Það er húsnæðiskrísa í Kópavogi

Aðalfundur Vina Kópavogs, sem var haldinn fimmtudaginn 27. apríl 2023, átelur stefnuleysi meirihluta bæjar- stjórnar í Kópavogi í húsnæðismálum andspænis þessari krísu, en þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Vinum Kópavogs, sem barst fjölmiðlum í síðustu viku.

,,Það er skylda sveitafélaga að greina framboð og eftirspurn eftir ólíkum búsetuformum og hvort jafnvægi ríki á búsetumarkaði. Ríkið hefur gert rammasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga í þeim tilgangi að stuðla að framboði fjölbreytts húsnæðis [1]. Reykjavíkurborg hefur gengið frá þess konar samningi við ríkið þannig að fólk sem býr við mismunandi aðstæður og hefur misjafnar þarfir geti sest að í borginni. Kópavogsbæ ber að sama skapi að stuðla að framboði á húsnæði sem gerir námsmönnum, öryrkjum og fyrstu kaupendum mögulegt að búa í Kópavogi, hvort heldur er í leiguhúsnæði eða eigin húsnæði.

Stjórn og samræming húsnæðismála Í Kópavogi hefur engin verið. Leiguhúsnæði, námsmannaíbúðir og nýjar íbúðir á viðráðanlegu verði hafa ekki verið á boðstólum um langt árabil. Hins vegar hafa fjárfestar, sem kaupa upp byggingar til niðurrifs, fengið lausan tauminn til að deiliskipuleggja nýja íbúðabyggð. Fjárfestarnir eru ekki krafðir um eðlilega þátttöku í kostnaði við innviðauppbyggingu þegar skipulagi er breytt fyrir þá. Eðli málsins samkvæmt huga þeir fyrst og fremst að ávöxtun á eigin fé. Þeir byggja íbúðir sem höfða til efnameira og eldra fólks eða fyrir leigufélög með lúxusíbúðir. Það er markhópurinn sem hefur ráð á því að fjárfesta í þessu dýra húsnæði. Þetta er uppskrift að skipu-lagsslysi með einsleitri byggð.

Meirihlutann skortir skilning á því að væn samfélög verða aðeins til með fjölbreyttri flóru mannlífs. Þá er þetta skammsýni af því að fólk sem til bæjarins flytur er líklegra til að greiða háan fjármagnstekjuskatt til ríkisins en útsvar til sveitarfélagsins. Bæjaryfirvöld hafa hvorki sinnt stefnumörkun varðandi tegund og framboð húsnæðis né varðandi þátttöku fjárfesta í innviðakostnaði. Nauðsynlegir viðbótar innviðir vegna nýs íbúðarhúsnæðis á þéttingarsvæðum greiðast því af þeim íbúum sem fyrir eru. Á sama tíma fara eldri hverfi á mis við eðlilegt viðhald og þjónustu. Stefnuleysi og andvaraleysi Kópavogsbæjar í þessum málum felur því í sér mikinn fórnarkostnað.

Aðalfundur Vina Kópavogs skorar á meirihluta bæjarstjórnar og bæjarstjóra að hefja þegar í stað undirbúning að gerð samnings við ríkisvaldið í því skyni að auka á fjölbreytni í framboði húsnæðis. Ennfremur er skorað á meirihlutann að semja reglur um innheimtu innviðagjalda á grunni þeirrar tillögu Vina Kópavogs, sem samþykkt var samhljóða í bæjarstjórn á síðasta ári en ekkert hefur spurst til síðan.

[1] Samkvæmt rammasamningi er gert ráð fyrir að 30% nýrra íbúða verði hagkvæmar íbúðir á viðráðanlegu verði, sem byggðar er með stofnframlögum frá ríkinu eða með hlutdeildarlánum, samtals um 6.000 íbúðir á næstu fimm árum. Að sama skapi er áætlað að 5% íbúðanna verði félagsleg húsnæðisúrræði á vegum sveitarfélaganna, eða um 1.000 íbúðir á næstu fimm árum. Með þessum aðgerðum er verið að mæta þeim hópi sem hefur átt erfitt með að komast inn á húsnæðismarkaðinn bæði fyrstu kaupendum og tekju- og eignalægri hópum.”

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar