Fallegt samstarf á enda

Skátafélagið Vífill var stofnað á sumardaginn fyrsta 20. apríl árið 1967 og var einn steinninn í vörðu þeirrar félagslegu uppbyggingar sem þá var að myndast í Garðahreppi. Áður hafði skátastarf farið fram í hreppnum en Vilbergur Júlíusson skólastjóri starfrækti skátaflokkinn Þresti í barnaskólanum í Silfurtúni. Flokkurinn hafði aðstöðu í Hafnarfirði en þegar byggðarlagið óx hóf flokkurinn að hafa fundi í Strýtunni við Goðatún 2 í Garðahreppi. 

Það var snemma árs 1967 sem sr.  Bragi Friðriksson og Vilbergur Júlíusson sammæltust um nauðsyn þess að stofna skátafélag í bænum. Þá var Stjarnan, sem hafði í upphafi verið æskulýðsfélag í víðum skilningi og sinnt tómstunda- og útivistarstarfi samhliða íþróttastarfinu, að slíta barnsskónum og var orðið íþróttafélag fyrst og síðast. Tvö félög voru stofnuð árið 1967 sem tóku við ,,hinum hlutverkum“ Stjörnunnar, þ.e. Æskulýðsfélag Garðakirkju og Skátafélagið Vífill.

Strax í upphafi varð mikil tenging á milli kirkjunnar og skátafélagsins. Sr.  Bragi stýrði stofnfundinum sem hófst á helgistund og bæn en þannig hóf  hann alla sína fundi í gegnum ævina. 150 ungmenni mættu á þessa stund sem fór fram í barnaskólanum, sem heitir Flataskóli í dag, en fundinum lauk með því að kveiktur var varðeldur á skólalóðinni. ,,Hugstæður er mér sumardagurinn fyrsti árið 1967, er félagið var stofnað,“ sagði sr.  Bragi eitt sinn. ,,Vori var fagnað. Skátar sungu nýjan söng. Vonir vöknuðu um öflugt félagsstarf í vaxandi byggð. Þær vonir rættust.” 

Sr. Bragi gerði mikið úr þessari tengingu enda hafði hann sjálfur verið skáti á Siglufirði á táningsaldri. Sr. Bragi var hrifinn af skátahugsjóninni um að efla í hjörtum æskufólksins dáðir í þágu friðar og vináttu meðal einstaklinga og þjóða. Hann var hrifinn af Sir Robert Baden-Powell sem stofnaði skátahreyfinguna og einnig af sr. Friðriki Friðrikssyni sem var einn af frumherjum skátahreyfingarinnar á Íslandi. Þeir tendruðu báðir elda skátahugsjóninnar. „Trúin á Guð í Kristi kveikti greinilega þennan eld hugsjónar, sem síðan hefur brunnið til blessunar í skátastarfi um heim allan. Hugsjón hið innra, hollusta í góðu verki fer ætíð saman í lífi hins sanna skáta,“ sagði sr. Bragi eitt sinn.  

Traustur strengur varð á milli kirkjunnar og skátanna frá upphafi. Sr. Bragi fékk skátana til að aðstoða við að setja upp sumarhátíð Garðahrepps sem fór fram í hrauninu í landi Dysja á sjöunda áratugnum. Það var fyrsta bæjarhátíð Garðabæjar. Frá upphafi hafa hátíðahöld á sumardaginn fyrsta byrjað á skátamessu, fyrst í Garðakirkju en svo í Vídalínskirkju, og að henni lokinni var skrúðganga gengin, oftast að skólalóð einhvers grunnskólans í bænum eða á Garðatorg þar sem skátar sáu jafnframt um kaffisölu í fjáröflunarskyni. Allt eru þetta dýrmætar minningar. 

Nú hefur stjórn Vífils tekið þá ákvörðun að leggja niður samstarfið við kirkjuna á sumardaginn fyrsta. Því verður ekki helgihald fyrsta dag sumars eins og auglýst hefur verið í messubæklingi kirkjunnar.  

Við viljum fá með þessari grein að þakka fyrir samstarfið í gegnum árin en það hefur ætið verið okkur sem störfum í Vídalínskirkju gleði að taka á móti skátunum og búa til umgjörðina að stund sem ætið hefur verið á forsendum skátanna með þeirra söngvum, ávarpi skáta og viðurkenningum fyrir gott félagsstarf.  Um leið og við blessum minningu sr. Braga Friðrikssonar, sem var þessi dýrmæti frumkvöðull og skapaði ótrúlegan félagsauð í bæjarfélaginu með því að tengja félög og kirkju saman, viljum við biðja skátahreyfingunni um allt land blessunar.  

Gleðilegt sumar!

Prestar og starfsfólk Vídalínskirkju. 

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar