenntuð og hefur hún m.a. starfað á fjármálamörkuðum, setið í stjórnum fyrirtækja auk þess sem hún hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir stjórnvöld

Vill hafa jákvæð áhrif á samfélagið

Kópavogspósturinn spurði Ásdísi, sem hefur ekki blandað sér í bæjarpólitíkina áður, hvernig það hafi komið til að hún ákvað að taka þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins? ,,Í raun má segja að í gegnum störf mín hjá Samtökum atvinnulífsins hafi ég nú þegar blandað mér með óbeinum hætti í bæjarpólitíkina. Hjá samtökunum lagði ég ríka áherslu á ábyrgan og skilvirkan rekstur og talaði fyrir breytingum á málefnum sem snúa að sveitarfélögum. Þá hef ég gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir stjórnvöld á meðan Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í stjórn. Ég fékk hvatningu um að fara fram og mat það sem svo að nú væri rétti tíminn fyrir mig til að bjóða fram reynslu mína og þekkingu fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Kópavogi. Ég hef brennandi áhuga á því að hafa jákvæð áhrif á sam-félagið okkar og um það snýst pólitík að mínu mati,” segir Ásdís.

Sér ekki eftir ákvörðuninni

Kom ekkert annað en oddvitasætið til greina og þú telur þig tilbúna að leiða flokkinn fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar? ,,Ég tók þessa ákvörðun eftir að Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri ákvað að gefa ekki kost á sér aftur. Í fullri hreinskilni var þessi ákvörðun ekki auðveld enda lá ljóst fyrir að með ákvörðun minni um framboð væri ég um leið að segja skilið við Samtök atvinnulífsins, enda fer slíkt ekki saman. Ég sé hins vegar ekki eftir þessari ákvörðun og hef fundið frá upphafi mikinn kraft og áhuga hjá félögum mínum í Sjálfstæðisflokknum, starfsmönnum Kópavogsbæjar sem ég hef rætt við og bæjarbúum almennt. Allir vilja gera bæjarfélagið okkar enn betra, sem er frábært.
Ég hef víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og hef verið stjórnandi í rúmlega áratug. Ég taldi því rétt að bjóða fram mína krafta til að leiða lista Sjálfstæðisflokksins til sigurs í sveitarstjórnarkosningunum í maí.”

Sneritfletirnar eru víða

Hefur þú verið lengi búsett í Kópavogi og fylgst vel með málefnum bæjarins? ,,Ég ólst upp í Seljahverfinu í Breiðholti. Við hjónin höfum hins vegar búið í Kópavogi í 12 ár og börnin okkar þrjú hafa alist hér upp nánast alla sína ævi, verið í bæði leik- og grunnskóla hér í bænum. Þá æfa þau íþróttir hjá HK, Breiðabliki og í Tennishöll Kópavogs. Þau hafa einnig verið í námi hjá Tónlistarskóla Kópavogs. Snertifletirnir eru því víða og ég hef fylgst vel með málefnum bæjarins m.a. í gegnum börnin mín. Þá hef ég fylgst með rekstri bæjarins og er ánægjulegt að sjá hversu vel hefur tekist til undir stjórn Sjálfstæðisflokksins að standa vörð um traustan rekstur þrátt fyrir ýmis konar áföll.”

Ásdís ásamt eiginmanni sínum, Agn ari Tóm asi Möller, börnum og hundi við Elliðavatn

Vill tryggja að Kópavogur verði áfram í fremstu röð

Hvað telur þú að megi betur fara í Kópavogi og hverjar eru þínar helstu áherslur er kemur að málefnum bæjarins? ,,Mig langar að leggja mitt af mörkum til að tryggja að Kópavogur verði áfram í fremstu röð sveitarfélaga á Íslandi. Ég vil leggja áherslu á traustan fjárhag, framúrskarandi þjónustu og skýra framtíðarsýn. Mikilvægt er að standa vörð um ábyrgan rekstur enda forsenda þess að unnt sé að veita sveigjanlega og góða þjónustu fyrir bæjarbúa. Ég vil stilla öllum álögum á fólk og fyrirtæki í hóf og leita leiða til að lækka þær. Vítin eru til varnaðar eins og sjá má svo glöggt, því miður, í Reykjavík sem hefur rekið ósjálfbæra stefnu í alltof langan tíma, útgjöldin eru útblásin og skuldasöfnun svo mikil að það stefnir í óefni,” segir hún og heldur áfram: ,,Stjórnsýslan þarf auk þess að vera skilvirk og erindi afgreidd hratt og vel. Ég sé tækifæri til að spara fólki sporin og að gera stjórnsýsluna skilvirkari með stafrænum lausnum. Með ábyrgum rekstri, hóflegum álögum og skilvirkri stjórnsýslu eru tækifæri fólgin í því að styrkja tekjustofna bæjarins með því að laða til okkar öfluga starfsemi fjölbreyttra fyrirtækja og fjölga þannig atvinnutækifærum fyrir bæjarbúa.”

Mikilvægt að auka sjálfstæði skóla

,,Ef Kópavogur á að vera sveitarfélag í fremstu röð þarf hann að vera leiðandi í skólamálum. Ég tel mikilvægt að auka sjálfstæði skóla enda sýna rannsóknir að aukið sjálfstæði helst í hendur við betra nám fyrir nemendur og vaxandi ánægju starfsfólks.
Ég sé tækifæri til að nýta enn frekar snjallar tæknilausnir í kennslu sem bæta bæði gæði náms og starfsumhverfi kennara. Byggja þarf upp leikskóla samfara vaxandi bæ og finna leiðir til að leysa mönnunarvanda þeirra. Ég vil efla og útvíkka stuðning bæjarins til að hvetja fólk til náms í leikskólafræðum. Einnig þarf að styrkja ófaglærða starfsmenn til að sækja námskeið og fræðslu, þannig að meiri hvati verði hjá þeim til að vinna áfram á leikskólum bæjarins,” segir hún.

Áhugaverð uppbyggingarverkefni framundan

,,Fram undan eru áhugaverð uppbyggingarverkefni í bænum. Mikilvægt er að vanda vel til verka. Ég tel mikilvægt að hafa skýra framtíðarsýn á mögulega þróun hverfa þannig að uppbygging haldist í hendur við þarfir íbúa á hverjum tíma.
Greiðar samgöngur fyrir fjölbreyttan lífsstíl í takt við vaxandi bæ eru mikið lífskjaramál fyrir bæjarbúa. Ég tel mikilvægt að standa sérstaklega vörð um hagsmuni Kópavogsbúa í þeim fjárfestingum sem eru fram undan í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu.
Lýðheilsa skiptir miklu máli fyrir unga sem aldna Kópavogsbúa. Bærinn okkar á að vera framúr-skarandi samfélag sem stuðlar að vellíðan meðal íbúa á öllum aldursskeiðum. Hvort sem horft er til aðstöðu til hreyfingar í okkar nærumhverfi eða mataræði barna okkar, eldri borgara og starfsmanna bæjarins.
Íþróttafélög bæjarins gegna mikilvægu forvarnarhlutverki fyrir unga sem aldna. Við eigum að efla það starf enn frekar. Þá vil ég sjá fleiri græn svæði því þau stuðla að aukinni ánægju, hreyfingu og eru lýðheilsumál fyrir íbúa. Eldri bæjarbúar eiga að fá tækifæri til að búa á heimilum sínum eins lengi og þeir kjósa með nauðsynlegum stuðningi. Tækifæri eru til að samþætta betur heimaþjónustu og heimahjúkrun eldri borgara í Kópavogsbæ. Slíkt skilar sér í skilvirkari og betri þjónustu til notenda. Mikil þróun er nú í fjarþjónustu í lýðheilsumálum. Kópavogur þarf að vera leiðandi á þessu sviði.
Ég vil að við setjum markið hátt. Kópavogur hefur allar burði til að sækja enn frekar fram. Við stöndum framarlega á mörgum sviðum, en það er alltaf hægt að gera enn betur.”

Er mikil keppnismanneskja, skipulögð og lausnamiðuð

Þú hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu og ert hagfræði- og verkfræðimenntuð. Á það eftir að nýtast þér vel sem bæjarfulltrúi? ,,Að mínu mati er tvímælalaust kostur að koma með reynslu úr atvinnulífinu í sveitarstjórn og sú menntun sem ég hef hefur nýst mér vel við að takast á við krefjandi verkefni á mínum starfsferli. Ég ermikil keppnismanneskja, skipulögð og lausnamiðuð sem er mikilvægur eiginleiki fyrir oddvita flokksins.
Ég lít svo á að rekstur sveitarfélags sé að mörgu leyti eins og rekstur á stóru fyrirtæki. Ávallt skal leita leiða til að fara betur með sameiginlega sjóði bæjarbúa, tryggja skilvirka og góða þjónustu og standa vörð um innviði bæjarins.
Ég hef séð það í gegnum störf mín hjá Samtökum atvinnulífsins að mikil sóun er víða í opinberum rekstri. Sjaldan er talað fyrir hagræðingu en nægar eru hugmyndir um hvers konar útgjöld. Mikilvægt er að standa vaktina fyrir Kópavogsbúa og tryggja að rekstur sveitarfélagsins fari ekki úr böndunum.”

Ásdís segir fátt toppa pizzukvöld fjölskyldunnar á föstudögum

Hefur gaman af stangaveiði en fátt toppar pizzakvöld með fjölskyldunni

En hver eru svo helstu áhugamál Ásdísar, hvað gerir þú í frístundum þínum? ,,Ég hef gaman af stangveiði og hef veitt reglulega frá því ég var lítil stelpa. Við hjónin höfum verið að draga krakkana með okkur í þetta sport. Sá yngsti er mjög áhugasamur en hið sama get ég ekki sagt um mín eldri tvö. Við hjónin höfum æft tennis í Tennishöll Kópavogs frá því í haust og má segja að þetta sé okkar nýja hjónasport. Þá reynum við fjölskyldan að fara á skíði þegar veður leyfir og tími gefst til. En við erum mjög heimakær og fátt sem toppar pizzakvöld fjölskyldunnar á föstudagskvöldum yfir góðri bíómynd.”

Höfum alla burði til að stilla upp öflugum lista

Og er tilhlökkun fyrir prófkjörinu, 16 vaskir frambjóðendur að taka þátt og spennandi tímar fram undan? ,,Það er mikil tilhlökkun að taka þátt í prófkjörinu og spennandi vikur framundan. Það er virkilega ánægjulegt að sjá hversu margir öflugir einstaklingar eru í framboði. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla burði til að stilla fram öflugum lista í sveitarstjórnarkosningunum í vor og við setjum auðvitað markið hátt,” segir Ásdís að lokum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar