ÁTÖK á Sumarsýningu Grósku – opnar sumardaginn fyrsta

Fréttir berast af átökum og átök birtast líka á sumarsýningu Grósku sem verður opnuð í Gróskusalnum á 2. hæð við Garðatorg 1 þann 20. apríl kl. 18-20, kvöldið fyrir sumardaginn fyrsta. Rétt eins og koma vorsins er sumarsýning Grósku árviss viðburður, jafn ómissandi og birtan, ylurinn og gleðin. Í þetta sinn er sýningin þó helguð átökum enda eru þau mörgum ofarlega í huga núna. Sýnendur eru 21 og allir í Grósku, félagi myndlistarmanna í Garðabæ. Sumir leggja út af stríði eða friði en átök geta þó verið alls konar, neikvæð og jákvæð, hið innra eða ytra, í mannlífinu eða náttúrunni; allt frá íþróttaleikjum, ástarleikjum og kynjaátökum til umbrota í náttúrunni, sálarstríðs og styrjalda. Listamenn hafa mikið hugmyndaflug og því má búast við fjölbreyttum verkum á þessari átakasýningu Grósku.

Við opnunina syngur Guðrún Matthildur Sigurbergsdóttir við gítarleik Jóns Vals Guðmundssonar og boðið verður upp á léttar veitingar.

Fólk er hvatt til að gera sér glaðan dag, göfga andann og bjóða sumarið velkomið með því að fjölmenna á sumarsýningu Grósku og hitta listamennina sem verða á staðnum. Allir eru hjartanlega velkomnir, Garðbæingar jafnt sem aðrir listunnendur, og þeir sem ekki komast á opnunina þurfa ekki að örvænta því sýningin er opin áfram dagana 21.-24. apríl og 30. apríl til 1. maí kl. 13.30-17.30.

Gróska er stórt og öflugt myndlistarfélag sem stendur fyrir allnokkrum myndlistarsýningum á ári, auk námskeiða og annarra viðburða. Í félaginu er fjölskrúðugur hópur fagmenntaðra og sjálfmenntaðra myndlistarmanna en ein af hugsjónum Grósku er að allir fái að blómstra og njóta sín við listsköpun. Í rúmlega tólf ár hefur starfsemi Grósku skapað mikilvægan vettvang fyrir skapandi samneyti myndlistarmanna og eflt myndlistina og menningarlíf Garðabæjar. Myndlistarmenn sem búa eða vinna í Garðabæ eru hvattir til að sækja um inngöngu í Grósku gegnum fésbókarsíðu Grósku https://www.facebook.com/groska210/ eða með því að senda póst á [email protected].

Forsíðumynd: Tilfinnning eftir Hrafnhildi Gísladóttur

Stúlka eftir Vigdísi Bjarnadóttur
Huginn og Muninn eftir Gunnar Júlíusson
Pappamassafígúra eftir Louise le Roux
Blómstrið eina eftir Aldísi Gló Gunnarsdóttur

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar