Strákarnir í 9. bekk í Sjálandsskóla fengu í síðustu viku skemmtilega kynningu og innsýn inn í störf hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða. Í heimsókn komu fjórir karlkyns hjúkrunarfræðingar sem sýndu þeim fjölbreytileika hjúkrunarstarfsins á skemmtilegan hátt í vinnusmiðjum. Strákarnir fengu að spreyta sig á ýmsum verkefnum s.s. að endurlífgun, losun aðskotahlut úr öndunarvegi á dúkku, skipta um umbúðir á gervisárum, æfa sig í að sprauta í gervihandlegg og mæling á lífsmörkum með blóðþrýstingsmæli o.fl.

Verkefnið er á vegum Jafnréttisnefndar Landspítala í samstarfi við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og Hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri.
Markmið verkefnisins er að gefa strákum í 9. bekk innsýn inn í fjölbreytilegan og áhugaverðan starfsvettvang í heilbrigðisþjónustu og breyta staðalímyndum þar sem um mjög kvenlægan starfsvettvang hefur verið um að ræða.
Strákarnir tóku virkan þátt og voru áhugasamir. Voru þeir sjálfum sér og skólanum til sóma.

