Aðventustundir á Bókasafni Garðabæjar

Jólastemmingin verður allsráðandi í byrjun aðventunnar á Bókasafni Garðabæjar. Ekkert segir jólin jafn vel og góð bók og konfektmoli með. En það er hægt að nýta bókasafnið bæði til að næla sér í gott lesefni fyrir aðdraganda jóla en einnig til að eiga góðar stundir saman með fjölskyldu eða vinum.

Laugardaginn 3. desember verður hin sérlega skemmtilega sögu – og söngstund með Þórönnu Gunný í boði með einstöku jólaívafi. Jólalög og jólaævintýri verða þar allsráðandi og búist er við miklu stuði og mikilli gleði. Sama dag verða útibúin í Urriðaholti og Álftanesi einnig með jólatengda viðburði en tveir fræknir jólasveinar heimsækja Urriðaholtssafn og föndur verður á borðum en á Álftanessafni verður boðið upp á huggulega jólaperlustund.

Miðvikudaginn 7. desember mun síðan bókasafnið á Garðatorgi bjóða upp prjónastund um morguninn þar sem lesin verður jólasaga upphátt fyrir þá sem vilja hittast og taka í prjónana eða heklunálina.

Þann 10. desember mun síðan hin frábæra Birgitta Haukdal mæta og lesa upp úr bókum sínum um þau Láru og Ljónsa. Í desember býður bókasafnið upp á vistvæna innpökkunarstöð þar sem hægt er að koma og pakka inn jólagjöfum í frið og næði en við innpökkunina er hægt að nýta gamlar bækur og tímarit sem þrá ekkert heitar en nýtt líf sem jólapakkning.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar