Þriðjudaginn 23. nóvember verður hið árlega bókaspjall Bókasafns Garðabæjar haldið. En viðburðurinn hefur skapað sér fastan sess í menningarlífi Garðabæjar og þykir mörgum hann marka upphaf aðventunnar. Í ár koma fjórir áhugaverðir en jafnframt ólíkir rithöfundar á safnið og segja frá og lesa upp úr bókum sínum sem hafa komið út núna fyrir jólin. Það er Jónína Leósdóttir með skáldsöguna Launsátur, Friðgeir Einarsson með skáldsöguna Stórfiskur, Hallgrímur Helgason með ljóðabókina Koma jól? og Sextíu kíló af kjaftshöggum og Fríða Ísberg með skáldsöguna Merking. Allir höfundar hafa skapað sér góðan orðstír fyrir fyrri verk sín. Auður Aðalsteinsdóttir, bókmenntafræðingur, mun síðan stýra líflegum umræðum við höfunda um skáldskapinn og skáldverkin. Bókasafnið mun umbreytast fyrir kvöldið og verður boðið upp á huggulega stemmingu við kertaljós.
Bókaspjallið hefst klukkan 20:00 á bókasafninu á Garðatorgi 7.