Úr vörn í sókn!

Síðustu tvö ár höfum við þurft að breyta venjum okkar og fórna lífsgæðum. Við höfum varið okkur; einangrað, hlustað á fréttir um ógnir við heilsu og efnahag. Faraldurinn hefur lagst þungt á unga fólkið sem hefur ekki notið viðeigandi félagslífs á viðkvæmum mótunarárum. Þau sem eldri eru sakna tilbreytingar og samskipta við fólkið sitt. Ljóst er að mikið hefur reynt á þá sem fyrir bjuggu við áskoranir s.s. einangrun, veikindi eða fatlanir.

Sókn: Ungmenni og eldra fólk

Ég vil að við í Garðabæ verðum tilbúin fyrir sókn; að styðja við og virkja ungmenni og eldra fólk þegar Covid lýkur. Auðurinn liggur í fólkinu okkar, stöndum vörð um það. Ungt fólk hefur mikla þörf fyrir félagsskap og á erfitt með að halda rútínu ef skipulagið krefst þess ekki. Eldra fólk hefur dregið sig inn í skelina til að verja eigin heilsu og er hættara við að einangrast en þeim sem eru á vinnualdri. Við skulum því taka ákvörðun um að skapa enn öflugra mannlíf í Garðabæ eftir heimsfaraldurinn.

Tækifæri í Garðabæ

Við höfum öll fundið hversu mikilvægt er að upplifa samveru með fjölskyldu og vinum, öryggi og rútínu, tilbreytingu og tilhlökkun. Sköpum tækifæri til að hittast, upplifa og njóta. Bætum aðgengi að viðburðum, heilsueflingu, menningu og samveru. Skóla-, íþrótta-, tómstunda- og menningarstarf í Garðabæ á að vera í fremstu röð. Þar á sömuleiðis að vera gott að eldast. Unga fólkið er framtíðin og þarfir eldra fólks eru fjölbreyttar. Aðstæður og væntingar þessa aldurshópa hafa breyst undanfarin ár. Hugum að þeim eftir heimsfaraldur. Útfærum næstu skref í samvinnu við fólkið sjálft. Horfum m.a. til þess að:

• Bæjarfélagið stuðli að fjölbreyttum rekstrarformum heilsuþjónustu í bænum.
• Fjölbreytt og metnaðarfullt íþrótta-, tómstunda- og menningarstarf sé aðgengilegt.
• Leik- og grunnskólastarf styðji markvisst við sjálfstraust, samskipti og félagsfærni.
• Skapa möguleika á að ungt fólk geti keypt sér húsnæði í Garðabæ, t.d. með því að byggja minni og hagkvæmari íbúðir.
• Eldri borgarar fái fjölbreytta og nútímalega þjónustu. Hér sé öflugt félagslíf, aðgengi að snjalllausnum og stuðningur við að búa heima sé þess óskað.
• Tryggja í skipulagi samverustaði innan- og utandyra, góða stíga til útiveru og tengingu milli svæða.
• Skapa farveg nýjunga t.d. raf- eða vatnasport, útitónleika, ungmennahús, skautasvell eða annað sem bæjarbúum dettur í hug.
• Miðgarður, nýtt fjölnota íþróttahús, gefur möguleika fyrir ungmenni og eldra fólk til fjölbreyttrar heilsueflingar.

Vinnum með þeim sem nýta þjónustuna

Bæjarfélag á að skapa góð uppeldisskilyrði og stuðla að lýðheilsu bæjarbúa. Ég vil sjá Garðabæ styðja við félagslegt net eldri borgara og hlúa sérstaklega að ungu fólki. Í sumum tilfellum getur verið nægjanlegt að styðja við góðar hugmyndir. Ýmislegt má gera án mikils kostnaðar. Förum úr (sótt)vörn í (gæða)sókn; tölum saman, vinnum saman – bætum tilveruna eftir krefjandi tíma.

Sigríður Hulda Jónsdóttir er bæjarfulltrúi, varaformaður bæjarráðs, formaður skólanefndar og gefur kost á sér í 1. sæti i prófkjöri Sjálfstæðisfélaganna í Garðabæ. Áherslur hennar má sjá nánar á heimasíðunni sigridurhuldajons.is og Facebook síðunni Sigríður Hulda 1. sæti.

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar