Drauma-Jói bjó yfir þeim sérstaka eiginleika að hægt var að tala við hann á meðan hann svaf

Bjarni M. Bjarnason rithöfundur verður með útgáfuhóf fyrir nýju sögulegu skáldsöguna sína, Dúnstúlkan í þokunni, í Hönnunarsafni Íslands á morgun, fimmtudaginn 26. október klukkan 17.00. Bjarni er höfundur 20 bóka, og var valinn bæjarlistamaður Garðabæjar 2019. Verk hans hafa meðal annars verið tilnefnd til Íslensku bókmenntarverðlaunanna, hlotið Bókmenntarverðlaun Tómasar Guðmundsson og Bókmenntarverðlaun Halldórs Laxness.

Ég slapp ekki úr prísund þeirra fyrr en ég afhenti þeim Dúnstúlkuna í þokunni

Garðapósturinn heyrði í rithöfundinum og spurði hann m.a. hvernig sagan um Drauma-Jóa, sem fæddist um miðja 19. öld á Langanesi, hafi komið til hans? ,,Það má vel orða það svo að sagan hafi komið til mín. Hægt og rólega, og um langan veg. Fyrst sá ég Langanes sem heillandi heim úr fjarlægð. Þá var ég unglingur og hafði ráðið mig eitt sumar sem háseta á línubát frá Hornafirði. Við veiddum á miðunum undan Langanesi, og ég horfði til lands forvitinn. Vegna þokunnar sem skreið fram og aftur um tangann, þá sá ég hann aldrei alveg skýrt. Um borð voru átta tíma vaktir sem varð til þess að sólarhringurinn snérist af öxlinum og rúllaði af stað út í buskan. Oft var gott veður, sólin virtist ævinlega í fullu fjöri á sama stað yfir öldunum. Ég missti tilfinningu fyrir tímanum, dvaldi í vaggandi landslaginu í sumarbirtunni, án þess nokkru sinni að fá að fara í land. Var landið allt grænt, eða var það allt grátt, var það hart, eða mjúkt? Var þetta geislagul blómabreiða, eða sölnað gras? Var búið í þessum húsum? Og hreyfingin í fjörunni, var það steinar að rúlla út í öldurnar, eða selir að stinga sér til sunds? Landslagið átti hug minn allan, eins og draumkennd æskuást í rómantískri fjarlægð.
Nokkuð mörgum árum síðar bjó ég í stúdentahverfinu Nattland í Bergen. Ég var heima með strákinn minn Snorra sem þá var lítill. Við vörðum miklum tíma við að skapa stundlega menningarheima í sandkassanum, þar sem maurar þrömmuðu roggnir og sigurvissir um göturnar, en áttu til að grafast undir hrundum borgum. Þar í miðri heimssköpuninni tók okkur tali eldri íslensk kona sem komst að því að ég væri rithöfundur. Hún var af afskekktum bæ á Langanesi, hafði verið bóndakona alla tíð, en var núna hætt að vinna enda langt leidd af krabbameini. Hún var forvitin um að lesa bók eftir mig, og ég lét hana hafa Endurkomu Maríu, sem fjallar um Maríu mey sem unga konu í samtímanum. Bókin snart þessa trúuðu sál sem kaus að verja síðustu misserunum fjarri heimahögunum, hjá syni sínum sem var við nám í Bergen. Hún talaði mikið um Langanes, dýring á bænum og bónda sinn, enda ég mjög áhugasamur um þetta í senn fallega, og kaldranalega landssvæði sem ég dáleiddist af við veiðar sem unglingur. Hún virtist í senn sakna þess mikið, en um leið vera fegin að hafa komist þaðan.
Þegar ég flutti heim ári síðar var eitt mitt fyrsta verk að kaupa mér gamlan bíl, og keyra á Langanes, þar sem ég vafraði á milli eyðibýla, heillaður og eftirvæntingarfullur, líkt og ég vænti þess að rekast á einhvern með mikilvæg skilaboð til mín. Ég fann boðberann ekki í þokunni á Langanesi. En ég leita oft í þjóðlegan fróðleik, fer stundum á fornsölur, og ramba þá gjarnan á gamlar sjálfsævisögur bænda, eða söfn þeirra með sögum úr sveitinni. Í einni slíkri skoðunarferð rakst ég á bókina Drauma-Jói eftir Ágúst H. Bjarnason frá 1915, og las hana í einum rykk þegar heim kom. Hún segir frá Jóhannesi Jónssyni sem fæddist á Langanesi 24. apríl 1861, og Ágúst setur strax á fyrstu blaðsíðu í samhengi við dulskyggnar þjóðsagnapersónur. Í bókinni sem er próskennd skýrsla um dulsálra-fræðitilraun eru meðal annars 36 dæmisögur um hvernig fólk nýtti sér meinta andlega hæfileika Drauma-Jóa. Sögurnar eru sagðar frá fleiri sjónarhornum, þar sem bændur, húsfreyjur, vinnuhjú, prestar og hrútar koma við sögu. Þannig slæðist með lýsingum á dulsálarfræðirannsókninni myndir af lífinu í sveitinni þegar eyðibýlin voru heimili lifandi fólks. Skyndilega var ég kominn mitt á meðal íbúanna á Langanesi undir lok 19. aldar, heillandi alþýðufólks sem vildi alls ekki sleppa tökunu á mér eftir að það hafði læst í mig kámugum klónum. Ég slapp ekki úr prísund þeirra fyrr en ég afhenti þeim Dúnstúlkuna í þokunni þar sem þau koma öll við sögu,” segir Bjarni.

Hann var af galdramannaætt

Um hvað fjallar skáldsagan, Dúnstúlkan í þokunni? ,,Sagan segir frá manninum sem var viðfangið í fyrstu dularsál- arfæðirannsókninni á Íslandi. Hann hét Jóhannes Jónsson, og fæddist í Sauðaneskoti, sem var hjáleiga frá prestssetrinu, Sauðanesi. Hann var af galdramannaættinni svonefndu, en í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir mikið af forfeðrum hans á Skinnastöðum. Jói vann mest sem vinnumaður en var bóndi um tíma. Eftir að hann veiktist í tvígang sem unglingur bjó hann yfir þeim sérstaka eiginleika að hægt var að tala við hann á meðan hann svaf. Menn notfærðu sér þetta óspart til að spurja um skepnur og hluti sem það hafði glatað, stundum hlutum sem hafði verið stolið, og um vini og ættingja í öðrum landshlutum, jafnvel erlendis. Fólk hafði oftast gagn af svörunum, fann það sem það leitaði að, segir sagan. Hann ferðaðist aldrei lengra en til Húsavíkur, og Vopnafjarðar, það ég veit, en í tilrauninni sem fyrsti sálfræðidoktor landsins gerði á honum, Ágúst H. Bjarnason, þá ferðaðist hann í draumi til Reykjavíkur. Á ferðalaginu var Ágúst honum samferða á vissan hátt því að hann talaði við hann alla leiðina. Í draumnum lýsir mörgu kynlegu á leiðinni, tekur til dæmis lagið með manni sem hann rekst á. Borgin sem hann lýsir þegar hann kemst á leiðarenda líkist meira höfuðborginni eins og hún varð síðar. Grundvallar atriði úr ævi Drauma-Jóa eru rétt í bókinni, en mér var annars mikið í mun að lífga við samfélagið sem hann var hluti af, Langanes á 19. öld, sem átti hug minn allan. Drauma-Jói er þannig farvegurinn að heiminum Langanesi, sem mér virtist vera allur heimurinn á meðan ég vann að verkinu. Í lýsingunni á þessum heimi er mikið stuðst við heimildir, þó að mjög margt sé líka mín sýn.”

Margt sem virðist tilbúningur er þannig alveg samkvæmt heimildum

Hvernig verða svona skáldverk til og hvað tekur langan tíma að vinna slíkt verk eins og Dúnstúlkan í þokunni. Fylgir skrifunum mikil heimildarvinna? ,,Það eru meira en áratugur síðan ég las bókina um Drauma-Jóa, og síðan hef ég skrifað Ba-ritgerð í Guðfræði um hann sem finna má á skemman.is, og ritgerð í menningarfræði líka sem finna má á ritid.hi.is. Þessum ritgerðum fylgja tugir heimilda. Svo heppilega vill til að ég hef verið að skrifa doktorsritgerð um draumvísur í íslenskum þjóðsögum, sem er tengt efni. Þannig hafa heimildirnar með ritgerðinni sem ber heitið Sjóvota draumskáldið, og eru að nálgast þrjúhundruð, nýst fyrir skáldsöguna, og öfugt. Fyrir utan bókina eftir Ágúst H. sem ég nefndi,þá hefur Langnesingasaga, eftir Friðrik G. Olgeirsson verið mér gagnleg. Eins voru æviminningar Friðriks Guðmundsson á Ytra-Lóni, sem gerðist vesturfari á miðjum aldri, mikill innblástur. Hann var lengst af bóndi á Langanesi, og þekkti þar hvern krók og kima. Þegar hann var orðinn blindur öldungur þá keypti dóttir hans handa honum ritvél, sem hann lærði fljótt á, hún varð hans ljós og hann tók að skrifa greinar sem nutu vinsælda í blöðum vestur-íslendinga. Hann er einstaklega minnugur og afar ritfær, og hefur fyrir því að lýsa búskaparháttum og þjóðháttum, sem mörgum þótti of sjálfsagt mál til að hafa orð á. Friðrik hafði tilfinningu fyrir að gildi hefði að segja frá moldargólfinu og viðhaldi þess, og slíkum hlutum, sem mikilvægt er að kunna skil á þegar skrifuð er skáldsaga sem gerist á þessum tíma. Sjálfur vildi ég finna fyrir moldargólfinu sem við stóðum á öldum saman, og las því mikið af heimildum sem þess-um. Heimildavinnan er ekki alltaf bersýnileg í textanum, en það er allt í lagi að hvísla því að lesandanum, því ég lendi oft í að menn átta sig ekki á því, að oft þegar svo virðist sem að höfundur sé að fabúlera út í loftið, þá er hann í rauninni að vinna með heimildir, eins og þjóðsögur. Þannig er textinn oft heimildatengdur þó að hann virðist hreinn uppspuni, og byggður til dæmis á rannsóknarvinnu á íslenskri galdrahefð, eða sjómennsku á 19. öld. Margt sem virðist tilbúningur er þannig alveg samkvæmt heimildum. Til dæmis þegar Jói er sagður af galdramannaættinni og ætt hans rakin til galdramanna í þjóðsögum þá er það gert samkvæmt heimildum, og þegar lýst er samskiptum forfeðra hans við Galdra-Loft, þá er stuðst við báða höfunda sagnanna um Loft Þorsteinsson, þá Gísla Konráðsson og Skúla Gíslason. Ég hef ekki gert það ennþá, en ætli ég seti ekki saman greinarkorn um heimildavinnuna og setji hana inn á höfundasíðuna mína, bjarnibjarnason.blogspot.com.”

Þar dvelur maður í handanheimi sem er alltaf rétt undan seilingar

En hvar eyðir Bjarni mestum tíma við skriftir, eru kaffihúsin í einhverju uppáhaldi því það sást oft til þín Hjá Jóa Fel í Litlatúni á sínum tíma og núna á Te&Kaffi á Garðatorgi? ,,Það er eitthvað í mér að þurfa að fara út til að hefja vinnudaginn, og þess vegna fer ég mikið á kaffihús. Það var heimilislegt á Jóa Fel, þar sem ég sat oft með hálf-norska Snorra mínum sem var þá að klára menntaskóla hér á landi. Inn á milli telfdum við, og svo komu yngri strákarnir oft beint til okkar úr Flataskóla og fengu sér eitthvað að borða á leiðinni heim. Síðan Te og kaffi opnaði hef ég mikið verið þar að garfa í doktorsritgerðinni. En þrátt fyrir þessi frábæru kaffihús þá er grunntexti skáldsögu eitthvað sem ég get ekki gert á kaffihúsi. Til þess fer ég í afdrepið okkar Kötu í Læknishúsinu á Eyrarbakka. Það er skjól frá heiminum þar sem hægt er að villast inn í ástand eins og á miðunum undan Langanesi, þar sem maður missir tilfinningu fyrir tímanum. Þar dvelur maður í handanheimi sem er alltaf rétt undan seilingar og maður þreifar eftir með pennanum inn í dansandi þokun þar til, allt í einu, og án þess maður viti hvernig það gerðist, að það spriklar eitthvað í netunum sem maður dregur að landi. Þá er oft allt í flækju, enda handskrifa ég grundvallar prósa á auð blöð með blekpenna, og á stundum erfitt með að skilja það sem ég skrifa í þokunni og henda reiður á blaðabunkunum. Krumpaðir pappírarnir með henni skipta þúsundum, enda gæti ég auðveldlega betrekt allt húsið með handritinu og dagbókarnótunum með henni. Doktorsritgerðin er hins vegar öll gerð á skjá, og við þá vinnu er frábært að hafa tölvuna. Orðin í ritgerðinni standa öll í samskonar búningum upplýst á skjánum í beinni röð eins og bardagafúsir hermenn, breyta um stellingu við minnstu skipun frá mér.”

Slík vinna er eitthvað sem leggur sálarlífið algerlega undir sig á köflum

Eins og áður segir, þetta er 21 bókin þín. Ertu kominn með hugmynd að næsta skáldverki, eða er nauðsynlegt að gefa sér tíma til að anda áður en hafist er handa við næsta verk? ,,Mér virðist að það komi ljóðabók um það leyti sem ritgerðin verður tilbúin, og svo verður ritgerðin væntanlega einhvern tíma að fræðibók um draumljóð í heimsbókmenntunum, íslendingasögunum og íslenskum þjóðsögum. Mér finnst skáld-sagnaskrif vera frí frá fræðitexta og öfugt, þannig að þetta styður hvort annað. Núna er doktorsritgerðin það sem ég huga um öllum stundum. Það er mjög gott þegar bók eftir mig er á markaði. Þá er ég lítið að hugsa um hana, og í grúskinu gleymi ég henni alveg inn á mill. Eins og er þá hef ég ekki áhuga á að skrifa prósa, en ólíkt akademískum texta sem er alltaf skemmtun, þá er grundvallar vinna skáldsögu krefjandi. Slík vinna er eitthvað sem leggur sálarlífið algerlega undir sig á köflum. Maður þarf ekki aðeins að þekkja tilfinningar sögupersóna í atburðarrás sögunnar, heldur líka langt út fyrir hana. Það er gott að vera laus við slíkan tilfinningatoll um sinn, en löngunin kemur aftur þegar nýjar sögupersónur taka að ásækja mann. Þá er ég með tvær söguhugmyndir sem ég hef nóterað niður punkta um í dagbækurnar. En prósinn er líka ólíkur fræðitexta hvað það varðar, að á meðan ég get rætt ritgerðina og efni hennar við hvern sem hefur áhuga á, þá hvílir bannhelgi hjá mér á því að ræða hugmynd að skáldverki. Ég get ekki einu sinni sagt konunni minni hvað ég er að skrifa hverju sinni í þeim efnum. Ef ég ræði hugmyndina þá kvekkjast persónurnar sem eru að banka uppá dyr veruleikans, byrja að eyða sönnungargögnum um tilvist sína í huga mér, og forða sér. Hugmyndin liggur eftir eins og lík í máli sem aldrei verður upplýst. Þá get ég alveg gleymt henni. Þess vegna hlakka ég oft mikið til að ná að gera fyrsta handrit að skáldverki, því þá get ég tekið að sýna það, og ræða það við yfirlesara, en alls ekki fyrr.”

Útgáfuhóf í Hönnunarsafni Íslands 26. október kl. 17

Og þú ætlar að vera með útgáfuhóf í Hönnunarsafni Íslands á morgun, fimmtudaginn 26. október kl. 17? ,,Já, þangað er stutt fyrir mig að fara frá kaffihúsinu þar sem ég hef átt margar stundir með sögunni. Þar ætla ég, eftir að hafa skálað, að rétta lesendum hönd dúnstúlkunnar í þokunni, svo þeir geti leitt hana út úr henni, tekið hana í tímaferðalag, og opnað henni heim 21. aldarinnar,” segir Bjarni að lokum.

Eggert Jóhannesson tók svarthvítu myndina af Bjarna og Kristófer Áki Bjarnason tók litmyndina.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar