Forgangsröðun í velferðarþjónustu Kópavogs

Nauðsynlegt er að forgangsraða í þjónustu velferðarsviðs Kópavogsbæjar vegna áhrifa Covid-19. Fjöldi starfsfólks hefur verið frá vinnu vegna veikinda og sóttkvíar undanfarnar vikur en lögð áhersla á að halda órofa starfsemi búsetukjarna og þeirri heimaþjónustu sem brýnast er að sinna.
 
Neyðarteymi velferðarsviðs Kópavogsbæjar samþykkti á fundi sínum forgangsröðun velferðarþjónustu bæjarins. Notendur félagslegrar heimaþjónustu og stuðningsþjónustu mega búast við því að ekki verði boðið upp á fulla þjónustu næstu daga, en kapp lagt á að sinna þeim sem mest þurfa á þjónustu að halda.
 
Kópavogsbær rekur tíu búsetukjarna fyrir fatlað fólk. Þá rekur hann þrjá vinnu- og virknistaði auk þess að veita 800 heimilum aldraðra þjónustu. Alls vinna um 650 manns á velferðarsviði Kópavogs þegar allt er talið, stjórnsýsla, starfsfólks starfsstöðva og fólk í tímavinnu sem meðal annars sinnir liðveislu og persónulegri ráðgjöf.
Til þessa hefur gengið að manna starfsstöðvar en það gæti komið til þess að leita þurfi liðsinnis tímavinnufólks og annars starfsfólks til að halda órofa starfsemi.
 
„Það er mikið álag á starfseminni hjá okkur, vegna veikinda og sóttkvíar starfsfólks en við vonum að fólk sýni því skilning ef dregur tímabundið úr þjónustu,“ segir Sigrún Þórarinsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs.

Forsíðumynd: Búsetukjarni að Kópavogsbraut

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar