Samkvæmt mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunnar sem gefin var út í júní hækkar fasteignamat sérbýla í Garðabæ að meðaltali um 29,5% og fjölbýla um 22,5%, sem er meiri hækkun en á sér stað að meðaltali á öllu höfuðborgarsvæðinu, þar sem sérbýli hækkar um 26% og fjölbýli um 21,7%. Fasteignamat á milli áranna 2022 og 2023 hækkar því gríðarlega á milli ára og það hefur í raun ekki hækkað meira á milli ára frá því fyrir hrun í það minnsta. Þessar miklu hækkanir á fasteignamati fyrir árið 2023 munu að öllu óbreyttu kosta fasteignaeigendur í Garðabæ hundruð milljóna, nema að bæjaryfirvöld í Garðabæ bregðist við með lækkun á fasteignaskatti.
Hæsta meðaltals fermetraverðið innan hverfis í Garðabæ fyrir sérbýli er 701 þúsund
Hæsta fermetraverð sérbýla í Garðabæ er utan þéttbýlis, en það er 701 þúsund á fermetra. Innan þéttbýlis er hæsta fermetraverð sérbýla í neðra Akrahverfi eða 659 þúsund. Lægsta fermetraverð sérbýlis er í Urriðaholti, 443 þúsund, sem kann að skýrast af því að töluvert er selt af sérbýlum, sem eru rétt rúmlega fokheld eða tilbúin til innréttinga. Þrátt fyrir það hækkar fasteignamat sérbýla fyrir árið 2023 mest í Urriðaholti eða um 41,6%. Hæsta fermetraverð fjölbýlishúss er í Sjálandi, 686 þúsund á fermeterinn en lægsta verðið er í Urriðholti, 576 þúsund. Mesta hækkun á fermetraverði fjölbýla fyrir árið 2023 er í Efra Akrahverfi, en það hækkar um 25,4%.