Fjármunir og félagslegir innviðir

Okkur hefur gengið vel í Garðabæ og við byggjum á góðum grunni. Í stefnumörkun og ákvarðanatökum höfum við fylgt grunngildum Sjálfstæðisflokksins, hér er góð þjónusta og lágar álögur – og íbúar hafa val. Góð þjónusta byggir á traustum fjárhag og fylgni er á milli góðrar þjónustu og ánægju íbúa. 

Uppbygging og félagslegir innviðir

Uppbygging er mikil í bæjarfélaginu og við þurfum að vanda til verka og vera varfærin. Vexti sveitarfélags fylgja miklar fjárfestingar í innviðum. Í allri umræðu um innviði sveitarfélaga er mikilvægt að félagslegir innviðir gleymist ekki. Félagslegir innviðir eru t.d. leik- og grunnskólar, frístund og frístundabíll sem nýtist barnafjölskyldum sem og sveigjanleg dagvistun og góð heimaþjónusta. Höldum uppbyggingu áfram ásamt því að sinna viðhaldi mannvirkja og opinna svæða. Við þurfum einnig að gæta þess að nýta tekjur af sölu lóða í uppbyggingu innviða og greiða niður skuldir. 

Vellíðan og virkni

Þátttaka í íþrótta- og tómstundastarfi eykur vellíðan og virkni og spornar gegn félagslegri einangrun. Rannsóknir sýna að heimsfaraldurinn hefur haft alvarlegar afleiðingar á líðan fólks, sérstaklega ungs fólks. Þunglyndiseinkenni mælast meiri en áður og andleg heilsa er verri. Skjátími barna hefur aukist, grunnskólanemendum finnst námið minna skemmtilegt og vanlíðan framhaldsskólanemenda hefur aukist sem hefur m.a. í för með sér auknar líkur á brottfalli. Ofan á allt saman hreyfa börn og ungmenni sig minna. Þá er eldra fólk meira einmana því faraldurinn hefur dregið úr félagslegum samskiptum eldri bæjarbúa sem og annarra. Þetta er slæm þróun sem við þurfum að taka alvarlega og bregðast við af festu og fagmennsku. Hér þurfa ríki og sveitarfélög að grípa inn í. Öflugt íþrótta- og tómstundastarf hefur sennilega aldrei verið eins mikilvægt og nú. 

Öflugt íþrótta- og tómstundastarf

Góðir innviðir, aðstaða og búnaður, stuðla að aukinni virkni og þátttöku bæjarbúa. Við þurfum að tryggja góðan aðbúnað, sinna viðhaldi betur og auka framboð á fjölbreyttum valkostum um leið og við hvetjum alla aldurshópa til þátttöku. Eflum frjálsu félögin og breytum nálgun. Stuðningur við íþrótta- og tómstundastarf er ekki aðeins styrkur heldur keypt þjónusta, þjónusta sem er mikilvæg í heilsueflandi og fjölskylduvænu sveitarfélagi. Í mínum huga er þátttaka í öflugu íþrótta- og tómstundastarfi jafnmikilvæg og framboð á leikskólaplássi og aðgengi að heimaþjónustu. 

Lækkum fasteignaskatt og stafræn þróun

Hækkandi markaðsverð á fasteignamarkaði hefur bein áhrif á fasteignamat sem hefur íþyngjandi áhrif á fasteignaeigendur, t.d. í gegnum fasteignaskatt. Í Garðabæ höfum við lækkað álagningaprósentu fasteignaskatts á kjörtímabilinu en með hækkandi fasteignamati er brýnt að horfa til frekari lækkana á fasteignaskattinum.

Með stafrænni þróun förum við betur með fjármuni og þjónusta verður skilvirkari og betri. 
Lyfta þarf grettistaki í þróun stafrænna lausna sem straumlínulaga og flýta fyrir afgreiðslu mála, einfalda samskipti, auka gegnsæi og tryggja faglega og fumlausa úrlausn mála. 

Áslaug Hulda Jónsdóttir er formaður bæjarráðs og býður sig fram í 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar