Áherslur í aðdraganda prófkjörs

Á síðustu árum hef ég skrifað tugi greina í blöð og tímarit um lög og lögfræði, en auk þess flutt fjölda erinda og fræðilegra fyrirlestra bæði hérlendis og erlendis um hið óhjákvæmilega samhengi laga og samfélags. Áhugi minn á þessum undirstöðum hefur vaxið í jöfnu hlutfalli við áhyggjur mínar af þróun mála. Okkur ber standa vörð um burðarstoðir lýðveldisins og þann lýðræðislega grunn markaður er með stjórnarskránni. Brýnt er að Íslendingar axli ábyrgð á eigin framtíð með öllu sem í því felst. Því hef ég hvatt til þess að sem flestir nýti tjáningarfrelsið með þátttöku í málefnalegri umræðu. Slík umræða er grundvöllur þess að valdhafar sæti lýðræðislegu aðhaldi.

Nauðsynlegt er að Íslendingar vakni til vitundar um þá hægfara umbyltingu sem er að verða á íslensku stjórnarfari. Stöðugt umfangsmeira framsal íslensks ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana á sér ekki stjórnskipulega stoð. Athugasemdalaust og umræðulaust þokumst við frá lýðræðislegum stjórnarháttum í átt til skrifræðis og fámennisstjórnar, þar sem valdhafar svara ekki til ábyrgðar gagnvart borgurunum. Lýðveldið hefur af þessum sökum veikst, en skrifstofuveldið styrkst. Samhliða þrengir stjórnlyndi í síauknum mæli að borgaralegum réttindum, þ.m.t. tjáningarfrelsinu.

Með vísan til alls framanritaðs óska ég eftir stuðningi ykkar í 2.-3. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi, en prófkjörið mun fara fram dagana 10.-12. júní nk.

Fái ég sæti á Alþingi mun ég leggja mig fram um að verja þaðan þær undirstöður frjálslyndrar lýðræðishefðar sem stjórnarskrá okkar og lýðveldið Ísland grundvallast á.
Framangreind afstaða mín er í fullu samræmi við hina klassísku sjálfstæðisstefnu og hugsjónir hennar um sjálfsákvörðunarrétt, einstaklingsfrelsi og atvinnufrelsi. Enn sem fyrr eru þessi góðu gildi grundvöllur þess að fjölskyldur og fyrirtæki, menntun, menningar- og efnahagslíf geti blómstrað.

Arnar Þór Jónsson

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar