Tóku létta fimmu þegar skrifað var undir! -Garðabær og Gróska endurnýja samstarfssamning

Garðabær og Gróska í Garðabæ hafa endurnýjað samstarfssamning sinn til ársins 2026, en Gróska eru samtök myndlistamanna og áhugamanna um myndlist í Garðabæ. Þeir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri og Birgir Rafn Friðriksson, formaður Grósku undirrituðu samninginn í Gróskusalnum við dillandi tónlistarnið úr Jazzþorpinu í Garðabæ og fengu sér svo rjómapönnukökur til að halda upp á undirritunina.
  
Með samningnum er Grósku falið að halda sína rómuðu Jónsmessugleði í Garðabæ, halda sýningar í Gróskusalnum og á Bókasafni Garðabæjar og fá samtökin til þess rekstrarstyrk til ársins 2026.  Þá hafa þau einnig umsjón og aðgang að Gróskusalnum sem Garðabær rekur. 
Nú er frábærri sumarsýningu Grósku, Vorið er komið og grundirnar gróa, nýlokið og Jónsmessuhátíðarinnar er beðið með mikilli eftirvæntingu í  júní.
 
Sýning Álfheiðar Ólafsdóttur, Traustur vinur, hófst í gær, 10. maí á Bókasafni Garðabæjar. Fram undan eru fjölmargar sýningar á vegum Grósku.

Forsíðumynd: Almar og Birgir Rafn voru léttir á því eftir að skrifað var undir samninginn og tóku léttu fimmu áður en þeir réðust í pönnukökurnar sem voru í boði.

Bæjarstjórinn skellti sér í pönnsur eftir undirskrift, tók bæði með sykri og sultu og rjóma.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar