Mikilvægt að ræða við íbúana um uppbygginguna

„Það er fjölbreytt byggð í uppbyggingu á Álftanesi og eins og staðan er núna þá eru fjögur svæði í framkvæmdum. Víðiholt, þar sem rísa munu 70 íbúðir, Krókur, þar sem verða 51 íbúð. Þá er gatnagerð lokið í Kumlamýri og í Breiðamýri. Mér finnst gaman er að segja frá því að þar eru hús byrjuð að rísa,“ segir Almar Guðmundsson bæjarstjóri aðspurður um jarðvegsvinnu og framkvæmdir á Álftanesi. „Íbúar hafa án efa orðið varir við þessar framkvæmdir og þessu fylgir auðvitað rask, en ég er mjög þakklátur fyrir að þau hafa sýnt þessu skilning og við höfum fylgt eftir ábendingum þeirra um það sem betur má fara,“ segir hann.

Svæðin verða auðvitað ekki öll klár á sama tíma og má búast við því að þróun íbúafjöldans verði því nokkuð stöðug, en taki tíma.

„Fyrstu íbúarnir í Kumlamýri muna líklega flytja inn á þessu ári, á næsta ári má búast við íbúum í Breiðumýri og síðan heldur þróunin áfram á öllum svæðunum þar til þau verða fullbyggð. Við erum að horfa til framtíðar og næstu ára. Þetta gerist jafnt og þétt en ekki á neinu hundavaði.“

Sjarminn aldrei í hættu

Þetta er mikil uppbygging sem á sér stað á stuttum tíma, en reiknað er með um 400 nýjum íbúum á svæðinu. Ertu ekkert smeykur að of geyst sé farið í þessa uppbyggingu, er sveit í borg sjarmurinn nokkuð í hættu á Álftanesi? „Ég myndi aldrei segja að hann væri í hættu eða við leggja til framkvæmdir sem stefna honum í hættu. „Sjarminn“ er einstakur. Við erum að ljúka uppbyggingu sem hefur verið í bígerð í 30 ár. Fólkið sem hingað sækir er einmitt að leita að þessu: sveit í borg þar sem veitt er góð þjónusta, fólk hefur aðgengi að einstakri náttúru og einmitt – þessum sjarma.“

Græn og falleg framtíðarhverfi

Almar Guðmundsson bæjarstjóri í Garðabæ

Íbúafjölguninni þurfa auðvitað að fylgja innviðir, en það getur líka verið strembið fyrir íbúa að búa við raskið sem fylgir framkvæmdunum. Hvað erum við að horfa á og við hverju má búast? „Það vita það allir sem hafa staðið í framkvæmdum, að það er krefjandi á meðan þær standa yfir. Og í dag er auðvitað allt á fullu í framkvæmdum á Álftanesi, en ég veit að þegar þeim er lokið að mestu munum við sjá hversu græn og falleg þessi hverfi verða. Þau falla vel að byggðinni og allar nýjar íbúðir munu liggja að opnum svæðum sem teygja sig í gegnum byggðina. Fleiri íbúum fylgir auðvitað þörf fyrir frekari innviði sem íbúar Álftaness hafa verið að kalla eftir. Það er mjög gott að geta orðið við því ákalli. Í haust stefnum við á íbúafund. Ég fann það á íbúafundi sem við héldum í september síðastliðnum að við þurfum að eiga virkt samtal um uppbygginguna. Ég hlakka til þess samtals enda finnst mér best að ræða málin beint við íbúana. Þessi uppbygging skapar afskaplega mörg tækifæri fyrir Álftanes,“ segir Almar.

Garðabær ætlar sér að veita góða þjónustu til samfélagsins og stuðla að slíku? „Við skynjum til dæmis afskaplega vel ákallið um aukna þjónustu. Ég hef trú á því að í Breiðumýri megi til dæmis gera ráð fyrir matvöruverslun og annarri nærþjónustu, það er innan skipulagsins þar. Íbúðir í Breiðumýri munu henta eldri borgurum mjög vel. Í Lambamýri á Garðabær stórt og gott rými sem við stefnum á að nýta á fjölbreyttan hátt, meðal annars fyrir félagsstarf aldraðra. Við eigum greiningar á íbúaþróun á Álftanesi og vinnum að því að uppfæra þær reglulega. Ég tel líklegt verði vinsælt hjá barnafjölskyldum og þar af leiðandi þurfum við að huga að fleiri plássum í skóla og leikskóla. Áframhaldandi uppbyggingin íþróttamannvirkja er líka ofarlega á blaði. Við munum bregðast við því í tæka tíð.“

Framtíðarmúsík

En svo er það golfvöllurinn – verður golfið lagt af á Álftanesi með þessari uppbyggingu miðsvæðis „Auðvitað ekki! Núverandi golfvöllur hefur tekið ákveðnum breytingum sem voru unnar í góðu samstarfi við Golfklúbb Álftaness. Það er spennandi að fylgjast með því hvernig þau koma sér fyrir í nýuppgerðu húsnæði Þórukots. Samkvæmt skipulagi okkar gerum við ráð fyrir að golfvallarstæðið færist á norðurnesið og vinnum við að undirbúningi þess,“ segir Almar.

En hvað framtíðina varðar, sérðu þá fyrir þér frekari uppbyggingu á Álftanesi á komandi árum, enn landsvæði sem er fyrirhugað að byggja á? „Þetta er langstærsti þátturinn í uppbyggingu á Álftanesi Í skipulagi er gert ráð fyrir íbúabyggð þar sem golfvöllurinn stendur nú og þá er til skoðunar þróun byggðarinnar á Norðurnesinu. En það er framtíðarmúsík.“

Megum öll vera stolt af því hvernig til hefur tekist

Og svona að lokum, sameining Garðabæjar og Álftaness tók gildi fyrir rúmum 10 árum. Svona þegar horft er til baka og staðan metin, var þetta þá heillavænleg og góð ákvörðun fyrir bæði sveitarfélögin „Já. Við getum öll verið stolt af því hvernig til hefur tekist,“ segir Almar stutt og laggott að lokum, en kosið var um sameininguna 23. október 2012 og 53,1% Garðabæinga sögðu já við sameiningunni, en 87,6% Álftnesinga sögðu já.

Jarðvegsvinna við Víðiholt
Breiðumýri
Breiðumýri
Parhúsin eru farin að rísa í Kumlamýri
Jarðvegsvinna í fullum gangi á Króki þar sem 50 íbúðir í raðhúsum munu rísa

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar