Kópavogsbær hefur um langt skeið verið farsælt sveitarfélag og í fremstu röð á Íslandi. Bærinn er vel rekinn, vel skipulagður og meginþorri íbúa ánægður með þjónustu bæjarins. Hér sjá bæði fólk og fyrirtæki framtíð sína. Stærsta áskorunin felst hins vegar í því að sofna ekki á verðinum eða vera værukær þegar vel gengur. Því er nauðsynlegt að standa vörð um það sem vel er gert, en vera um leið vakandi fyrir nýjum og ferskum hugmyndum.
Við Sjálfstæðismenn viljum fjárfesta í framtíðinni með því að stíga næsta skref í stafrænni þróun fyrir alla skóla Kópavogs. Þar er einstakt tækifæri til að nýta tæknina betur, á skapandi hátt sem bæði samþættir kennsluefni og skapar heildstætt og persónumiðað nám fyrir nemendur. Með því bætum við gæði náms sem og vinnuumhverfi kennara í skólunum okkar.
Við erum staðráðin í að afnema biðlista á leikskólum og brúa bilið frá því að fæðingarorlofi lýkur og þar til börn fá leikskólapláss. Við viljum bjóða nýtt dagvistunarúrræði með færanlegum húsnæðiseiningum í þeim hverfum þar sem þörfin er mest. Við viljum að foreldrar hafi val og því viljum við bjóða heimagreiðslur til foreldra barna frá tólf mánaða aldri sem kjósa að vera heima með barnið sitt þar til leikskólapláss losnar. Norðurlöndin hafa leyst þennan vanda og við eigum ekki að vera eftirbátur í þessu mikilvæga málefni.
Eldri bæjarbúar, sem vilja og geta búið í eigin húsnæði, eiga að hafa val um slíkt með réttum stuðningi. Því viljum við samþætta heimaþjónustu og heimahjúkrun sem skilar sér í bættri líðan og auknum lífsgæðum eldri borgara. Við teljum mikilvægt að stuðla að hreyfingu og virkni þeirra sem lokið hafa starfsævinni og útvíkka verkefnið Virkni og vellíðan þannig að það nái til fleiri.
Við boðum framsýna hugsun í skipulagsmálum og munum sérstaklega beita okkur fyrir greiðum samgöngum fyrir fjölbreyttan lífstíl í takt við vaxandi bæ. Kópavogsbúar vilja sjálfsbær og vistvæn hverfi og því þurfum við að hafa skýra framtíðarsýn þegar kemur að uppbyggingu hverfanna okkar.
Við hlustum á sjónarmið bæjarbúa og ætlum að eiga aukið samtal við þá með færanlegum starfsstöðvum milli hverfa og tíðum hverfisfundum. Þannig gerum við saman bæinn okkar enn skemmtilegri. Við ætlum einnig að fjárfesta í Kópavogsappinu þar sem bæjarbúar geta með einum smelli í símanum til dæmis lesið um hvenær ruslið er tekið, götur sópaðar og hvar græn svæði og göngu- eða hjólastíga er að finna í nærumhverfi sínu. Við viljum einnig lifandi bæ sem býður uppá fjölbreytta viðburði. Því verður viðburðadagatal Kópavogs einnig að finna í Kópavogsappinu.
Hér hef ég talið nokkur atriði sem við ætlum að leggja ríka áherslu á kjörtímabilinu. Við erum með framsæknar hugmyndir sem auka lífsgæði bæjarbúa og við ætlum að láta verkin tala. Framtíðin er í Kópavogi og við förum ekki þangað á gömlum venjum eða með staðnað hugarfar.
Ásdís Kristjánsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi