Saman í sigurliðinu

Ég er fædd og uppalin í Garðabæ og bý í dag í Akrahverfinu ásamt dóttur minni. Skólaganga mín hófst í Hofsstaðaskóla, þaðan fór ég í Garðaskóla og svo í Fjölbrautaskólann í Garðabæ. Ég lauk BS-prófi í viðskiptafræði og MS-prófi í hagfræði auk þess sem ég hef lokið prófi í verðbréfamiðlun. Ég starfa sem sérfræðingur í lífeyrismálum hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins ásamt því að vera hóptímakennari í World Class. Samhliða starfinu hef ég haldið kynningar á lífeyrisréttindum fyrir sjóðfélaga LSR og verið fulltrúi á vegum Fjármálavits sem er fræðsluvettvangur með áherslu á námsefni í fjármálalæsi fyrir grunnskólanemendur.

Ég er mikil keppnismanneskja og spilaði handbolta með Stjörnunni í mörg ár, þjálfaði einnig yngri flokka félagsins þar í nokkur ár og tek ennþá virkan þátt í starfi félagsins. Ég spila handbolta í Utandeildinni, hef verið þulur á leikjum hjá mfl. kvenna og tekið þátt í skipulagningu á Kvennakvöldi Stjörnunnar.
Ég vil leggja áherslu á að Garðabær verði áfram í forystu fyrir fjölskyldur með því að viðhalda leik- og grunnskólum bæjarins. Auk þess að í boði verði fjölbreyttir kostir í húsnæðismálum ásamt því að tengja samgöngur við Álftanes og Urriðaholt betur við miðbæinn svo að börn og unglingar komist á öruggan hátt leiða sinna.

Í forystu fyrir fjölskyldur

Garðabær er heillandi bæjarfélag og hefur alla möguleika til þess að vera áfram í forystu fyrir fjölskyldur. Bæjarfélagið á að vera með framúrskarandi leik- og grunnskóla og áfram þarf að tryggja öllum börnum við 12 mánaða aldur inngöngu í leikskólum bæjarins. Upplýsa þarf foreldra tímanlega um inngöngu barna þeirra og eyða þannig óvissu foreldra um það hvenær barnið komist inní leikskóla.
Mikilvægt er að áfram sé haldið vel utan um íþrótta- og tómstundastarf bæjarins og með tilkomu Miðgarðs, sem er nýtt fjölnota íþróttahús, opnast margir spennandi möguleikar.

Garðabær sem framtíðarheimili

Bærinn þarf að tryggja fjölbreytt framboð á húsnæði ásamt lóðum fyrir fólk á öllum aldri. Ungt fólk á að hafa tækifæri til að kaupa sína fyrstu eign í bænum, fjölskyldur eiga að geta stækkað við sig en einnig er mikilvægt að auðvelda eldra fólki að geta búið áfram í  bæjarfélaginu. Hingað til hafa ýmis úrræði verið fyrir yngri sem eldri íbúa. Í því tilliti má nefna Unnargrund en þar var á sínum tíma lóðum úthlutað til Byggingarfélags eldri borgara.

Vinna í sátt við náttúruna í sveitarfélaginu

Framundan er spennandi verkefni við frekari uppbyggingu stíga og útivistarsvæða í upplandi Garðabæjar. Mikilvægt er að tengja Álftanes og Urriðaholt betur við miðbæinn og sjá til þess að börn og unglingar komist á öruggan hátt leiða sinna. Þessa vinnu þarf að vinna í sátt við náttúruna og umhverfið á svæðinu.
Tryggjum ungu fólki rödd í bæjarstjórn

Allir sem þekkja mig vita að ég er stoltur Garðbæingur og mér finnst mikilvægt að ungt fólk fái að taka þátt í að skapa farsælt bæjarfélag. Ég sækist eftir tækifæri til að bætast í öflugan hóp bæjarfulltrúa í Garðabæ til að vinna áfram sem ein sterk liðsheild og gera góðan bæ enn betri.

Ég gef kost á mér í 6. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ.

Lilja Lind Pálsdóttir

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar