Eldumst og eflumst

Aldur er afstæður enda segir hann okkur ekki allt um líkamlega eða andlega heilsu, hreyfigetu eða minni. Við lifum líka lengur en áður og erum hraustari. Þessi staðreynd fer ekki framhjá neinum bæjarbúa í Garðabæ. Fjölbreyttur og öflugur hópur eldri bæjarbúa er stór hluti af mannlífinu í Garðabæ. Mikil þátttaka í Janusar-verkefninu, gönguhópar, golf, kaffihúsahittingar, zumba, sund, Qi-Gong, skák, bridge og svo mætti áfram telja. Það hefur orðið stórkostleg vitundarvakning um mikilvægi þess að viðhalda virkni og stuðla að vellíðan eldra fólks. Fjölnota íþróttahúsið Miðgarður mun bæta aðstöðu til heilsueflingar til muna. Félagsstarfið í Jónshúsi er öflugt en við þurfum að gera betur, fjölga valkostum og lengja opnunartíma. Huga þarf að uppbyggingu á þjónustu og félagsstarfi í nýjum hverfum til að auka aðgengi eldri bæjarbúa í nærumhverfi sínu.

Betri heimaþjónusta og heilsugæsla

Samþætta þarf betur verkefni og þjónustu ríkis og sveitarfélaga við eldra fólk með sérstakri áherslu á samþættingu heimahjúkrunar og stuðningsþjónustu. Finna þarf nýjar leiðir til þess að auka við stuðning og heimaþjónustu, samhliða því að stuðla að aukinni virkni. Ákveðin gjá hefur myndast hjá hópi aldraðra þegar búseta í heimahúsi verður erfið en dvöl á hjúkrunarheimili hentar ekki eða er ekki í boði. Við þurfum áfram að tryggja framboð á fjölbreyttu húsnæði í sveitarfélaginu. Eins mun lækkun fasteignagjalda hafa jákvæð áhrif á þennan hóp. Ríkið verður að fjölga rýmum á hjúkrunarheimilum og efla dagþjónustu. Ástandið á heilsugæslunni er ekki boðlegt. Það gengur ekki að biðtími aldraðra og veikra eftir því að fá tíma hjá lækni teljist í vikum. Við þurfum að tryggja þessum hópi greiðan aðgang að öldrunarlæknum eða hjúkrunarfræðingum.

Eflum nýsköpun í öldrunarþjónustu

Mikil tækifæri eru í betri nýtingu á fjölbreyttri velferðartækni sem og samhæfingu milli þjónustukerfa með það að markmiði að bæta þjónustu. Ávinningurinn er hagkvæmni, minni sóun á tíma og mannafla og umfram allt annað, aukin lífsgæði og sjálfstæði notenda. Við þurfum að setja aukinn kraft og áherslu á innleiðingu velferðartækni í þjónustu við eldra fólk.

Rannsóknir sýna að Covid hefur haft alvarlegar afleiðingar á líðan fólks. Eldra fólk er meira einmana. Faraldurinn hefur dregið úr félagslegum samskiptum. Þetta er slæm þróun, þróun sem við þurfum að taka alvarlega og bregðast við af festu og fagmennsku. Hér þurfa ríki og sveitarfélög að grípa inn í.

Einfaldara kerfi og betri þjónusta

Það þarf að móta heildstæða stefnu í málefnum eldri borgara. Hér er um að ræða risavaxið þjóðfélagsverkefni sem ekki má ýta til hliðar. Ljóst er að þarfir fólks eru mjög mismunandi og lausnir verða að vera einstaklingsmiðaðar. Einfalda þarf flókið og sundurleitt lagaumhverfi í málefnum eldra fólks og gera það skilvirkara. Góð þjónusta á að vera einstaklingsmiðuð, samþætt og aðgengileg.

Áslaug Hulda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs. Sækist eftir 1. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar