Kvenfélag Álftaness var stofnað árið 1926 á þeim tíma sem mikill skortur var á ýmsum þeim varningi sem okkur telst sjálfsagt í dag, t.m. kaffi og smjörlíki.
Konur deildu með sér slíkum gersemum til þeirra heimila sem ekkert áttu, einnig hefur Kvenfélagið alla tíð staðið með samfélaginu, styrkt allt skólastarf og Líknarsjóð Álftanes allan þennan tíma og gerir enn í dag.
Í byrjun voru notaðar fjáröflunarleiðir basarar, ræktun og sala á kartöflum, hlutaveltur og bögglauppboð ásamt því að sjá um ýmsa fræðslu eins og húsmæðrafræðslu og dönskukennslu í hreppnum.
Þetta voru sterkar konur sem lyftu björgum fyrir samfélag sitt og er það mikill heiður að fá að taka þátt í slíku starfi.
Í dag förum við aðeins aðrar leiðir og erum hættar í kartöfluræktinni.
Við héldum opið konukvöld í haust sem kom mjög vel út og verður haldið áfram, tökum þátt í hreinsunarátakinu í samfélagi okkar, höldum hina ýmsu fræðslufundi, sjáum um Þorrablótið ásamt Lions, eigum fjallkonu Garðabæjar annað hvert ár, stofnuðu sjósundsfélagið Ránardætur og höldum okkar árlega Græna Markað sem er skemmtilegur flóamarkaður þar sem Kvenfélag Álftaness vinnur með vitundarvakningu á sóun og endurnýtingu sem er tengt einu heimsmarkmiðinu ( nr.12 um Ábyrga neyslu og framleiðslu ).
Grænn markaður til 12. maí
Í ár höldum við Græna Markaðinn frá fimmtudeginum 9. maí – 12. maí nk. í Álftaneskaffi og viljum bjóða alla velkomna til okkar. Það verður kaffisala dagana 10.,11 og 12. maí með heimabökuðu góðgæti. Þarna verða ýmsir gullmolar í boði, merkjafatnaður, skór og húsbúnaður og margt fleira.
Það er upplagt að leggja leið sína á Álftanes og heimsækja Forsetabikarinn í Íþróttahúsinu og Græna Markaðinn í Álftaneskaffi.
Með kveðju og þökk,
Sigríður Sif , formaður kvenfélags Álftaness