Bæjarlistamaður Garðabæjar floginn út í heim

Bjarni Thor Kristinsson, bassasöngvari og Bæjarlistamaður Garðabæjar, tekur þátt í sýningum á óperunni Brúðkaupi Fígarós eftir Mozart í Kölnaróperunni

Að loknu árshléi frá óperusviðinu er bæjarlistamaður Garðabæjar, Bjarni Thor Kristinsson bassasöngvari, loksins floginn út í heim til að taka þátt í sýningum á óperunni Brúðkaupi Fígarós eftir Mozart í Kölnaróperunni. Frumsýnt var eftir ítrekuð covid-próf allra þátttakenda en þriggja metra fjarlægð er reglan þegar sungið er enda ekki mögulegt að syngja með grímu. Framhaldið verður svo að koma í ljós en fyrirhugaðar eru sýningar í apríl og maí.

Þakklátur fyrir þennan heiður

En hvaða áhrif hefur Covid haft á líf og störf bæjarlistamanns Garðabæjar? „Þetta er vægast sagt búið að vera óvenjulegt ár. Ég kom heim í byrjun mars 2020 beint frá Ítalíu, rétt áður en við áttum að frumsýna og byrjaði auðvitað á því að vera í sóttkví. Það var auðvitað ekkert að gera í söngnum svo ég tók mig til og byrjaði að skrifa Dagbók óperusöngvara sem endaði síðan sem hljóðbók á Storytel. Svo kom sumarið og þegar sálarþrekið yfir verkefnaleysinu var alveg að fara með mig þá fékk ég símtal frá Garðabæ þar sem mér var tjáð að ég hefði verið valinn bæjarlistamaður árið 2020. Meiri hvatningu og viðurkenningu var ekki hægt að hugsa sér og er ég bæjaryfirvöldum gríðarlega þakklátur fyrir þennan heiður,“ segir Bjarni Thor frá Köln.

Veiruskrattinn

Bjarni Thor á sviði í Kölnaróperunn. Mynd Leclaire, ölnaróperan

„Í haust leit úr fyrir að við værum að losna við veiruskrattann og hófst þá skipulagning við ýmis verkefni. Við fórum t.a.m. af stað með uppsetningu á óperunni Fidelio eftir Beethoven í Hörpu en þar bæði syng ég eitt hlutverk og fæ að leikstýra. Síðan kom Covidið aftur og þá fækkaði æfingum. Við erum reyndar búin að æfa næstum alla óperuna núna á mjög löngum tíma; einhvers konar sousvide matreiðsla, og bíðum bara eftir tækifæri til að henda henni upp á svið, vonandi í sumar. En fyrir utan Fidelio þá hef ég sungið á nokkrum tónleikum, í nokkrum streymum m.a. í röðinni Menning í Garðabæ sem enn má horfa á á Vimeorás Garðabæjar. Svo fór auðvitað hellings tími í að undirbúa hlutverkin sem ég er núna að æfa hér í Köln,“ bætir hann við.

Á flakki um allan heim

Hvað er svo framundan? „Hér í Köln verð ég fram í lok maí. Í júní stefnum við síðan á sýningar af Fidelíó í Hörpu; í júlí er ég í Tokyo og í ágúst hefjast æfingar á óperunni Mærþöll eftir Þórunni Guðmundsdóttur en þar fæ ég bæði að syngja og leikstýra. Sýningar verða næsta vetur. Síðan er ég aftur í Tokyo og svo aftur í Köln. Þetta er alla vega planið núna en eins og við vitum getur þetta allt breyst,“ segir Bjarni Thor og drífur sig í göngutúr í risjóttu vorveðri í Köln. Það verður sannarlega gaman að fylgjast með Bjarna Thor á næstu mánuðum.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar