Sigurbjörg vill áfram leiða lista Pírata í Kópavogi

Ég tilkynni hér með að ég sækist eftir því að leiða áfram lista Pírata í Kópavogi í komandi sveitarstjórnarkosningum. Við höfum átt mjög árangursríkt kjörtímabil þrátt fyrir að vera í minnihluta og komið ýmsum góðum málum í verk.

Í öllum mínum störfum hef ég lagt áherslu á aukið íbúasamráð, gegnsæi, hugað að áhrifum á loftslagið í allri ákvarð-anatöku og staðið vörð um mannréttindi og persónuvernd.

Fyrir tilstuðlan Pírata í Kópavogi hefur bæjarstjórn meðal annars innleitt reglur um hagsmunaskráningu kjörinna fulltrúa, hafið að birta fylgigögn með fundargerðum, bætt aðgengi að ókyngreindum búningsklefum í sundlaugunum og samþykkt að kolefnisjafna allar ferðir starfsfólks bæjarins á vinnutíma.

Undanfarin fjögur ár hafa verið mjög lærdómsrík. Ég þrífst í krefjandi verkefnum og nýt þess að leysa fjölbreyttar áskoranir og hef ég því getað nýtt bæjarfulltrúastarfið til að skila árangri fyrir íbúa. Nú býð ég fram krafta mína til þess að halda áfram okkar góðu vegferð. Ég tel það vera mjög raunhæfan möguleika að Píratar komi að myndun meirihluta í Kópavogi á næsta kjörtímabili þar sem við munum hafa enn meiri áhrif.

Stærstu áskoranir komandi ára eru loftslagsmálin og þar spila skipulag og samgöngur stóran sess. Ég hef mikinn metnað fyrir því að Kópavogur verði leiðandi í málaflokknum og ég tel Pírata hafa á að skipa bestu hugmyndafræðinni til þess að koma okkur þangað.

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi í Kópavogi

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar