Eigum að hraða samgönguframkvæmdum í Kraganum

Við sem búum í Kraganum, kjördæminu sem umlykur Reykjavík, þekkjum vel umferðarteppurnar sem eru nánast viðvarandi allan daginn inn og út úr borginni. Þeir íbúar Kragans sem sækja vinnu og skóla miðsvæðis í borginni, en þar eru fjölmennir vinnustaðir; Landspítalinn, tveir háskólar, mörg hótel, stjórnsýslan svo fáein dæmi séu nefnd, mega þola það að sitja í biðröðum klukkustund á dag hið minnsta á leið í og úr vinnu.

Þetta geta menn þakkað borgaryfirvöldum sem leggja sig fram um að torvelda og tefja fyrir umferð í von um að greiða stórkarlalegum hugmyndum sínum um Borgarlínu hraðari framgang.
Fyrir tæpum tveimur árum skrifuðu ríkið, Reykjavíkurborg og sveitarfélögin í Kraganum undir Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, en skv. honum á að verja 120 milljörðum króna á næstu 15 árum til að bæta samgöngur á svæðinu. Helmingur fjárhæðarinnar á að fást með veggjöldum, ríkið leggur til 45 milljarða og sveitarfélögin 15 milljarða. Átakið sem er það stærsta sem farið hefur verið í á höfuðborgarsvæðinu er fagnaðarefni og löngu tímabært.

Blekið var vart þornað á undirskriftunum þegar vinstri meirihlutinn í Reykjavík undir forystu Dags B. Eggertssonar hófst handa við að svíkja samkomulagið. Hann hefur slegið mislægum gatnamótum á Bústaðavegi og Kringlumýrarbraut á frest til 2025, en þær framkvæmdir áttu að hefjast á þessu ári. Þessi gatnamót eru einhver þau seinförnustu þegar ekið er til og frá borginni til Kópavogs, Garðabæjar og Hafnarfjarðar. Þá hefur borgin ekki drattast til að koma á nothæfri stýringu á ljósastýrðum gatnamótum á stofnbrautum, en með samstillingu þeirra og búnaði sem skynja umferðarþunga má bæta umferðarflæði stórlega og er ávinningurinn metinn til 15% styttingar ferðatíma á einkabíl, 20% fyrir strætó og allt að 50% minni biðtíma á ljósum. Þessi aðgerð kostar lítið, en mun spara mikinn tíma og peninga. Þótt Sundabraut sé ekki hluti sáttmálans hafa borgaryfirvöld lagt sig fram um að leggja steina í götu hennar undanfarin ár og tal þeirra um annað er marklaust með öllu. Þá eru ótaldar þrengingar gatna í borginni, hraðahindranir að þarflausu og svo mætti áfram telja. Seltirningar kannast t.a.m. vel við það.
Samgöngusáttmálinn kveður á um að þeim ferðamáta sem fólk kýs að nota verði gert jafn hátt undir höfði. Í honum segir að markmið samkomulagsins sé m.a. þetta: „Greiðar, hagkvæmar og skilvirkar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu með jafnri uppbyggingu innviða allra samgöngumáta.“

Þetta virðist borgin túlka sem svo að þeir sem kjósa að ferðast um á eigin bílum geti étið það sem úti frýs, en áherslu skuli leggja á hjólreiðar, en þó höfuðáhersluna á svokallaða Borgarlínu sem sætir gagnrýni fyrir að vera allt of dýr framkvæmd miðað við þann ávinning sem búist er við að hún skili. Mikilvægt er að stórefla almenningssamgöngur í takti við uppbyggingu annarra samgöngumáta. Verkið er nú á hönnunarstigi og fram hafa komið hugmyndir sem geta einfaldað og hraðað framkvæmdum. Þessar hugmyndir verður að skoða vel og hafa að leiðarljósi mikilvægi þess að skattgreiðendur fái sem mest fyrir það mikla fjármagn sem liggur til grundvallar í samkomulaginu.

Á næsta kjörtímabili munu þingmenn Sjálfstæðisflokksins i Kraganum að beita sér fyrir því að framkvæmdum á Reykjanesbraut við Kaplakrika í Hafnarfirði og á Hafnarfjarðarvegi í Garðabæ verði flýtt, en skv. sáttmálanum á þeim ekki að ljúka fyrr en 2028 og 2030. Einnig verður að endurskoða tímalínu fyrir Sundabraut. Eftir margra ára, má segja áratuga, bið eftir þessari mikilvægu framkvæmd er lítill metnaður í því að við megum fyrst vænta þess að geta ekið Sundabraut eftir 10-12 ár. Vegna tafaleikja borgarinnar gagnvart framkvæmdaáætlun samkomulagsins með tilheyrandi seinkun mikilvægra framkvæmda er eðlilegt og rétt að endurskoða áætlanir og forgangsraða framkvæmdum í þágu þeirra sveitarfélaga sem standa við sín loforð.

Jón Gunnarsson
Höfundur er alþingismaður og situr í 2.sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar