Lágar álögur og þjónusta við bæjarbúa efld

Áskorun þeirra sem gegna forystu í sveitarfélögum er að standa vörð um ábyrgan rekstur og þá grunnþjónustu sem þeim er ætlað að veita. Misvel hefur gengið hjá sveitarfélögum í þessum efnum og til samanburðar nægir að horfa til höfuðborgarinnar sem boðar nú mikinn niðurskurð og hærri álögur til að draga úr hallarekstri.

Oft er freistandi að seilast í vasa skattgreiðenda til að ná endum saman í stað þess að forgangsraða verkefnum eða hagræða. Dæmi um slíkt eru fasteignaskattarnir sem vaxa samfara hækkandi fasteignaverði að öðru óbreyttu. Í því skjóli hafa mörg sveitarfélög kosið að halda fasteignasköttum óbreyttum og þannig tryggt sér umtalsverðar tekjur ár frá ári umfram verðlagsþróun, fjármagn sem sótt er í launatekjur heimila og veltu fyrirtækja.

Fasteignaskattar lækka og gjöldum stillt í hóf

Við sem gegnum forystu í Kópavogi munum ekki auka álögur á bæjarbúa, þvert á móti verða fasteignaskattar lækkaðir og öðrum gjöldum stillt í hóf. Skattur á íbúðarhúsnæði lækkar úr 0,2% í 0,17% og skattur á atvinnuhúsnæði úr 1,44% í 1,42%. Þetta var kynnt í fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar sem birt var í síðustu viku. Að sama skapi munu almennar gjaldskrár ekki hækka í samræmi við miklar kostnaðarhækkanir.
Fasteignaskattar í Kópavogi verða með þessari lækkun með þeim lægstu á landsvísu en allir bæjarbúar njóta góðs af lækkuninni. Þá er áætlað að fasteignagjöld muni að meðaltali hækka um 5% í samræmi við verðlagsþróun næsta árs, en mikilvægt er að hafa í huga að fasteignagjöldum er ætlað að standa undir þjónustu á borð við sorphirðu, snjómokstur og viðhaldi gatna svo dæmi séu tekin.
Ef ekki hefði komið til lækkunar fasteignaskatta hefðu fasteignagjöldin hækkað um 15%, eða um 400 milljónir króna í formi skattahækkana á Kópavogsbúa. Þessu er öfugt farið t.d í Reykjavík en þar eru engin áform um að lækka fasteignaskatta og því munu álögur á borgarbúa hækka um tug prósenta á næsta ári.

Í töflunni má sjá þrjú ólík dæmi eftir fasteignamati húsnæðis fyrir árin 2022 og 2023, hver fasteignagjöldin voru árið 2022 og fyrir og eftir lækkun fyrir árið 2023

Staðið vörð um grunnþjónustu

Áætlun næsta árs ber svip af krefjandi efnahagsumhverfi og óvissu í kjaramálum. Afkoma Kópavogsbæjar verður jákvæð um ríflega áttatíu milljónir króna og veltufé frá rekstri er áætlað fjórir milljarðar króna á samstæðu bæjarins á árinu 2023. Hagræðing er nauðsynleg en grunnþjónusta verður undanskilin þeim aðgerðum. Aukið fjármagn verður sett í mennta- og velferðarmál og á sama tíma eru áætlaðar umfangsmiklar framkvæmdir, fyrir um sex milljarða króna, á vegum Kópavogsbæjar, s.s. bygging skóla og leikskóla, viðhald íþróttamannvirkja og annarra fasteigna í eigu bæjarins auk gatnagerðar.
Við leggjum áherslu á að leysa mönnunarvanda á leikskólum bæjarins og verða markviss skref stigin á árinu til að bæta starfsumhverfi. Þá verður boðið uppá heimgreiðslur fyrir foreldra sem ekki fá leikskólapláss við tólf mánaða aldur. Lagt verður til viðbótarfjármagn í velferðarþjónustu og heilsuefling eldri borgara efld þar sem verkefnið „Virkni og vellíðan“ verður útvíkkað þannig að fleiri fái tækifæri til heilsueflingar allt árið um kring. Við ætlum að svara ákalli eldri bæjarbúa og bjóða uppá sumaropnun í Boðalaug við Boðaþing. Þetta eru dæmi um verkefni sem sett verða í forgang á árinu 2023.

Áætlun ársins 2023 endurspeglar ábyrgan rekstur og rétta forgangsröðun þar sem álögum og gjöldum er stillt í hóf og þjónusta við bæjarbúa er í forgangi. Það er verkefnið og því verkefni ætlum við að sinna vel til að Kópavogur verði áfram í fremstu röð þegar horft er til lífsgæða hér á landi.

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs
Orri Vignir Hlöðversson, formaður bæjarráðs

Nýjustu greinarnar

Tengdar greinar