Oft erfitt að forgangsraða forvörnum því árangurinn er mögulega ekki sýnilegur fyrr en eftir langan tíma. Ljóst er að andleg heilsa þjóðarinnar hefur hnikast niður á við á undanförnum árum, kvíði, streita og aðrir þættir hafa brotist fram ásamt því að heimsfaraldurinn hefur haft veruleg áhrif á líf fólks. Ég trúi því einlægt að við sem samfélag séum í lykilstöðu að sýna frumkvæði til að snúa vörn í sókn og tel forvarnir vera eitt af þeim atriðum sem getur hvað best hjálpað til. Það þarf samstillt átak, framsýna hugsun og vilja til að fjárfesta í fólki þó ávinningurinn komi ekki í ljós strax.
Þar sem ég býð mig fram í 4.-6. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins finnst mér mikilvægt að setja forvarnir í forgang með samstilltu átaki og samvinnu skólanna, íþrótta- og tómstundamála og öðrum sem koma að forvarnarmálum. Ég býð mig meðal annars fram til að koma forvörnum frekar á dagskrá og mun berjast fyrir því af krafti að þær verði stórefldar í Garðabæ. Ég tel okkur einnig geta verið í kjörstöðu að vera leiðandi á þessu sviði. Þegar talað er um forvarnir þá er hugtakið ansi vítt og getur átt við marga mismunandi þætti en oftar en ekki er horft á forvarnir sem mál sem tengjast eingöngu ungu fólki sem ég held að sé mikill misskilningur. Ég mun leggja áherslu á að við stígum skrefin til að útvíkka þessa hugsun með tilliti til hækkandi lífaldurs og því hvernig við sjáum samfélagið okkar á komandi árum og áratugum. Forvarnir geta átt við um vímuefnanotkun, fræðslu er varðar kynbundið ofbeldi, bætta heilsu, íþrótta- og tómstundaiðkun, bætt geðheilbrigði og í raun allflest sem við sjáum sem mögulegar hættur í okkar umhverfi. Það eina sem þarf er vilji og löngun til að ná utan um þessa hluti, forgangsraða málaflokkunum og fjárfesta þannig í framtíðinni. Ég er sannfærð um að það séu ekki margir ósammála þessu en hins vegar sjáum við því miður að ekki sé nægilega mikið fjarmagn sett í forvarnastarf, sér í lagi þegar ávinningurinn er skoðaður til lengri tíma litið því hvað er meira virði en að bæta líf okkar íbúanna.
Ég mun leggja mitt að mörkum til að stórefla forvarnir í bænum okkar svo Garðabær verði leiðandi í öllu forvarnarstarfi. Ég trúi einlægt að innviðirnir eru sterkir og að öflugt íþrótta- og tómstundastarf í bænum ásamt öllu skóla- og félagsstarfi komi sterk inn þegar litið er að samvinnuverkefni. Það verður skemmtilegt og krefjandi verkefni sem við öll munum njóta ávinnings af.
Harpa Rós Gísladóttir