Nú þegar árinu 2021 er lokið er ekki úr vegi að horfa til baka. Við í Garðabæjarlistanum höfum lagt okkar lóð á vogarskálarnar í bæjarmálunum. Okkar fólk í nefndum á vegum bæjarins hefur staðið vaktina og unnið að góðum málum fyrir íbúa Garðabæjar. Við höfum unnið að stefnumótun, sett mál á dagskrá og talað fyrir málefnum bæjarbúa innan stjórnsýslu Garðabæjar. Nefndarvinna á þessu ári hefur líkt og hjá öðrum verið ýmist unnin á fjar- eða staðfundum. Starfsfólk Garðabæjar hefur verið mjög lausnamiðað í sinni vinnu á þessum tímum. Vil ég sérstaklega skila þökkum frá okkur í Garðabæjarlistanum til þeirra. Það er ekki sjálfgefið að hægt sé að halda uppi starfi í stofnunum bæjarins við slíkar aðstæður. Þar sem ég á börn bæði í leik- og grunnskólum bæjarins er ég virkilega ánægður með hvernig því starfi hefur verið haldið gangandi og faglega unnið að málum í gegnum stöðugar breytingar á sóttvarnarreglum.
Þó svo að margir minnist ársins 2021 sem hörmunga árs trúi ég því að það séu bjartir tímar framundan. Árið hefur vissulega verið krefjandi fyrir marga en einnig lærdómsríkt. Á síðasta ári ákvað ég að söðla um og fara í leyfi frá kennslu í FG. Í haust hóf ég nám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands. Það hefur verið virkilega áhugavert að setjast á skólabekk og þá sérstaklega við þessar aðstæður og hef ég nú þegar lært margt sem nýtist í starfi og leik. Það er ekki öfundsverð staða sem unga fólkið okkar hefur verið sett í í gegnum faraldurinn. Nú hef ég bæði reynslu af þeirri stöðu sem kennari framhaldsskóla og nemandi í háskóla og hef töluverðar áhyggjur af þeim áhrifum sem þessi faraldur hefur haft. Við þurfum að vinna vel að þessum málum og hlúa að unga fólkinu.
Mig langar til að minnast góðs félaga sem lést í lok árs. Jón Fr. Sigvaldason flutti í Garðabæ 1963 en þau hjónin byggðu sér hús í Faxatúni 32, þar sem Jón bjó til æviloka. Jón tók þátt í ýmsu félagsstarfi í Garðabæ, hann vann að mörgum góðum málum fyrir Garðbæinga. Tók þátt í uppbyggingu safnaðarheimilisins o.fl. Jón var með sterka réttlætiskennd og barðist fyrir mörgum málum, má þar t.d. nefna afslátt eldri borgara á fasteignagjöldum. Jón var mikill sagnabrunnur og virkilega gaman að hlusta á sögurnar hans. Hafðu þökk fyrir góð kynni og samstarf.
Við í Garðabæjarlistanum erum komin á fullt að skipuleggja starfið framundan og hlökkum til ársins. Ég hvet þá sem eru áhugasamir um bæjarmálin að setja sig í samband við okkur. Framundan er kosningavor og tilvalið fyrir þá sem brenna fyrir málefni að setja þau á dagskrá með okkur.
Gleðilegt nýtt ár!
Ingvar Arnarson bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans