Bálfarafélag Íslands endurvakið

Bálfarafélag Íslands sem starfrækt var á árunum 1934-1964 og kom fyrstu og einu bálstofu Íslands á laggirnar, bálstofunni í Fossvogi, hefur nú verið endurvakið.

73 ár eru liðin frá fyrstu bálförinni á Íslandi. Á þeim tíma hafa orðið miklar breytingar á samfélagi, náttúru og heiminum öllum, en ekki á bálstofunni sjálfri. Hún er enn rekin á sama formi, með sömu tækjum og frá því hún var fyrst gangsett.

Það var árið 1948 sem Bálstofan í Fossvogi, var tekin í gagnið og Íslendingum bauðst annar valkostur en hin hefðbundna jarðsetning. Hægt og rólega hefur bálförum farið fjölgandi en hlutfall bálfara er nú um 50% og spáð er enn frekari aukningu á næstu árum og áratugum.

Ástæðuna má kannski rekja til þess að fólk er farið að velta umhverfismálum fyrir sér í meira mæli og finnst það betri kostur að velja bálför en jarðsetningu, auk þess sem kostnaður við jarðarfarir er hár. Það á ekki að vera svona dýrt að deyja.

Þrátt fyrir mikla fjölgun bálfara og aukinnar umhverfismeðvitundar almennings þá er bálstofan í Fossvogi enn í gangi frá því að hún var fyrst gangsett. Bálstofan og tækjabúnaður hennar eru barn síns tíma og því miður er enginn mengunarvarnarbúnaður til staðar á ofninum sjálfum. Bálstofan er hreint út sagt orðin úreld.

Bálfarafélagið náði markmiði sínu með opnun bálstofu til almenningsnota fyrir tilstilli nokkurra frumkvöðla. Safnað var fé til byggingar bálstofunnar meðal almennings, fyrirtækja og með styrkjum frá ríki og borg. Eftir samningaviðræður var ákveðið að bálstofan yrði staðsett í sama húsnæði og Fossvogskapella, en aðrar staðsetningar höfðu líka komið til greina af hálfu Reykjavíkurborgar, t.d. á Klambratúni.

Frumkvöðlarnir sem komu bálstofunni á laggirnar voru: Dr. Gunnlaugur Claessen, læknir og formaður félagsins, Benedikt Gröndal, verkfræðingur, Gunnar Einarsson, prentsmiðjustjóri Ísafoldarprenstmiðju, Ágúst Jósefsson, prentari og heilbrigðisfulltrúi og Björn Ólafsson, stórkaupmaður og síðar ráðherra. Sveinn Björnsson, fyrsti forseti íslenska lýðveldisins, kom lögum um líkbrennslu í gegn á Alþingi árið 19151 en Bálarafélagið var stofnað nokkru síðar eftir miklar ritdeilur stuðningsmanna og andstæðinga líkbrennslna í blöðum landsins. Bálfarafélagið var lagt niður árið 1964 sökum þess að tilgangi þess hafði verið náð og ekki var grundvöllur fyrir rekstri þess.

Ástæður þess að Bálfarafélag Íslands er nú endurvakið eru nokkrar: Íslendingum sárvantar nýja bálstofu sem uppfyllir ströngustu umhverfiskröfur og er með öflugan mengunarvarnabúnað, bálstofu sem getur þjónað þeirri fjölgun á bálförum sem fyrirsjáanleg er á næstu árum og bálstofu sem er algjörlega óháð öllum trúar- og lífsskoðunarfélögum.

Markmið Bálfarafélags Íslands er að fræða almenning um núverandi fyrirkomulag bálfara á Íslandi og styðja stofnun óháðrar, umhverfisvænnar bálstofu þar sem fólki gefst kostur á að gróðursetja ösku sína ásamt tré

Bálfarafélaginu ætlað að styðja Tré lífsins

Markmið Bálfarafélags Íslands er að fræða almenning um núverandi fyrirkomulag bálfara á Íslandi og styðja stofnun óháðrar, umhverfisvænnar bálstofu þar sem fólki gefst kostur á að gróðursetja ösku sína ásamt tré. Bálfarafélag Íslands styður þess vegna við áform sjálfseignastofnunarinnar Trés lífsins um opnun nýrrar bálstofu, minningagarðs og óháðs athafnarýmis í Rjúpnadal í Garðabæ. Í minningagarðinn mun fólk geta gróðursett ösku ástvina sinna ásamt tré sem vex upp til minningar um viðkomandi. Garðabær hefur samþykkt umsókn Trés lífsins um lóð og byggingu 1.500 fermetra húsnæðis auk eins hektara minningagarðs. Nú er beðið eftir tilskildum leyfum frá Sýslumanni til að geta lokið fjármögnun verkefnisins og hafist handa við framkvæmdir.

Með stofnun Trés lífsins og Bálfarafélags Íslands er fetað í fótspor þeirra frumkvöðla sem tryggðu opnun bálstofunnar í Fossvogi á fyrri hluta síðustu aldar. Markmiðið er að sinna þörfum nútíma samfélags þar sem fjölbreytileiki og umhverfisvernd eru í fyrirrúmi.

Það er stórt og spennandi verkefni fyrir höndum sem við bjóðum almenningi að fylgjast með frá upphafi og taka þátt með okkur.

Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir
Höfundur er formaður Bálfarafélags Íslands og stofnandi Trés lífsins
www.balfarafelag.is
www.trelifsins.is

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar