Framsækni felst í að efna fyrirheit

Fyrir kosningarnar 2018 lögðum við sjálfstæðismenn og -konur í Garðabæ fram ítarlega framtíðarsýn. Frambjóðendur gengu í öll hús í bænum og afhentu íbúum 100 framsækin og metnaðarfull fyrirheit sem lýstu samheldnu og þróttmiklu samfélagi þar sem mennskan og gæskan eru í fyrirrúmi og virðing borin fyrir náttúrunni. Fyrirheitin voru unnin með þátttöku fjölmargra bæjarbúa sem láta sig hag bæjarins okkar varða.

Nú, fjórum árum seinna höfum við staðið við þessi fyrirheit. Flest þeirra eru að fullu efnd og sum stór framfaramál eru enn í vinnslu. Hér að neðan er stiklað á stóru.

Skipulagsmál, samgöngur, lífsgæðin og þjónustan

• Ný íbúðarhverfi á Álftanesi, við Lyngás, í Vetrarmýri og Hnoðraholti. Kröftug uppbygging í gangi.
• Endurbætur á gatnamótum Hafnarfjarðarvegar, Vífilsstaðavegar og Lyngáss, undirgöng til móts við Lækjarás, hringtorg við Flataskóla og Litlatún.
• Ný strætóleið, leið 22 Urriðaholt-Miðgarður-Fjölbraut-Ásgarður.
• Umfangsmikil stígagerð og endurnýjun húsagatna víða um bæinn.

Sterkir skólar, grunnstoð samfélagsins

• Bætt kjör barnafjölskyldna með lágar tekjur, afsláttur af leikskólagjöldum, gjöldum frístundaheimila og gjöldum til dagforeldra.
• Markvisst unnið að leikskólavistun barna um leið og fæðingarorlofi lýkur. Markmiði náð 2021 en mannekla og covid-19 truflaði tímabundið. Ungbarnaleikskólinn Mánahvoll risinn við Vífilsstaði, nýr leikskóli í Urriðaholti haustið 2022 og sá þriðji haustið 2023. Nýr leikskóli við Lyngás í farvatninu.
• Öflugir þróunarsjóðir skólanna til að efla skólastarf auk sérsjóðs leikskóla til að laða að starfsfólk.
• Hafin starfsemi í Urriðaholtsskóla, 2. áfangi í útboðsfasa. Álftanesskóli stækkaður. Skólalóðir endurgerðar. Úthlutun lóðar fyrir nýtt húsnæði Alþjóðaskólans, bygging hafin.

Öflugar forvarnir og íþróttir – gróskumikið menningarlíf

• Samstarfs verkefnið Barnvæn sveitarfélög með UNICEF á Íslandi og félags- og barnamálaráðherra,
• Miðgarður, nýtt fjölnotahús í Vetrarmýri.
• Uppbygging og endurbætur á aðstöðu við Ásgarð og á Álftanesi.
• Reiðhöll Sóta við Breiðumýri, útilífsmiðstöð skáta í Heiðmörk, úthlutun lóðum á Kjóavöllum.
• Barnamenningarhátíð Garðabæjar sett á stofn, nýr þróunarsjóður skapandi greina til að styðja við listir og menningu.

Fjölbreytt starf fyrir eldri bæjarbúa

• Samningur við félög eldri borgara um félagsstarf og heilsueflingu eldri borgara.
• Með Miðgarði í Vetrarmýri er lagður enn betri grunnur að eflingu lýðheilsu eldra fólksins okkar.
• Með kaupum á húsnæði á miðsvæði Álftaness hafinn undirbúningur að enn fjölbreyttara starfi eldra fólks.

Félagsþjónusta til sjálfshjálpar

• Félagslegum búsetuúrræðum fjölgað. Búsetukjarni fatlaðs fólks við Unnargrund, framkvæmdir að hefjast annan í Brekkuási, og sá þriðji í bígerð í Hnoðraholti.
• Samstarf við Búseta og Bjarg íbúðafélag og Búseta um leiguíbúðir.

Miðbærinn, snyrtilegt umhverfi, friðun og útivist

• Öflugur miðbær risinn við Garðatorg þar sem boðið er upp á verslun, þjónustu, menningu og listir.
• Ný rafbílastæði, víðtæk endurgerð leiksvæða, endurheimt votlendis, fræðsluskilti um sögu on náttúru, útivistarstígar, lýðheilsu- og fræðslugöngur.
• Friðlýsingar stórra svæða í Heiðmörk, Garðahrauni og á Álftanesi, friðlönd og fólkvangar.
Orð og efndir – það skiptir máli hverjir stjórna

Við sjálfstæðisfólk þökkum Garðbæingum kærlega fyrir það traust sem okkur hefur verið sýnt í gegnum árin við stjórn bæjarins. Við höfum haft skýran metnað til að endurgjalda það traust með því að standa við gefið fyrirheit og vinna af kappi og ábyrgð í þágu bæjarbúa.

Fyrir komandi kosningar leggjum við svo fram ný fyrirheit og þau ætlum við líka að efna. Það er sá tónn sem við, kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ, munum ávallt slá. Traust snýst um að efna fyrirheit.

Björg Fenger, forseti bæjarstjórnar Garðabæjar. skipar 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í komandi sveitastjórnarkosningum.

Gunnar Valur Gíslason, verkfræðingur, MBA og bæjarfulltrúi í Garðabæ, skipar 6. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar