Dansfélagið Hvönn býður upp á danskennslu fyrir alla aldurshópa og hefur um árabil boðið upp á danskennslu fyrir fatlaða 20 ára og eldri í samstarfi við Fjölmennt.
Nú í haust mun Hvönn auka enn frekar þjónustu sína við fatlaða og bjóða upp á dansnámskeið fyrir alla aldurshópa, svokallaða stjörnuflokka fyrir bæði börn og fullorðna hvort sem þau vilja stunda dans sér til skemmtunar og heilsubótar eða sem keppnisíþrótt. Auk þess verður hinu góða samstarfi við Fjölmennt haldið áfram.
Fríir prufutímar á laugardaginn
Námskeiðin hefjast með opnu húsi og fríum prufutímum næstkomandi laugardag 11. september.
Síðastliðinn vetur hefur félagið átt í frábæru samstarfi við Dansíþróttasamband Íslands (DSÍ) og Íþróttasamband fatlaðra. Nú er keppt í stjörnuflokkum á danskeppnum DSÍ og átti Hvönn fyrsta keppandann í þeim flokkum, hana Agötu Ernu Jack. Auk þess keppti Agata fyrir Íslands hönd á fyrstu Heimsleikum Special Olympics í dansi sem haldnir voru í Graz í Austurríki í ágúst síðastliðnum og gerði hún sér lítið fyrir og kom heim með heimsmeistaratitil í farteskinu.
Af hverju dans?
Dans styrkir líkamlegt og andlegt ástand, bætir stjálfstraust og félagsfærni og eykur virkni og vellíðan.
Dans er fyrir ALLA!
Kennararnir Hvannar í stjörnuflokkum eru þær Hildur Ýr Arnarsdóttir og Lilja Rut Þórarinsdóttir auk leiðbeinenda þeim til aðstoðar. Hildur er lærður danskennari og hefur sinnt danskennslu fyrir fatlaða í yfir 20 ár og býr því yfir mikilli reynslu. Lilja hefur kennt hjá Dansfélaginu í 15 ár og á þeim tíma einnig komið að kennslu fyrir fatlaða með góðum árangri. Báðar hafa þær viðurkennd próf frá WDSF og Special Olympics í danskennslu fyrir fatlaða.
Dansfélagið Hvönn býður ALLA velkomna í dans og hlakkar til að dansa með ykkur í vetur!
Nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu dansfélagsins Hvannar: www.hvonn.is
Forsíðumynd: Hildur Ýr Arnarsdóttir danskennari og skólastjóri hjá Dansfélaginu Hvönn, Lilja Rut Þórarinsdóttir aðstoðarskólastjóri semdansar við Agötu í keppnum, Agata Erna Jack dansari að mæta í móttöku og kvöldverð hjá borgarstjóranum í Graz í Austurríki