Menningarhúsin eru okkar flaggskip 

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, leggur áherslu á að efla menningu og auka aðgengi að henni þannig að sem flest fái að njóta. 

„Við erum að blása til sóknar í menningarmálum í Kópavogi með breyttri nálgun og forgangsröðun. Staða forstöðumanns Salarins er laus til umsóknar og verður spennandi sjá hver tekur þar við stjórnartaumum. Þá eru miklar breytingar væntanlegar á fyrstu hæð Safnahússins, sem hýsir Bókasafn Kópavogs og Náttúrufræðistofu Kópavogs. Þar verður rýmið opnað og endurhannað og ég get með sanni sagt að það verður frábær viðbót við þá starfsemi sem er að finna nú þegar í menningarhúsum bæjarins.“ 
 
Eru breytingar í vændum í Salnum?  „Auglýst hefur verið eftir nýjum forstöðumanni Salarins og ég efast ekki um að það munu fylgja einhverjar breytingar í kjölfarið. Salurinn er frábært tónlistarhús og klárlega  hægt er að efla starfsemina enn frekar. Ég hlakka til að sjá hvað nýr forstöðumaður hefur fram að færa til að glæða þetta frábæra tónleikahús enn meira lífi en nú er. Salurinn er fyrsta sérhannaða tónlistarhús landsins og stolt okkar Kópavogsbúa. Þar er algjörlega frábært að vera á tónleikum enda vandað til verka þegar húsið var reist. Undanfarin ár hefur ýmislegt sem snýr að tæknibúnaði verið endurnýjað og húsgögn í anddyri, aðstaðan er því orðin enn betri. Þá opnaði Krónikan nýverið, sem er smurbrauðsstaður, og sér um veitingar fyrir sýningar, í miðri sýningu og eftir sýningar. Þetta er ekki amalegur efniviður fyrir nýjan stjórnanda.  

Ég ber fullt traust til Þjóðskjalasafns

Menningarmálin í Kópavogi hafa verið í brennidepli síðan síðastliðið vor þegar ákveðið var að leggja niður Héraðsskjalasafn Kópavogs og rannsóknarhluta Náttúrufræðistofu sömuleiðis. Hvers vegna var farið í þær breytingar?  „Það lá fyrir að til þess að unnt væri að gefa Héraðsskjalasafninu fullnægjandi umgjörð þá þyrfti að ráðast í miklar fjárfestingar í húsnæði. Niðurstaðan varð að leita til Þjóðskjalasafnsins líkt og fjöldi sveitarfélaga um land allt, þar með talið á höfuðborgarsvæðinu, hefur gert með góðum árangri. Þarna fetum við í fótspor Reykjavíkurborgar sem komst að sömu niðurstöðu með Borgarskjalasafn. Ég ber fullt traust til Þjóðskjalasafns í varðveislu gagna og veit að þau verða eftir sem áður aðgengileg þeim sem eftir leita.“ 

Safnhluti Náttúrufræðistofu lifir góðu lífi

,,Hvað varðar breytingarnar á Náttúrufræðistofu þá töldum við að rannsóknir á vatnalífríki um land allt ætti betur heima á vettvangi ríkisins, heldur en sveitarfélagsins. Nú hefur þeirri starfsemi verið komið í góðar hendur meðal annars hjá Hafrannsóknarstofu. Safnhluti Náttúrufræðistofu lifir hins vegar góðu lífi og mun ganga í endurnýjun lífdaga í fyrirhuguðum endurbótum á jarðhæð Bókasafnsins. Með þessu móti erum við að forgangsraða fjármunum með öðrum hætti, leggja aukna áherslu á safnkost Náttúrufræðistofu og fræðslu og miðlun á honum, en það var einmitt upphaflegi tilgangurinn með stofnun Náttúrufræðistofu Kópavogs árið 1983.  
 Í byrjun næsta árs hefjast  endurbætur á fyrstu hæð safnahússins sem ganga út á að opna það rými og gera aðgengilegra og nútímalegra fyrir íbúa og aðra áhugasama. Þar verður Náttúrufræðistofa og nýtt upplifunarrými sem er í lokahönnun eftir margvíslegt samráð við starfsfólk og íbúa Kópavogs. Við viljum að sem flestir komi í húsin okkar, njóti menningar og samvista við fólk. Menningarhúsin byggja á traustum grunni en verða líka að fá að þróast í takt við tímann. Upplifunarrýmið verður frábær viðbót við það sem fyrir er, um það er ég alveg sannfærð,“ segir Ásdís. 

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar