Snjallar lausnir og eldveggir í heimaþjónustu aldraðra

Það er markmið allrar þjónustu hjá Kópavogsbæ að gera hana notendavæna og snjalla. Í viðkvæmri þjónustu við aldraða þarf að reyna að einfalda umsóknarferli og upplýsingagjöf fyrir þá sjálfa og aðstandendur.

Skipting á milli ríkis og sveitafélaga

Þjónusta við aldraða skiptist á milli sveitafélaga og ríkis með eftirfarandi hætti. Helstu þættir þjónustu við aldraða á vegum sveitafélaga eru félagsleg heimaþjónusta,og starfsemi í þjónustumiðstöðvum aldraðra. Heimahjúkrun er á vegum heilsugæslustöðva, dagdvalir, endurhæfingar- og hvíldarinnlagnir eða búseta í dvalarrými eða hjúkrunarrými á stofnunum aldraðra eru á ábyrgð ríkisins.
Það er yfirlýst stefna stjórnvalda að gera sem flestum kleift að búa sem lengst heima og því er heimaaðstoð lykilþáttur í því að slíkt sé mögulegt og eykst þörfin fyrir hana ári frá ári.

Staðan í Kópavogi og Reykjavík.

Kópavogur hefur verið með samning við Heilsugæsluna frá árinu 2008. Samningurinn felur það í sér að bæjarfélagið greiðir fyrir stöðugildi félagsliða sem starfa með teymum heimahjúkrunar. Félagsleg þjónusta á kvöldin og um helgar er því veitt af heimahjúkrun í bæjarfélaginu. Ánægja hefur verið með þetta samstarf og með henni fá íbúar samþættari þjónustu en annars væri og hafa til dæmis fjarfundir bætt ennfrekar samstarfið. Reykjavík fór aðra leið. Þeir tóku yfir heimahjúkrunina en eftir því sem næst verður komist þá hefur það ekki breytt aðgangi starfsmanna tveggja þjónustusviða að tölvukerfum sem nauðsynleg eru til fullrar samþættingar.

Snjallar lausnir og eldveggir

Fyrir aðstandendur og notendur heimaþjónustu og heimahjúkrunar hefur verið ákveðið flækjustig sem velferðarsvið, heimahjúkrun og Kópavogsbær hafa undanfarin ár reynt að leysa með tæknilausnum. Svör bárust frá heilbrigðisráðuneytinu að samþætting með til dæmis, sameiginlegri þjónustugátt, væri erfið vegna lagatæknilegra atriða sem er mjög miður fyrir notendur þjónustunnar og í raun alveg með ólíkindum. Ákveðið var því í framhaldi af því að óska eftir heimild til að sameina stundarskrár þjónustuaðila með að markmiði að einfalda yfirsýn og skipulagningar heildrænnar þjónustu á heimilum og auka upplýsingagjöf til aðstandenda og fagaðila.

Erindi um slíkt hefur verið sent embætti Landlæknis og enn er beðið svara og verður ítrekun svara send von bráðar.

Það hefur verið stefna Kópavogsbæjar að snjallvæða og einfalda alla þjónustu og hefur það tekist víða mjög vel. Það er því mjög miður að sú stefna strandi á lagatæknilegum atriðum og svoköllluðum eldveggjum tveggja tölvukerfa. Hugmyndafræðin um sameiginlega þjónustugátt strandar því miður enn sem komið er hjá vilja ríkisvaldisins til breytinga.

Karen Elísabet Halldórsdóttir, bæjarfulltrúi sækist eftir 1. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna í Kópavogi 12. mars nk.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar