Það er heldur betur inneign hjá Kópavogi fyrir viðurkenningu sem barnvænt sveitarfélag

Kópavogur innleiðir Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna

Kópavogsbær fékk sl. fimmtudag afhenta viðurkenningu í tilefni þess að bærinn hefur innleitt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Með viðurkenningunni er Kópavogur kominn í hóp Barnvænna sveitarfélaga, en hugmyndafræði þeirra byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF. Barnvæn sveitarfélög vinna markvisst að því að uppfylla réttindi barna og UNICEF á Íslandi styður sveitarfélögin í innleiðingu sinni á Barnasáttmálanum.  Verkefnið er samstarfsverkefni UNICEF og félagsmálaráðuneytisins.

Þau Birna Þórðardóttir, framkvæmdastjóri UNICEF, og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra afhentu viðurkenninguna og Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, Ingunn Sif Isorena Þórðardóttir og Eiríkur Örn Beck, sem setið hafa í stýrihóp innleiðingarinnar hjá Kópavogsbæ, tóku við henni fyrir hönd bæjarins.

Höfum lagt mikinn metnað í innleiðinguna

„Ég er afar stoltur af því að Kópavogsbær hafi innleitt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og hversu mikinn metnað við höfum lagt í innleiðinguna. Hér var unnin ítarleg greiningarvinna á högum og aðstæðum barna sem aðgerðir okkar í þágu barna byggja á. Meðal verkefna sem spruttu upp úr þessari vinnu eru mælaborð barna, sem gefur yfirlit um heilsu og líðan barna í bænum. Mælaborðið auðveldar okkur að ákvarða hvernig við ráðstöfum fjármagni í þágu barna með réttindi barna að leiðarljósi, “segir Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs.

Unnið hefur verið að innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2018 en bæjarstjórn Kópavogs samþykkti í maí það ár að innleiða Barnasáttmálann hjá bænum.

Kópavogsbær steig inn í verkefnið á fyrsta degi

„Það er heldur betur inneign hjá Kópavogi fyrir viðurkenningu sem barnvænt sveitarfélag. Þau stigu inn í verkefnið frá fyrsta degi af stórhug og hafa staðið undir væntingum. Það er af mörgu að taka þegar hrósa á þeim fjölmörgu verkefnum sem Kópavogur hefur sett í gang, þróað frá grunni og þorað að prófa á tímabilinu. Þó er mér líklega Geðræktarhúsið efst í huga þessa dagana, því það er svo þarft úrræði og sérstaklega sniðið til að mæta kalli barna og ungmenna eftir meiri sálrænum stuðningi. Hér er glöggt dæmi um það hvernig sveitarfélag hlustar og bregst við. Kópavogur er einungis annað sveitarfélagið á Íslandi til að hljóta viðurkenningu sem barnvænt sveitarfélag og það er sérstaklega þakkarvert að frumkvöðlarnir skili af sér svo metnaðarfullu og góðu verki,“ sagði Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Nánar um  innleiðinguna í Kópavogi

Í kjölfar greiningarvinnu í sveitarfélaginu á stöðu og aðstæðum barna í bænum var ákveðið hvar ráðast þyrfti í úrbætur með tilliti til réttinda barna, þátttöku þeirra, öryggi og vernd og möguleikum til að vaxa og þroskast. Alls voru settar fram 18 aðgerðir með það að markmiði að tryggja enn betur réttindi barna með hliðsjón af Barnasáttmálanum. Meðal aðgerða:

  • Sett hefur verið upp verkferli sem felur í sér árlegt barnaþing meðal allra grunnskólanna í Kópavogi þar sem börn geta ályktað og komið með tillögur til bæjarstjórnar.
  • Þá fundar ungmennaráð reglulega með bæjarstjórn og hefur þannig tækifæri að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Sett verður upp ábendingaapp meðal annars á spjaldtölvur barna í 5. til 10. bekk sem auðveldar börnum að koma hugmyndum sínum áfram til bæjaryfirvalda.
  • Tilkynningahnappur hefur verið settur upp á spjaldtölvur barna í 5. til 10 bekk en í gegnum hann geta börnin sent inn tilkynningar til barnaverndar um ofbeldi, vanrækslu og áhættuhegðun er varða þau sjálf eða vini sem þau hafa áhyggjur af.
  • Þá hefur verið þróað mælaborð barna en það gefur yfirlit yfir um 86 mælingar er varða  börn í Kópavogi. Mælaborðið nýtist sem gott stjórntæki sem hefur áhrif á ákvarðanir um verkefni og meðferð fjárveitinga á grundvelli þarfa. Mælaborðið hlaut viðurkenningu UNICEF á fyrstu alþjóðlegu ráðstefnu UNICEF sem haldin var í Köln í Þýskalandi árið 2019. Félagsmálaráðuneytið er að þróa mælaborð barnvænna sveitarfélaga með hliðsjón af mælaborði barna í Kópavogi.
  • Til að koma til móts við vaxandi þarfir barna og ungmenna á andlegri uppbyggingu hefur Kópavogsbær sett á laggirnar Geðræktarhús en stefnt er að því að ýmis námskeið og færniþjálfun muni fara þar fram frá og með haustinu.
  • Umfangsmikið umhverfisverkefni hefur verið sett á laggirnar til að virkja áhuga barna á umhverfismálum, fræða þau og tryggja aðkomu þeirra að málaflokknum. Unnið er að vefsíðu um náttúru Kópavogs, helstu útivistarsvæði, staðhætti og lífríki. Unnið er í samstarfi við Náttúrufræðistofu Kópavogs og verða til ýmis spennandi verkefni fyrir nemendur.
  • Kópavogsbær hefur, í samstarfi við UNICEF, þróað greiningarmódel með að það markmiði að reikna mælitölu barnvænna fjármála og fylgjast þannig með hlutfalli útgjalda sem varið er beint til barna í sveitarfélaginu.
  • Aukin áhersla á alþjóðleg tengsl í samræmi við óskir ungmenna. Dæmi um slíkt er verkefnið Vatnsdropinn í menningarhúsum Kópavogs er þar eru börn í leiðtogahlutverki sem sýningarstjórar.

Á myndinni eru, fremri röð frá vinstri: Ásmundur Einar Daðason, Anna Elísabet Ólafsdóttir, Eiríkur Örn Beck, Ingunn Sif Isorena Þórðardóttir, Ármann Kr. Ólafsson, Birna Þórarinsdóttir. Efri röð frá vinstri: Karen E. Halldórsdóttir, Bergljót Kristinsdóttir, Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, Margrét Friðriksdóttir, Guðmundur G. Geirdal og Theodóra S. Þorsteinsdóttir.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar