Menningarstarf og húsnæðismál

Elísabet Sveinsdóttir formaður Lista- og menningarráðs Kópavogs heldur því fram í viðtali við Kópavogspóstinn 4. maí sl. að húsnæði Héraðsskjalasafns Kópavogs sé ónýtt. Þetta kannast undirritaður héraðsskjalavörður Kópavogs ekki við. Gat í gólfdúkinn á skrifstofu hans dugir ekki til að lýsa húsnæðið allt ónýtt.
 
Húsnæði Héraðsskjalasafns Kópavogs að Digranesvegi 7 var tekið í notkun 2012 auk fjargeymslna að Fannborg 3-5. Húsnæðið var samþykkt af Þjóðskjalasafni Íslands. Ákveðnir vankantar hafa vissulega komið upp eins og gengur þegar um eldra húsnæði er að ræða, en úr því hefur jafnan verið leyst og ekki orðið tjón á safnkosti. Rekstur húsnæðis Héraðsskjalasafns Kópavogs er í höndum eignadeildar bæjarins og eigandinn er eignasjóður Kópavogsbæjar. Viðhaldsmál og eignarhaldsmál húsnæðis eru ekki í höndum einstakra stofnana bæjarins þótt að því sé látið liggja í viðtalinu. Héraðsskjalasafn Kópavogs leigir húsnæði sitt hjá eignasjóði bæjarins fyrir tiltekna upphæð á hverju ári, sem kemur fram í reikningum þess.
 
Ekki mun hafa komið til álita að afhenda öðrum en Kópavogsbæ rekstur Kársnesskóla þrátt fyrir ónýtt húsnæði skólans.
 
Lögbundin varðveisla skjala Kópavogsbæjar mun verða mun dýrari í höndum Þjóðskjalasafns Íslands en hefur verið hjá Héraðsskjalasafni Kópavogs. Sú ráðstöfun er því ekki í hagræðingarskyni. Formaður Lista- og menningarráðs virðist nú telja ástæðuna ónýtt húsnæði, sem þegar að er gáð er ekki ónýtt. Ástæður þess að leggja niður Héraðsskjalasafnið eru því mjög óljósar, nýjar ástæður fundnar upp eftir því sem rök eru færð gegn þeim sem uppi hafa verið líkt og í örvæntingu drukknandi manns í úthafi rökþrotsins. 
 

Héraðsskjalasafn Kópavogs

Aðstöðuleysi Héraðsskjalasafnsins sem formaður Lista- og menningarráðs lýsir sig gáttaða á er í anda upplýsinga sem birtust í skýrslu KPMG um menningarstofnanir bæjarins, en engu var líkara en skraddarar nýju fatanna keisarans væru þar að verki. Geymslupláss er vissulega á þrotum, en það má leysa með fjargeymslum í gluggalausu atvinnuhúsnæði. Engum verðmætum er hætta búin í vörslum Héraðsskjalasafns Kópavogs í þeim húsakosti sem það hefur haft. Þeim er hins vegar veruleg hætta búin við skipulagslausa skyndiákvörðun um að leggja Héraðsskjalasafnið niður, án undangenginna viðræðna og samninga um ráðstöfun safngagna.

Um umræður um lokun Héraðsskjalasafns Kópavogs hefur undirritaður ekki heyrt fyrr en KPMG skýrslan kom fram, en leynd af henni var aflétt í apríl sl. Skýrslan var í smíðum á fyrri hluta ársins. Það eru ekki mörg herrans ár eins og Elísabet heldur fram. Þvert á alla flokka hafa kjörnir fulltrúar í bæjarstjórn Kópavogs jafnan verið Héraðsskjalasafninu hlynntir, frá því undirritaður kom til starfa í ársbyrjun 2006, þangað til annað kom í ljós er leynd var aflétt af tillögum bæjarstjóra um tilhögun menningarmála bæjarins 25. apríl sl. Vekur það athygli hversu lélega ráðgjöf bæjarstjóri hefur fengið.
 
Í tillögum bæjarstjóra felst sundrun safngagna Héraðsskjalasafns Kópavogs með tilfærslu á völdum einingum í safnkostinum annað. Slík pólitísk íhlutun í fagmálefni er jafnan talin varhugaverð í lýðfrjálsum ríkjum þar sem borgaraleg stjórnsýsla er við lýði. Lög standa til þess að falli héraðsskjalasafn í vanhirðu skuli safngögn (án undanskota) flutt á kostnað hlutaðeigandi sveitarfélags í Þjóðskjalasafn Íslands. Markmiðið er að hafa skjölin í faglegri umsjá skjalavarða.
 
Elísabet Sveinsdóttir virðist þekkja lítt til starfsemi Héraðsskjalasafns Kópavogs, en henni og öðrum er velkomið að kynna sér hana með heimsókn í húsakynni þess með því að ræða við starfsmenn þar sem nú búa við algera óvissu, ekki er enn búið að reka þá úr starfi, en stofnunin er ekki lengur til, hún var lögð niður 25. apríl sl. Að því er virðist að ástæðulausu og í stefnulausu óðagoti. Verði við svo búið látið standa mun það augljóslega kosta bæjarsjóð verulega aukin útgjöld á næstu árum. Menningarmálaráðherra hefur nýlega lýst því yfir að rukkað verði fyrir þjónustu Þjóðskjalasafns.
 
Yfirvofandi þjónustufall Héraðsskjalasafns Kópavogs hefur á sér margar hliðar bæði gagnvart stjórnsýslu og bæjarbúum. Sögufélag Kópavogs mun að líkindum lognast út af, Héraðsskjalasafnið blés því lífi í brjóst á sínum tíma og hefur staðið sem klettur við hlið þess, en jafnframt haft mikið gagn af öflugu starfi þess. Margar afhendingar skjala (m.a. ljósmynda) frá félagasamtökum, fyrirtækjum og einstaklingum hafa komið í Héraðsskjalasafnið fyrir tilstilli félagsins. Nú fer það allt í Þjóðskjalasafnið. Útgáfurit hafa litið dagsins ljós í samvinnu Sögufélags og Héraðsskjalasafns. Minjasafn bæjarins er í vörslu Héraðsskjalasafnsins. Allt er þetta í uppnámi. Hvernig þetta öfluga menningarstarf geti orðið enn betra við að leggja niður Héraðsskjalasafnið er undirrituðum óskiljanlegt. Tæplega telst boðlegt að útskýra ákvarðanir með aðferðum sem George Orwell gerði frægar í skáldsögunni 1984 þar sem svokallað Nýmál var notað með því að lýsa veruleikanum með öfugmælum. Í stað Héraðsskjalasafns Kópavogs, minnis Kópavogs og Kópavogsbúa, kemur vonandi ekki Memory Hole eða minnisgap eins og í sömu skáldsögu Orwells. Frekar en að réttlæta gönuhlaup með ósannindum er betra að kunna þá göfugu list að skipta um skoðun og fara aðra leið.
 
Hrafn Sveinbjarnarson héraðsskjalavörður

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar