Allir hlaupi með forsetanum á Bessastöðum

Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður Ungmennafélags Íslands (UMFÍ)

Forsetahlaup UMFÍ og UMSK er haldið í fyrsta sinn á laugardaginn, 3. september. Formaður UMFÍ hvetur sem flesta til að taka þátt. „Við hjá UMFÍ hvetjum alltaf foreldra og börn til að hreyfa sig saman og finna fleiri möguleika til að lifa heilbrigðu lífi. En auðvitað hvetjum við líka alla til að hlaupa á eigin forsendum,“ segir Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður Ungmennafélags Íslands (UMFÍ). Jóhann er þarna á heimavelli ef svo má segja því hann er fyrrverandi formaður Stjörnunnar og búsettur í Garðabæ.

Forsetahlaup UMFÍ fer fram á Álftanesi laugardaginn 3. september og umsjón með því hafa Ungmennasamband Kjalarnesþings (UMSK), hlaupahópur Stjörnunnar og skokkhópur Álftaness. Viðburðurinn er hluti af Íþróttaveislu UMFÍ, sem farið hefur fram í sumar og í tilefni af 100 ára afmæli UMSK. UMFÍ hefur staðið í ströngu í sumar, haldið Landsmót fyrir 50 ára og eldri í Borgarnesi í júní, Unglingalandsmót UMFÍ á Selfossi um verslunarmannahelgina og síðan Drulluhlaup Krónunnar og Hundahlaup UMFÍ og Non-stop dogwear nú í ágúst við ótrúlega góðar undirtektir.

Hlaup fyrir allar fjölskyldur

Jóhann mælti með því á dögunum að stjórnvöld og fleiri ráðist í sameiginlegt forvarnarátak í lýðheilsumálum með svipuðum hætti og gert var í vímuvarnarmálum. Liður í því er að stuðla að fleiri kostum í hreyfingu og hvetja til samveru fjölskyldunnar.

Forsetahlaupið og aðrir viðburðir UMFÍ eru skref í þá átt. Allir viðburðirnir eru opnir almenningi og getur hver sem vill tekið þátt í þeim. Það sama á við um Forsetahlaupið, sem verður síðasti viðburðurinn í Íþróttaveislu UMFÍ og UMSK. Þetta er stuttur viðburður sem stendur frá klukkan 10:00 á laugardagsmorgun og væntanlega fram yfir hádegið. Boðið er upp á tvær vegalengdir, 5 km og 1 mílu, sem er um 1,6 kílómetrar á sléttu undirlagi. Hlaupið verður frá Álftaneslaug að Bessastöðum, snúið við og enda allir hlaupararnir aftur við laugina.

Boðið er upp á tvær vegalengdir, 5 km og 1 mílu, sem er um 1,6 kílómetrar á sléttu undirlagi.

Ókeypis fyrir 16 ára og yngri

„Við hvetjum alla sem vilja til að taka skrefið og taka þátt í Forsetahlaupinu. Þetta verður mjög skemmtileg hreyfing. Við stillum verðinu í hóf og setjum líka upp risastóran leikjagarð á íþróttavellinum við Álftaneslaug sem allir geta skemmt sér í hvort sem þau hlaupa eða ekki. Það er líka í samræmi við stefnu okkar hjá UMFÍ að allir geti tekið þátt,“ segir Jóhann Steinar.

Þátttökugjald í Forsetahlaupinu er 1.000 krónur í Míluhlaupið og 2.000 krónur í 5 km hlaupið. Frítt er fyrir börn og ungmenni 16 ára og yngri. Allir frá þátttökuverðlaun að hlaupi loknu.

Skráning og ítarlegri upplýsingar er að finna á hlaup.is undir liðnum Forsetahlaup.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar